Fara í efni

Ferðaáform Íslendinga innanlands könnuð

Gullfoss
Gullfoss

Ferðamálastofa hefur fengið fyrirtækið MMR (Markaðs og miðlarannsóknir ehf.) til að framkvæma könnun um ferðaáform Íslendinga innanlands á komandi sumri (maí-september).

Kannað verður hvort Íslendingar ætli að ferðast í meira mæli innanlands í ár en í fyrra, hvert þeir ætli að ferðast, hvaða þjónustu þeir ætli að nýta, hvenær og hve margar ferðir þeir áætli að fara, hve lengi þeir áætli að dvelja og með hverjum þeir komi til með að ferðast. Auk þess verður hugað að því hvað hafi áhrif á ákvarðanatöku þegar ferðalög innanlands eru annars vegar og hver viðhorf Íslendinga eru almennt til aðstöðu á ferðamannastöðum.

Könnunin er unnin sem net- og símakönnun og er aðferðafræðinni skipt eftir aldurshópum. Spurningar fyrir aldurshópinn 18-67 ára eru lagður fyrir í spurningavagni MMR og svarað á Internetinu og spurningar fyrir aldurshópinn 68-80 ára með símaviðtali eingöngu. Niðurstöður munu liggja fyrir um miðjan maí og koma vonandi til með að nýtast ferðaþjónustuaðilum við skipulagningu og mat á hvers vænta má af ferðasumrinu 2009.