Fara í efni

Ársskýrsla Ferðamálastofu og kynning á verkefnum ársins 2009

Kynning ársskýrslu 2008
Kynning ársskýrslu 2008

Ársskýrsla Ferðamálastofu fyrir árið 2008 er nú komin út og er aðgengileg hér á vefnum. Skýrslan var kynnt á fundi fyrr í vikunni, þar sem einnig farið yfir helstu verkefni Ferðamálastofu á yfirstandandi ári og kynnt áhugaverð rannsókn um viðhorf ferðamanna á Kili.

Í skýrslunni er farið yfir þau fjölbreyttu verkefni sem Ferðamálastofa sinnti á síðasta ári. Talsverðar breytingar urðu á árinu, bæði á starfi stofnunarinnar og ytra umhverfi. Fjárhagsleg umsvif námu rúmum 700 milljónum króna og var reksturinn innan fjárheimilda.

Verðmætar blaðamannaheimsóknir
Sem dæmi um það öfluga starf sem Ferðamálastofa sinnir má nefna að um 700 blaða og fjölmiðlamenn komu til landsins fyrir forgöngu eða með aðstoð Ferðamálastofu á árinu. Verðmæti þeirrar umfjöllunar sem kemur í kjölfar slíkra ferða er jafnan margfalt á við þann kostnað sem af þeim hlýst. Þannig hefur verið reiknað út að þær ferðatengdu blaðagreinar sem birtust um Ísland bara í Þýskalandi hafi verið um 7 milljónir evra að birtingarverðmæti.

Rannsóknir og kannanir
Rannsóknir og kannanir eru sem kunnugt er mikilvæg forsenda allrar áætlanagerðar. Ferðamálastofa sér um talningu á ferðamönnum sem koma til landsins, skipt eftir þjóðerni, og á árinu fóru erlendir gestir í fyrsta sinn yfir hálfa milljón. Á árinu voru einnig kynntar niðurstöður gæðakönnunar meðal erlendra ferðamanna og hafinn undirbúningur rannsóknar á viðhorfum til Íslands.

Umhverfis-, þróunar og gæðamál
Starf að umhverfismálum var fjölbreytt sem fyrr. Meðal annars var úthlutað styrkjum til úrbóta á ferðamannastöðum líkt og verið hefur en víða er mikil þörf á að taka betur á í þeim efnum. Þróunar og gæðamál skipa æ stærri sess  og má þar nefna flokkun gististaða og tjaldsvæða, umsýslu með styrkveitingum, þróunarverkefni í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð, námskeiðahald, kynningafundir o.fl.

Ársskýrsla Ferðamálastofu 2008 - PDF

Helstu verkefni framundan
Á fundum fóru Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs, og Jón Gunnar Borgþórsson, forstöðumaður markaðssviðs, einnig yfir helstu áherslur í starfinu framundan. Verið er að leggja lokahönd á stefnumótunarvinnu Ferðamálastofu sem ætlað er að leggja línurnar fyrir starfið og skipulag þess næstu misseri. Í þeim efnum hefur mest áhersla verið á endurskipulagningu á markaðssviði, með það fyrir augum að nýta betur þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru fyrir markaðssetningu landsins. Í stað þess að reka sérstakar skrifstofur erlendis hefur verið tekið upp aukið samstarf við aðra aðila sem vinna að kynningarmálum Íslands. Þannig næst fram hagræðing og aukinn slagkraftur í markaðssetningu vegna samlegðaráhrifa. Í lok mars var skrifað undir samning milli utanríkisráðuneytisins, Ferðamálastofu og Útflutningsráðs um stóraukið samstarf í landkynningar- og markaðssamstarfi erlendis. Sendiráð Íslands taka að verulegu leyti yfir hlutverk landkynningarskrifstofa Ferðamálastofu erlendis og er þessa dagana unnið að lokun skrifstofanna í Kaupmannahöfn og Frankfurt með færslu verkefna til sendiráðanna.

Þá má nefna að hugur Ferðamálastofu stendur til aukinnar áherslu á uppbyggingu, þróunar- og gæðamál innanlands með það fyrir augum að styrkja innviði íslenskrar ferðaþjónustu. Í þeim efnum má nefna stuðning við uppbyggingu sjö markaðsstofa /landshlutamiðstöðva og mótun samstarfs við þær, fjölgun meginferðamannastaða (segla), endurskipulagningu á rekstri upplýsingamiðstöðva, endurgerð markaðs og kynningarvefja, rannsóknir og kannanir, gerða leiðbeiningarrita um merkingar á ferðamannastöðum o.fl.

Kynning á verkefnum ársins 2009 - (PDF)

Viðhorf ferðamanna á Kili
Loks kynnti Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent við Háskóla íslands, á fundinum niðurstöður afar áhugaverðrar könnunar sem gerð var á viðhorfi ferðamanna á Kili en Ferðamálastofa styrkti verkefnið. Lagir voru fyrir spurningalistar á tveimur stöðum, Hveravöllum og Kerlingafjöllum, og tekin viðtöl við bæði ferðamenn og starfsfólk á svæðunum. Rannsóknin er innlegg í stærra verkefni sem hefur að meginmarkmiði að afla þekkingar sem nýtist við gerð landnýtingaráætlunar fyrir ferðamennsku á suðurhluta hálendisins. Kynningu Önnu Dóru má nálgast hér að neðan.

Viðhorf ferðamanna á Kili - PDF