Fréttir

Rekstrarhandbók fyrir hestaleigur og hestaferðafyrirtæki

Ferðamáladeild Háskólans á Hólum hefur gefið út bókina Stjórnun og rekstur í ferðaþjónustu ? hestaleigur og hestaferðafyrirtæki. Mun þetta vera fyrsta rit sinnar tegundar hérlendis. Í tilefni af útgáfu bókarinnar verður efnt til útgáfukynningar mánudaginn 19. febrúar nk. í aðstöðu Íshesta að Sörlaskeiði 26, í Hafnarfirði kl. 15.30. Í frétt frá Hólaskóla segir að mikilvægi fagmennsku í hestaferðaþjónustu vaxi stöðugt, enda sé talið að um 50 þúsund erlendir gestir fari árlega á hestbak á Íslandi. Útgáfan er liður í viðamiklu rannsóknar- og þróunarverkefni sem staðið hefur yfir um árabil við ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Efni bókarinnar byggir meðal annars á niðurstöðum rannsókna meðal rekstraraðila í greininni. Námskeið fyrir rekstraraðila og starfsmenn í hestaferðaþjónustu eru fyrirhuguð í framhaldi af útgáfu bókarinnar. Bókin er rituð af Ingibjörgu Sigurðardóttur (inga@holar.is) viðskiptafræðingi við ferðamáladeild, en hún hefur menntun og starfsreynslu á sviði fyrirtækjarekstrar, ferðamennsku og landbúnaðar og er félagi í Félagi tamningamanna. Samtök ferðaþjónustunnar eiga aðild að verkefninu. Í skýrslu sem gerð var fyrir samtökin árið 2005 og bar heitið Þarfagreining fyrir fræðslu og menntun í ferðaþjónustu kom berlega í ljós að mikil þörf er á að efla menntun og fræðslu innan ferðaþjónustunnar og er hér meðal annars brugðist við því.      
Lesa meira

Hefja á endurskoðun ferðamálaáætlunar

Ákveðið hefur verið að hefja endurskoðun á ferðamálaáætlun 2006 til 2015, nokkru fyrr en áætlað var. Gert var ráð fyrir því að endurskoðunin færi fram fyrir árslok 2009 en þar sem vel hefur gengið að hrinda verkefnum áætlunarinnar í framkvæmd hefur samgönguráðherra ákveðið að ráðist verði í endurskoðunina fyrr. Frá þessu er greint á vef samgönguráðuneytisins. Áætlunin var samþykkt á Alþingi á vordögum 2005. Í stýrihópi sem vann að gerð áætlunarinnar voru Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, og Magnús Oddsson ferðamálastjóri, sem jafnframt var formaður hópsins. Samgönguráðherra hefur ákveðið sömu skipan stýrihópsins. Á vef samgönguráðuneytisins kemur fram að starfshópnum er falið að fara yfir það sem þegar hefur verið gert, meta gæði þeirrar vinnu, hvað megi betur fara og hverju nauðsynlegt sé að bæta við. Breytingar á lagaumhverfi verði hafðar til hliðsjónar sem og samgönguáætlun og fjarskiptaáætlun samgönguráðherra, en samkvæmt þeim er unnið að fjölmörgum þáttum er varða framþróun ferðaþjónustu á Íslandi. Nauðsynlegt er að meta kostnað við framkvæmd endurskoðaðrar ferðamálaáætlunar eins nákvæmlega og við verður komið. Endurskoðunin mun hefjast fljótlega og verður kynnt rækilega opinberlega og á meðal hagsmunasamtaka. Endurskoðuð áætlun verði lögð fyrir nýtt þing á hausti komanda, segir í umræddri frétt.  
Lesa meira

Gistinætur á hótelum skipt eftir þjóðerni

Eins og fram hefur komið birti Hagstofan í liðinni viku tölur um fjölda gistinátta á hótelum á árinu 2006. Fróðlegt er að skoða hvernig þær skiptast eftir þjóðerni gesta. Líkt og talningar Ferðamálastofu á ferðamönnum sem fara um Leifsstöð hafa sýnt þá varð mikil aukning í komum Breta hingað til lands í fyrra og þess sér einnig stað í gistinóttum. Gistinætur Breta voru rúmlega 174 þúsund talsins á árinu 2006 og fjölgaði um 25%. Næstflestar voru gistinætur Bandaríkjamanna, tæplega 114 þúsund. Þá koma Þjóðverjar með tæplega 110 þúsund gistinætur og þótt Þjóðverjum fjölgi lítið hlutfallslega er góð fjölgun frá öðrum löndum í Mið-Evrópu. Aðrar stórar þjóðir í þessari talningu eru nágrannar okkar á hinum Norðurlöndunum og þar má sjá góða fjölgun frá Danmörku og Noregi. Utan Evrópu og Bandaríkjanna eru það gistinætur Kínverja og Japana sem taldar eru sérstaklega og má sjá að gistinóttum Kínverja fjölgar verulega á meðan gistinætur Japana standa í stað. Á árinu 2006 í heild fjölgaði gistinóttum á hótelum um 13% frá fyrra ári, fóru úr 1.035.100 í 1.168.900 milli ára. Hagstofan vekur athygli á því að tölurnar taka eingöngu til hótela sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Í töflunni hér að neðan má sjá nánari skiptingu eftir þjóðerni. Hótel: Gistinætur 2001-2006                        2001 2002 2003 2004 2005 2006 Breyting 05-06 % Alls 771.717 802.351 889.386 968.904 1.035.085 1.168.864 133.779 12,9% Íslendingar 147.714 159.111 172.970 193.242 217.585 248.088 30.503 14,0% Útlendingar 624.003 643.240 716.416 775.662 817.500 920.776 103.276 12,6% Danmörk 36.891 45.236 46.367 53.730 57.984 65.715 7.731 13,3% Svíþjóð 51.206 51.632 54.300 60.698 71.364 62.950 -8.414 -11,8% Noregur 46.109 48.069 54.698 57.362 54.958 60.233 5.275 9,6% Finnland 13.742 15.895 14.743 15.579 19.979 20.600 621 3,1% Bretland 117.123 116.453 130.293 140.365 139.215 174.105 34.890 25,1% Írland 4.439 3.446 4.698 4.859 4.777 5.432 655 13,7% Þýskaland 93.916 91.086 104.224 112.586 109.356 109.861 505 0,5% Holland 22.204 22.697 26.638 23.108 25.253 31.348 6.095 24,1% Belgía 6.160 5.829 4.643 6.380 6.256 5.420 -836 -13,4% Frakkland 24.580 33.426 35.267 33.616 33.606 37.053 3.447 10,3% Sviss 8.742 13.526 16.538 19.506 15.156 19.220 4.064 26,8% Austurríki 4.569 6.645 5.861 7.547 7.406 6.658 -748 -10,1% Ítalía 18.582 18.851 21.969 23.547 23.486 23.668 182 0,8% Spánn 5.721 8.151 11.051 12.535 16.603 18.577 1.974 11,9% Önnur Evrópul. 18.155 15.216 19.823 34.827 29.440 44.503 15.063 51,2% Bandaríkin 103.181 93.864 88.567 96.535 110.417 113.814 3.397 3,1% Kanada 6.324 8.533 10.470 8.690 5.513 8.015 2.502 45,4% Mið-/Suður Ameríka 0 0 0 0 1.222 1.727 505 41,3% Japan 9.059 9.709 13.117 14.820 19.257 19.371 114 0,6% Kína 0 0 0 0 10.227 12.939 2.712 26,5% Önnur Asíulönd 0 0 0 0 7.404 10.099 2.695 36,4% Afríka 0 0 0 0 1.389 2.063 674 48,5% Eyjaálfa 0 0 0 0 3.747 4.970 1.223 32,6% Þjóðerni óþekkt /öll önnur lönd (til og með 2004) 33.300 34.976 53.149 49.372 43.485 62.435 18.950 43,6%
Lesa meira

Skemmdir á Hótel Höfn eftir bruna

Seinnipartinn í gær kviknaði í kjallara Hótel Hafnar.  Ljóst er að um mikið tjón er að ræða vegna reyks um allt hótelið og vatnsskemmda á fyrstu hæð en þar eru öll gólfefni ónýt. Talið er að upphaf eldsins hafi verið í gufuklefa sem er á jarðhæð hótelsins en hann hefur ekki verið í notkun um tíma. Enn er þó verið að rannsaka eldsupptökin og ekki ekki ljóst hvað nákvæmlega orsakaði hann.Nánari fréttir af brunanum má lesa inni á samfélagsvef Hornafjarðar en þaðan er meðfylgjandi mynd fengin.  
Lesa meira

Mid-Atlantic að hefjast

Hin árlega Mid-Atlantic kaupstefna verður haldin um helgina í anddyri Laugardalshallarinnar. Borgarstjóri setur kaupstefnuna í Listsafni Reykjavíkur í kvöld og stendur hún fram á sunnudag. Kaupstefnan er á vegum Icelandair og er markmið hennar að tengja saman kaupendur og seljendur ferðaþjónustu í Bandaríkjunum og Evrópu. Á föstudag verður svokallaður "workshop" dagur milli klukkan 15 og 18 og verður þá líf og fjör á staðnum, litríkir sýningarbásar og skipst á hugmyndum og skoðunum, segir í fréttatilkynningu. Kaupstefnan er árlegur lykilviðburður í ferðaþjónustunni og haldin til að viðhalda og auka ferðamannastraum til Íslands. Þátttakendur verða á fimmta hundrað frá 17 löndum og fer þeim fjölgandi ár frá ári. Að þessu sinni verða fulltrúar frá Nova Scotia áberandi, en í vor hefst beint áætlunarflug milli Íslands og Halifax. Gunnar Már Sigurfinnsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair segir augljóst að kaupstefnan beri árangur. Hann sagði: "Hér eru til dæmis mjög margir frá Bandaríkjunum að kaupa ferðaþjónustu frá Norður-Evrópu sem þeir síðan selja neytendum vestra. Þá er einnig gaman að sjá fulltrúa Eystrasaltsríkja hér að markaðssetja ferðaþjónustu sína. Ísland er miðpunkturinn í öllu þessu starfi." Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Mid-Atlantic
Lesa meira

Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 13%

Hagstofan hefur birt tölur um fjölda gistinátta í desember og þar með liggur heildarfjöldinn á árinu 2006 einnig fyrir. Á árinu 2006 í heild fjölgaði gistinóttum um 13% frá fyrra ári. Gistináttafjöldinn fór úr 1.035.100 í 1.168.900 milli ára.  Fjölgun varð á öllum landsvæðum.  Hlutfallslega varð aukningin mest á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða þar sem gistinóttum fjölgaði um 23%.  Á Norðurlandi nam aukningin 17%, Austurlandi 14%, höfuðborgarsvæðinu 12% og á Suðurlandi 6%.  Fjölgun gistinátta á þessu tímabili skiptist þannig að gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 14% og útlendinga um 13%.   Eins og áður sagði vegur fjölgun gistinátta útlendinga þyngra þar sem gistinætur þeirra eru um 79% af heildarfjölda gistinátta á hótelum þetta tímabil. Sömu sögu er að segja um gistinætur á höfuðborgarsvæðinu, en þær nema um 67% af heildarfjölda gistinátta. Athygli skal vakin á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið.  Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.  Tölur fyrir Suðurnes, Vesturland og Vestfirði eru lagðar saman og birtar í einu lagi vegna þess hve gististaðir á Suðurnesjum og Vestfjörðum eru fáir. Tölur fyrir 2006 eru bráðabirgðatölur.
Lesa meira

Ferðamálafélag Flóamanna stofnað

Stofnað hefur verið Ferðamálafélag Flóamanna. Félagið mun vinna að framgangi ferðamála og menningarmála, og starfssvæði þess verður fyrst í stað Flóahreppur, að því er segir í tilkynningu. Valdimar Össurarson verður fyrsti ferðamálafulltrúi Flóamanna. Af helstu verkefnum félagsins má nefna; endurskoðun ferðamálastefnu, útgáfu svæðiskorts, umsjón vefsíðunnar www.floi.is, rekstur Upplýsingamiðstöðvar Flóa, og undirbúningur að stofnun Tæknisafns Íslands í Flóanum. Það síðastnefnda er reyndar stærsta verkefnið um þessar mundir. Auk þess mun félagið vinna að merkingum á gönguleiðum, gerð fræðsluskilta, úrbótum á áningarstöðum ferðamanna og kynningu á svæðinu. Félagið mun einnig, að því er segir í tilkynningunni, beita sér fyrir verndum náttúru- og menningarverðmæta, eflingu menningarstarfs, úrbótum í samgöngum, og fleiru sem tengist starfssviðinu. Auk þess mun það taka þátt í samstarfi útávið, t.d. í Ferðamálasamtökum Suðurlands en sunnlenskt ferðamálasamstarf er nú í endurmótun. Fleira má sjá um félagið og samþykktir þess á vefsíðunni www.floi.is em þaðan er  meðfylgjandi mynd einmitt fengin.
Lesa meira

Fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll í janúar

Tæplega 105 þúsund farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í janúarmánuði síðastliðnum, samkvæmt tölum frá flugvellinum. Þetta er 9,2% fjölgun farþega á milli ára, það er miðað við janúar í fyrra. Farþegar á leið frá landinu voru 47.550 í janúar síðastliðnum, fjölgaði um 11,2% á milli ára. Á leið til landsins voru 44.161 farþegi og fjölgaði þeim um 15,5% miðað við janúar í fyrra. Áfram- og skiptifarþegar (transit) voru rúmlega 13 þúsund og fækkar aðeins. Nánari skiptingu má sjá í meðfylgjandi töflu.   Jan. 07. YTD Jan.06. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 47.550 47.550 42.751 42.751 11,23% 11,23% Hingað: 44.161 44.161 38.258 38.258 15,43% 15,43% Áfram: 2.514 2.514 1.475 1.475 70,44% 70,44% Skipti. 10.737 10.737 13.667 13.667 -21,44% -21,44%   104.962 104.962 96.151 96.151 9,16% 9,16%
Lesa meira

Akureyrarstofa í burðarliðnum

Í vikunni kynntu bæjaryfirvöld á Akureyri áform um stofnun Akureyrarstofu. Hún mun taka yfir þau málefni bæjarins er líta að ferða-, atvinnu, menningar- og markaðsmálum. Ekki liggur endanlega fyrir hvenær Akureyrarstofa tekur til starfa en á kynningarfundi kom fram að hugmyndin er að henni verði fundinn staður í hinu nýja menningarhúsi Akureyringa sem nú er í byggingu. Fram kom að svæðisbundin samstarfsverkefni uppfylli ekki þá þörf sem er á markaðssetningu á Akureyri og nýta þurfi betur það afl sem býr sameiginlega í aðilum innanbæjar. Markmiðið er meðal annars að ferðaþjónusta eflist sem heilsársatvinnugrein og ársverkum fjölgi. Áhersla verður lögð á að nafn Akureyrar verði þekkt sem ákjósanlegur og spennandi áningarstaður ferðamanna og að þeir dvelji lengur í bænum.
Lesa meira