Fara í efni

Mid-Atlantic að hefjast

Midatlantic 2007
Midatlantic 2007

Hin árlega Mid-Atlantic kaupstefna verður haldin um helgina í anddyri Laugardalshallarinnar. Borgarstjóri setur kaupstefnuna í Listsafni Reykjavíkur í kvöld og stendur hún fram á sunnudag.

Kaupstefnan er á vegum Icelandair og er markmið hennar að tengja saman kaupendur og seljendur ferðaþjónustu í Bandaríkjunum og Evrópu. Á föstudag verður svokallaður "workshop" dagur milli klukkan 15 og 18 og verður þá líf og fjör á staðnum, litríkir sýningarbásar og skipst á hugmyndum og skoðunum, segir í fréttatilkynningu.

Kaupstefnan er árlegur lykilviðburður í ferðaþjónustunni og haldin til að viðhalda og auka ferðamannastraum til Íslands. Þátttakendur verða á fimmta hundrað frá 17 löndum og fer þeim fjölgandi ár frá ári. Að þessu sinni verða fulltrúar frá Nova Scotia áberandi, en í vor hefst beint áætlunarflug milli Íslands og Halifax.

Gunnar Már Sigurfinnsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair segir augljóst að kaupstefnan beri árangur. Hann sagði: "Hér eru til dæmis mjög margir frá Bandaríkjunum að kaupa ferðaþjónustu frá Norður-Evrópu sem þeir síðan selja neytendum vestra. Þá er einnig gaman að sjá fulltrúa Eystrasaltsríkja hér að markaðssetja ferðaþjónustu sína. Ísland er miðpunkturinn í öllu þessu starfi."

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Mid-Atlantic