Fara í efni

Ferðamálafélag Flóamanna stofnað

Floinn
Floinn

Stofnað hefur verið Ferðamálafélag Flóamanna. Félagið mun vinna að framgangi ferðamála og menningarmála, og starfssvæði þess verður fyrst í stað Flóahreppur, að því er segir í tilkynningu.

Valdimar Össurarson verður fyrsti ferðamálafulltrúi Flóamanna. Af helstu verkefnum félagsins má nefna; endurskoðun ferðamálastefnu, útgáfu svæðiskorts, umsjón vefsíðunnar www.floi.is, rekstur Upplýsingamiðstöðvar Flóa, og undirbúningur að stofnun Tæknisafns Íslands í Flóanum. Það síðastnefnda er reyndar stærsta verkefnið um þessar mundir. Auk þess mun félagið vinna að merkingum á gönguleiðum, gerð fræðsluskilta, úrbótum á áningarstöðum ferðamanna og kynningu á svæðinu.

Félagið mun einnig, að því er segir í tilkynningunni, beita sér fyrir verndum náttúru- og menningarverðmæta, eflingu menningarstarfs, úrbótum í samgöngum, og fleiru sem tengist starfssviðinu. Auk þess mun það taka þátt í samstarfi útávið, t.d. í Ferðamálasamtökum Suðurlands en sunnlenskt ferðamálasamstarf er nú í endurmótun. Fleira má sjá um félagið og samþykktir þess á vefsíðunni www.floi.is em þaðan er  meðfylgjandi mynd einmitt fengin.