Fara í efni

Markaðsátak innanlands fær kraftmikla samstarfsaðila

island er medetta
island er medetta

Nýlega var samkomulag undirritað á milli allra markaðsstofa landsins, Ferðamálastofu og Ferðaþjónustu bænda, um sameiginlegt markaðsátak sem hvetja á landsmenn til ferðalaga innanlands. Verkefnið, sem hefst síðar í mánuðinum og mun standa næstu þrjú árin hefur nú fengið aukinn byr í seglin, því Síminn, Flugfélag Íslands, Íslandsbanki og Hátækni hafa ákveðið að leggja átakinu lið með framlögum og vörustyrkjum.

Að sögn Gústafs Gústafssonar, verkefnisstjóra og forstöðumanns markaðsstofu Vestfjarða, mun samstarfið við fyrirtækin fjögur auka enn frekar á slagkraft herferðarinnar og stækka ásýnd hennar. „Ferðamálastjóri hafði á orði þegar verkefnið var kynnt í upphafi að Ísland væri kraumandi af spennandi ævintýrum fyrir alla fjölskylduna. Það eru orð að sönnu“ bætir Gústaf við og við undirritum samkomulagsins í dag tók Ingi Þór Guðmundsson hjá Flugfélagi Íslands í sama streng „Það er ánægjulegt að sjá menn stilla saman strengi á þennan hátt. Íslensk ferðaþjónusta hefur sýnt að hún er þess umkomin að færa fjöll, ef því er að skipta. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni sem við vildum ólm tengjast.“

Birna Einarsdóttir hjá Íslandsbanka sagði við þetta tækifæri: „Okkur hjá Íslandsbanka finnst mikilvægt að styðja við uppbyggingu atvinnulífsins um land allt. Með þessu verkefni gefst okkur tækifæri til að styðja lítil og meðalstór fyrirtæki sem starfa í ferðaþjónustu en þau hafa verið í mikilli framþróun síðustu ár. Átakið er góð áminning fyrir okkur Íslendinga að ferðast meira innanlands, njóta okkar stórbrotnu náttúru og nýta okkur þá fjölbreyttu þjónustu sem í boði er.“

Á meðfylgjandi mynd fagnar hópurinn undirskriftinni með ljúffengri súkkulaðiköku sem verkefnisstjórinn Gústaf Gústafsson skammtar af rausnarskap. Á myndinni eru frá vinstri: Ingi Þór Guðmundsson Flugfélagi Íslands, Birna Einarsdóttir Íslandsbanka, Halldór Harðarson Símanum, Gunnar Ingi Björnsson Hátækni, Sigrún Hlín Sigurðardóttir Ferðamálastofu og  Gústaf Gústafsson Markaðsstofu Vestfjarða.