Fara í efni

Bæklingurinn Upp í sveit 2012 er kominn út

Upp í sveit 2012
Upp í sveit 2012

Bæklingur Ferðaþjónustu bænda Upp í sveit 2012 er kominn út, 25. árið í röð. Í bæklingnum eru upplýsingar um 180 ferðaþjónustubæi innan vébanda Ferðaþjónustu bænda um land allt sem bjóða upp á  fjölbreytta gistingu, afþreyingu við allra hæfi og máltíðir að hætti heimamanna.

Gistingin er fjölbreytt og má þar nefna gistihús bænda, sveitahótel, heimagistingu og sumarhús. Þá eru afþreyingarmöguleikar aldrei langt undan og má t.d. nefna merktar gönguleiðir, hestaferðir / hestasýningar, golf, veiði, fjórhjólaferðir, kynningu á sveitastörfum og afslöppun í heitum potti, segir í tilkynningu.

Í bæklingnum er einnig að finna upplýsingar fyrir þá sem vilja bragða á heimatilbúnum afurðum Beint frá býli eða kynnast sveitastörfum í gegnum verkefnið Opinn landbúnaður. Þetta er nýbreytni í bæklingnum en vorið 2009 tók Ferðaþjónusta bænda höndum saman við félagsskapinn Beint frá býli og verkefnið Opinn landbúnað sem er í umsjón Bændasamtaka Íslands. Markmiðið er að koma á framfæri því besta sem sveitin hefur upp á að bjóða fyrir ferðamenn.

Bæklingurinn er prentaður í 25.000 eintökum. Hægt er að nálgast hann á skrifstofu Ferðaþjónustu bænda að Síðumúla 2 - 108 Reykjavík, á upplýsingamiðstöðvum,  samgöngumiðstöðvum, sölustöðum ferða og á fjölsóttum ferðamannastöðumm um land allt og aðra hverja viku í verslunum Krónunnar á Granda, Reykjavíkurvegi, Bíldshöfða, í Lindum, Mosfellsbæ og Jafnaseli. Einnig er hægt að skoða bæklinginn rafrænt á vefnum sveit.is eða panta á vefnum og fá hann sendan í pósti.