Fara í efni

Styttist í opnun 1919 Hótel í Eimskipshúsinu

Hótel 1919
Hótel 1919

Hið nýja Radisson SAS 1919 Hótel verður opnað þann 10. júní næstkomandi í fyrrum höfuðstöðvum Eimskipafélags Íslands. Um leið tekur veitingastaðurinn Salt til starfa á jarðhæð hússins.

Í fréttatilkynningu kemur fram að á hótelinu verða 70 herbergi í fjórum stærðarflokkum. Nafn hótelsins, 1919 Hótel, er dregið af árinu sem bygging hússins hófst. Eimskipshúsið er einkar falleg og reisuleg bygging sem teiknuð var af Guðjóni Samúelssyni, fyrrum húsameistara ríkisins. Á síðasta ári keypti Andri Már Ingólfsson og fyrirtæki hans Heimshótel ehf. húsið og mun eiga það áfram en reksturinn verður í höndum Radisson SAS hótelkeðjunnar. Hótelstjóri er Nina Thomassen.