Fara í efni

Gistinóttum Íslendinga á hótelum fjölgar

Gisting í apríl
Gisting í apríl

Hagstofan hefur birt tölur um fjölda gistinátta í apríl 2005. Þar með liggja einnig fyrir tölur fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins þ.e. fyrsta ársþriðjungi. Um nokkra fjölgun gistinátta er að ræða og er hún öll til komin vegna aukinnar gistingar Íslendinga.

9% fjölgun í apríl
Gistinætur á hótelum í apríl voru 77.590 en voru 71.420 árið 2004. Fjölgunin nemur því 9%. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum. Hlutfallslega varð mesta aukningin á Suðurlandi þar sem gistinætur fóru úr 7.040 í 9.520 (35%) og á Austurlandi (23%) þar sem fjöldinn fór úr 1.470 í 1.820 milli ára. Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fjölgaði gistinóttum úr 5.110 í 5.730 milli ára (12%) og á Norðurlandi úr 4.570 í 4.640 (2%).  Á höfuðborgarsvæðinu voru gistinæturnar í apríl 55.880 en voru 53.230 árið á undan, fjölgar því um 5% milli ára.

Fjölgun gistinátta á hótelum í apríl 2005 er eingöngu vegna Íslendinga (32%) því gistinætur útlendinga standa í stað. Skýringu á þessari fjölgun Íslendinga má að einhverju leyti finna í aukinni markaðssetningu því fjölgun gistinátta er oft í tengslum við styttri ferðir og árshátíðir, segir í tilkynningu Hagstofunnar.

Gistinóttum í janúar til apríl (1. ársþriðjungur) fjölgaði um rúm 3% milli ára, voru 232.110 nú samanborið við 225.200 fyrir sama tímabil árið 2004. Fjölgunin er eingöngu vegna Íslendinga (14%) því gistinóttum útlendinga fækkaði um tæpt 1% á tímabilinu. Gistinóttum á hótelum janúar-apríl fjölgaði í öllum landshlutum nema á Austurlandi (-31%). Fjölgunin nam 17% á Norðurlandi, 14% á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum, 6% á Suðurlandi og 2% á höfuðborgarsvæðinu.

Hagstofan vekur athygli á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Fjöldi hótela í þessum flokki gististaða sem opnir voru í apríl voru 68 talsins 2005, en voru 65 árið á undan.

Nánar á vef Hagstofunnar