Fara í efni

Umhverfisvottun í ferðaþjónustu

Umhverfisvottun
Umhverfisvottun

Í nýrri grein hér á vefnum fjalla þeir Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálaráðs, og Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs, um umhverfisvottun í ferðaþjónustu. Tilefnið er ráðstefna um þetta efni þann 11. maí nk.

Markmið ráðstefnunnar er að vekja athygli á og koma af stað umræðu um umhverfisvottun í ferðaþjónustu, með höfuðáherslu á umræðu um umhverfisvottun sem tæki til að ná fram sparnaði í rekstri. Grein þeirra fylgir hér á eftir.

Nánar um ráðstefnuna.

Umhverfisvottun í ferðaþjónustu

Mikilvægi náttúrunnar
Náttúran og ferðaþjónustan eru samofin víðast hvar í heiminum og er Ísland þar engin undantekning. Komið hefur fram í könnunum Ferðamálaráðs þegar erlendir gestir okkar eru spurðir hvað það var sem vakti forvitni þeirra á Íslandi að svar um áttatíu prósenta þeirra, er Íslensk náttúra.  Það er því engin furða að náttúra okkar og umhverfismál eru okkur hugleikin sem störfum í eða við íslenska ferðaþjónustu. 
Ferðamálaráð hefur unnið markvisst að umhverfismálum síðasta áratuginn. Árið 1995 var ráðinn umhverfisfulltrúi til Ferðamálaráðs og hefur viðkomandi haft með höndum fræðslu til ferðaþjónustuaðila og umsjón með þeim framkvæmdum sem Ferðamálaráð hefur staðið að á áningarstöðum víða um land. Þessar framkvæmdir hafa verið unnar í samvinnu við heimamenn viðkomandi svæða, Vegagerðina, Náttúruvernd (nú Umhverfisstofnun) sem og aðra hagsmunaaðila á viðkomandi svæði. Þá hefur Ferðamálaráð veitt umhverfisverðlaun árlega frá 1995 til þess rekstrar- eða þjónustuaðila sem hefur þótt skara fram úr hvað varðar ábyrga stefnu í umhverfismálum.  En það er ekki nóg að byggja upp áningarstaði eða leggja göngustíga.  Rekstararaðilar sem og allir sem að greininni koma og reyndar sem flestir þurfa að sýna ábyrgð gagnvart umhverfinu þannig að komandi kynslóðir fái að njóta þeirrar náttúrufegurðar sem við höfum fengið að dreypa á með okkar skilningarvitum.

Umhverfisvottun það sem koma skal
Ferðaþjónustan er í eðli sínu nokkuð mengandi atvinnugrein en á sama tíma mjög háð umhverfi og náttúru.  Af þeirri ástæðu hefur ferðaþjónustan lagt sífelt meiri áherslu á umhverfismálin í sinni starfsemi til að viðhalda gæðum og möguleikum starfseminnar til framtíðar.  Í því skyni hefur verið lögð mikil áhersla á sjálfbæra þróun í ferðaþjónustunni. Íslenskir ferðaþjónustuaðilar hafa í auknum mæli sýnt málinu áhuga og eru nú æ fleiri rekstraraðilar farnir að leita til þriðja aðila um umhverfisvottun. Þessi þróun hefur verið nokkuð hröð á síðustu árum og eru nú 39 rekstraraðilar komnir í vottunar-ferli hér á landi, þar af hafa 9 aðilar fengið vottun, 32 af þessum aðilum vinna undir merkjum Green Globe 21, 2 með Norræna Svaninn, 4 með Bláfánann og 1 hefur verið vottaður samkvæmt ISO 14001 staðlinum.

Hvað er umhverfisvottun?
En hvað er umhverfisvottun? Í stuttu máli þá er umhverfisvottun staðfesting á að tiltekin starfsemi taki mið af staðfestri umhverfisstefnu og vinni í öllu eftir henni. Það er svo utanaðkomandi og óháður vottunaraðili sem tekur út og staðfestir hvort unnið hefur verið eftir þeirri stefnu. En þar sem ferðaþjónustan er mjög háð huglægu mati ferðafólks þá er mikilvægt að heildar ímynd áhrifasvæðis starfseminnar sé trúverðug, það er ekki nóg að einn rekstraraðili á viðkomandi svæði sýni ábyrgð ef allir sem í kringum hann eru huga lítt að þessum málum.  En sem betur fer þá hafa íslensk sveitarfélög sýnt málinu áhuga og á síðustu tveimur árum hafa 5 sveitarfélög á Snæfellsnesi og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull sameinast um markvissa uppbyggingu á umhverfisstefnu og hafa sótt um að fá vottun frá Green Globe 21, sem sjálfbært samfélag. Vitað er um nokkur sveitarfélög og jafnvel landshluta sem fylgjast grannt með þessu verkefni Snæfellinga. 

Eftirtektarverður árangur
Það sem er áhugavert við þá þróun sem er að eiga sér stað hér á landi er að það virðist vera að flestir séu samstíga og skiptir þá einu hvort átt er við einstaka rekstraraðila, hagsmunasamtök eða opinbera aðila. Enda er eftir því tekið erlendis hvað hér er að gerast í þessum málaflokki og er farið að leita í smiðju okkar um hvernig unnið sé að þessum málum og er það vel.