Fara í efni

Mikill árangur markaðsstarfs Ferðamálaráðs í samvinnu við atvinnugreinina.

-Á þriðja hundrað þúsund ferðamenn frá áramótum.

Niðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs á erlendum ferðamönnum sem fara um Leifsstöð sýna að mikill vöxtur er í komum erlendra ferðamanna til Íslands. Frá áramótum til júlíloka komu á þriðja hundrað þúsund erlendir ferðamenn til landsins, ríflega 17% fleiri en á sama tíma í fyrra. Aukning er frá öllum aðal markaðssvæðum Íslands. Að sögn Ársæls Harðarsonar forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs er hér um að ræða afrakstur mikillar markaðsherferðar síðustu misserin í samvinnu stjórnvalda og atvinnugreinarinnar á öllum markaðssvæðum sem áhersla hefur verið lögð á.

Norðurlandabúum fjölgar mest
Erlendir ferðamenn voru 201.871 fyrstu sjö mánuði yfirstandandi árs á móti 172.140 á sama tíma í fyrra. Aukningin nam tæpum 30 þúsund ferðamönnum eða 17,3%. Mest var fjölgunin meðal Norðurlandabúa. Þannig fjölgaði Dönum um 5.365 (37,5%), Norðmönnum um 2.668 (19,3%), Svíum um 2.485 (18,2%) og Finnum um 643 (16,3%). Sömuleiðis er góð aukning frá öðrum lykil markaðssvæðum. Frá Norður-Ameríku var rúm 11% fjölgun, 10,6% frá Bretlandi og tæp 10% frá Þýskalandi. Þá má einnig nefna að umferð Japana hefur aukist verulega.

Ekkert land undir 10% fjölgun í júlí
Í júlí fjölgaði erlendum ferðamönnum um samtals 11.668 manns á milli ára, eða um 22,2%. Þannig komu 64.275 manns í júlí nú á móti 52.607 í fyrra. Má fullyrða að aldrei hafi fleiri ferðamenn komið til landsins í einum mánuði. Sem fyrr eru Þjóðverjar fjölmennastir ferðamanna í júlí og fjölgar um 11,6% á milli ára. Ánægjulegt er að sjá verulega aukningu í komum ferðamanna frá Norður-Ameríku, þ.e. 17,5% frá Bandaríkjunum og 175,4% frá Kanada. Svipaða sögu er að segja af öðrum markaðssvæðum og nægir að benda á að ekkert þeirra landa sem mæld eru sérstaklega í talningunni sýnir undir 10% fjölgun ferðamanna. Það hljóta að teljast góð tíðindi fyrir þennan mánuð sem árlega er sá stærsti hjá íslenskri ferðaþjónustu og að þessu sinni sá stærsti frá upphafi vega.

Maí og júní með góða aukningu
Sé litið til maímánaðar þá fjölgaði erlendum ferðamönnum um 26,4% miðað við sama tíma í fyrra, eða um 5.373 manns. Flestir ferðamenn í maí komu frá Bandaríkjunum en Norðurlandabúum fjölgaði mest. Stærstan hluta þeirrar fjölgunar eiga Danir en þeim fjölgaði um 1.444 manns, sem er 92% hækkun.

Í júní fjölgaði erlendum ferðamönnum um 10% á milli ára eða um 3.651. Þar má t.d. benda á góða fjölgun Breta (23%) og Japana (62%), sem og áframhaldandi góða aukningu frá Norðurlöndunum. Hins vegar var nokkur samdráttur í komum Frakka og Spánverja og einnig Þjóðverja. Í júlí var vöxtur frá öllum löndum.

Öll markaðssvæðin í sókn
Að sögn Ársæls Harðarsonar forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs sækja öll markaðssvæðin í sig veðrið. "Við höldum úti markaðsskrifstofum í Frankfurt fyrir meginland Evrópu, New York fyrir Bandaríkin og í Kaupmannahöfn fyrir Norðurlöndin auk Bretlands sem er þjónað frá Íslandi. Í öllum tilvikum vinnum við með atvinnugreininni að fjölbreyttum markaðsverkefnum sem að stórum hluta eru fjármögnuð af opinberu fé. Stjórnvöld hafa staðið vel við bakið á þessari ungu atvinnugrein með miklu fjárframlagi í markaðssetningu, og er það lykilatriði til að halda áframhaldandi vexti í greininni" segir Ársæll.

Í töflunni hér að neðan má sjá fjölda ferðamanna frá áramótum. Þá eru niðurstöður talninganna í heild sinni aðgengilegar hér á vefum undir liðnum Tölfræði. Tölurnar eru í Excel-skjali og má nálgast það með því að smella hér.

 

Janúar - júlí
  2003 2004 Aukning %
Bandaríkin 26.046 28.490 2.444 9,4%
Bretland 31.704 35.054 3.350 10,6%
Danmörk 14.298 19.663 5.365 37,5%
Finnland 3.956 4.599 643 16,3%
Frakkland 11.635 11.900 265 2,3%
Holland 6.355 6.606 251 3,9%
Ítalía 3.594 4.340 746 20,8%
Japan 2.006 3.731 1.725 86,0%
Kanada 1.313 1.919 606 46,2%
Noregur 13.842 16.510 2.668 19,3%
Spánn 2.339 2.419 80 3,4%
Sviss 3.279 4.470 1.191 36,3%
Svíþjóð 13.672 16.157 2.485 18,2%
Þýskaland 19.766 21.716 1.950 9,9%
Önnur þjóðerni 18.335 24.297 5.962 32,5%
Samtals 172.140 201.871 29.731 17,3%
         
Ísland 168.464 203.871 34.606 20,5%