Fara í efni

Flokkun gististaða víða um heim.

Nýlega var unnin samantekt á heimsvísu yfir flokkun gististaða. Þessi samantekt var unnin að frumkvæði Alþjóða Ferðamálaráðsins (WTO) og Alþjóða Hótel- og Veitingasambandsins (IH&RA).

Í þessari samantekt kemur fram að í dag er ekkert til sem heitir samræmt flokkunarkerfi, en frá árinu 1952 hafa ýmsir aðilar verið að kalla eftir slíku viðmiði.  Könnun þessi var gerð í tæplega 200 löndum og er margt áhugavert sem kemur fram í svörum þeirra sem tóku þátt. M.a. kemur fram að í 83 löndum er til opinbert flokkunarkerfi fyrir hótel á meðan einungis í 23 löndum er til kerfi sem tekur á annarri tegund gistingar en hótelum.
Í flestum löndum eru það opinberir aðilar í samvinnu við greinina (samtök hótela og gistihúsa) sem standa að flokkuninni. Í 46 löndum er flokkunin lögboðin. Í 55 löndum fá gististaðir ekki rekstrarleyfi nema að vera flokkaðir og í 32 löndum er flokkunin valkvæð eins og hér á landi þ.e. ekki skylda.

Einnig eru víða mörg kerfi í gangi eins og t.d. á Bretlandseyjum en þar eru 4 mismunandi kerfi notuð (England, Skotland, Wales og Norður Írland).  Það sem menn telja að standi helst í vegi fyrir einu alþjóðlegu flokkunarviðmiði eru mismunandi og flóknir menningarheimar. Þannig að lausnin gæti verið að hver álfa væri með sitt kerfi, eins og er að skapast hér á norðurlöndunum en í dag eru gististaðir í Danmörku, Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og í Svíþjóð flokkaðir með samskonar kerfi.

Samantektin í heild sinni er áhugaverð lesning sem hægt er að nálgast hana á heimasíðu Alþjóða Ferðamálaráðsins (PDF-Skjal).