Fréttir

Auglýst eftir forstöðumanni nýrrar skrifstofu Ferðamálaráðs í Kaupmannahöfn

Sem kunnugt er mun Ferðamálaráð Íslands opna skrifstofu í Kaupmannahöfn síðar á árinu og hefur nú auglýst eftir forstöðumanni á skrifstofuna. Hlutverk skrifstofunnar verður að sinna markaðs- og kynningarmálum fyrir Ísland sem ferðamannaland á markaðssvæði Norðurlanda. Leitað er að einstaklingi sem hefur þekkingu og reynslu í markaðsstörfum í ferðaþjónustu, eða aðra sambærilega reynslu. Umsóknum skal skilað fyrir 26. september nk. Skoða auglýsingu.  
Lesa meira

Viðamiklar Íslandskynningar vestan hafs

Viðamiklar Íslandskynningar verða í Minneapolis í Bandaríkjunum og Toronto í Kanada næstu daga. Ferðamálaráð Íslands er meðal þeirra sem koma að málinu. Ein umfangsmesta Íslandskynningin á neytendamarkaði Flugleiðir í samvinnu við Flugleiðahótelin, Kynnisferðir, Iceland Naturally, Ferðamálaráð Íslands og Reykjavíkurborg standa að 10 daga Íslandskynningu í Mall of America í Minneapolis, stærstu verslunarmiðstöð Bandaríkjanna, 12. til 21. september. Um 80 manns koma að kynningunni sem er ein umfangsmesta Íslandskynning á neytendamarkaði sem ráðist hefur verið í. 80.000 til 100.000 gestir daglegaMeira en 28 milljónir manns heimsækja Mall of America árlega og er gert ráð fyrir að a.m.k. 80.000 til 100.000 gestir verði þar daglega meðan kynningin stendur yfir. Eftirlíkingar af fossum, Bláa lóninu, eldfjöllum og víkingabúðum verða á svæðinu og kynningarmyndir um Ísland verða sýndar á stórum vegg stanslaust í rúma 11 tíma daglega, en auk þess verður sett upp söluskrifstofa í verslunarmiðstöðinni. Íslenskir skemmtikraftar eins og t.d. hljómsveitirnar Guitar Islancio, Jagúar, Leaves og fleiri og félagar úr Njálusönghópi Sögusetursins á Hvolsvelli skemmta gestum, samkeppni um hver líkist mest Björk verður í gangi, íslenskir hestar verða á svæðinu fyrir börnin og Siggi Hall kynnir íslenska matreiðslu. Ísland áberandi í TorantoÍ dag, föstudag, verður sérstök dagskrá á Delta Chelsea-hótelinu í Toranto í Kanada í tilefni stofnunar Íslensk-kanadíska verslunarráðsins. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, flytur hátíðarræðu og Einar Gústavsson, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs í New York, greinir frá Íslandi sem áfangastað ferðmanna auk þess sem Páll Magnússon kynnir Fjárfestingastofuna og fjárfestingar á Íslandi, m.a. í kvikmyndagerð, og Hugh Porteous kynnir Alcan á Íslandi. Nú er Kvikmyndahátíðinni í Toronto, sem staðið hefur frá 4. september, að ljúka en á meðal mynda á henni eru Nói Albínói og Stormy Weather. Þá standa Iceland Naturally og sendiráð Íslands í Kanada fyrir ýmsum uppákomum í borginni í mánuðinum.  
Lesa meira

Gistinóttum á hótelum í júlí fjölgar um 4% milli ára

Gistinætur á hótelum í júlímánuði síðastliðnum voru 124 þúsund á móti 119 þúsund í júlí árið 2002, samkvæmt tölum Hagstofunnar sem voru að koma út. Eins og í júní mældist aukningin mest á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum eða um 13%. Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum um 8% og á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði þeim um 6%. Á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra fækkaði gistinóttum hins vegar um 8% og á Austurlandi stóð gistináttafjöldinn nánast í stað. Gistinætur Íslendinga voru jafnmargar nú í ár og í fyrra en gistinóttum útlendinga fjölgaði hins vegar milli ára um 5%. Tölur fyrir 2003 eru bráðabirgðatölur og eru tölur fyrir aðra mánuði ársins uppfærðar mánaðarlega. Talnaefni á vef Hagstofunnar  
Lesa meira

Að tveimur árum liðnum - Ástand og horfur í Bandaríkjunum

Í dag eru tvö ár liðin frá árásinni á tvíburaturnanna í New York sem kostaði þúsundir fólks lífið og leiddi til verulegs samdráttar á ýmsum sviðum viðskipta, m.a. í ferðaþjónustu. Þó er ljóst að með markvissum aðgerðum tókst Íslendingum að tryggja stöðu sína mun betur en flestum öðrum. En hver er staðan í Bandaríkjunum í dag? Í nýrri grein hér á vefnum undir liðnum "Frá svæðisstjórum" fer Einar Gústavsson, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í New York, yfir stöðuna og spáir í spilin fyrir næstu mánuði.Lesa grein...  
Lesa meira

Líflegur fundur á Akureyri

Í gær fundaði Ferðamálaráð Íslands á Akureyri. Um var að ræða 649. fund ráðsins frá upphafi en fyrsti fundurinn var haldinn á Hótel Borg 7. júlí árið 1964. Seinnipartinn í gær gekkst Ferðamálaráð síðan fyrir opnum fundi um ferðamál. Aukning hér en samdráttur hjá öðrumUm 40 manns mættu á opna fundinn sem haldinn var á Hótel KEA. Einar K. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs, setti samkomuna og flutti framsögu en síðan tók Magnús Oddsson ferðamálastjóri við. Fór hann yfir hlutverk og starfsemi Ferðamálaráðs og fjallaði um stöðu og horfur í ferðamálum í lok sumars. Ýmislegt áhugavert kom fram í erindi Magnúsar, m.a. að ferðamarkaður á Íslandi hefur verið í aukningu það sem af er árinu á meðan nágrannalönd okkar á Norðurlöndunum mega sætta sig við samdrátt. Að því loknu var opnað fyrir fyrirspurnir þar sem fulltrúar í Ferðamálaráði ásamt ferðamálastjóra sátu fyrir svörum, eins og auglýst hafði verið í fundarboði. Vísindaveiðarnar ræddarLíkt og við var að búast voru nýhafnar vísindaveiðar á hrefnu fundarmönnum ofarlega í huga. Sem kunnugt er hafa margir aðilar í ferðaþjónustu, ekki síst þeir sem stunda hvalaskoðun, líst yfir verulegum áhyggjum vegna þessa og mótmælt harðlega. Líflegar en málefnalegar umræður spunnust um málið í gær og þær spurningar sem ferðaþjónustuaðilar beindu til ferðamálaráðsmanna um afstöðu þeirra til vísindaveiðanna. Formaður Ferðamálaráðs sagði m.a. að málið hefði verið til umfjöllunar á fundi ráðsins fyrr um daginn. Benti hann á að fulltrúar í ráðinu kæmu í raun úr fjórum áttum og því eðlilegt að þeir hefðu ekki allir sama viðhorf til vísindaveiðanna. Auk hrefnuveiðanna voru markaðsmál ferðaþjónustunnar talsvert til umfjöllunar og hin sígilda spurning hvernig hægt væri að auka umsvifin í ferðamennsku utan háannatímans, ekki síst utan sv-hornsins.  
Lesa meira

Ferðamálaráð boðar til opins fundar á Akureyri

Ferðamálaráð Íslands hefur boðað til opins fundar á Akureyri um ferðamál. Fundurinn verður haldinn á Hótel KEA næstkomandi mánudag 8. september, á milli kl. 16:00 og 18:00. Á fundinum mun formaður Ferðamálaráðs Einar K. Guðfinnsson flytja framsögu og síðan munu fulltrúar í Ferðamálráði ásamt Magnúsi Oddssyni ferðamálastjóra svara fyrirspurnum. Allir er láta sig ferðamál varða eru hjartanlega velkomnir á fundinn.  
Lesa meira

Erlendir gestir aldrei verið fleiri í einum mánuði

-11.6% fjölgun ferðamanna á árinu Nú liggja fyrir tölur úr talningu Ferðamálaráðs Íslands á fjölda erlendra ferðamanna í ágúst. Talningin er gerð við brottför gesta frá Keflavíkurflugvelli. Fjölgun erlendra ferðamanna samkvæmt þessum tölum er rúmlega 8.000 gestir miðað við ágúst 2002, eða 16,2% Yfir 60.000 gestir í ágústÍ mánuðinum fóru alls 58.763 erlendir gestir í gegnum Keflavíkurflugvöll en í sama mánuði í fyrra voru þeir 50.537. Auk þessara gesta komu erlendir ferðamenn með Norrænu til Seyðisfjarðar og með millilandaflugi til Egilsstaða, Akureyrar og Reykjavíkur. "Við höfum ekki nákvæmar upplýsingar um skiptingu þessara gesta eftir þjóðerni en meirihluti þeirra er frá meginlandi Evrópu og Norðurlöndunum. Þó liggur fyrir að þar er um aukningu að ræða frá fyrra ári og því ljóst að hér á landi hafa verið yfir 60.000 erlendir gestir í ágúst. Þetta segir okkur að erlendir ferðamenn hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði," segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri. Kaupa þjónustu fyrir um 5 milljarða krónaMagnús segir ljóst að fjölgun ferðamanna hafi í för með sér verulega jákvæð áhrif á þjóðarbúið. "Miðað við upplýsingar um meðaleyðslu erlendra gesta má gera ráð fyrir að gestir okkar hafi keypt þjónustu hér á landi fyrir um 5 milljarða í nýliðnum ágústmánuði," segir Magnús. 11,6% fjölgun á árinuTalning Ferðamálaráðs í Leifsstöð hófst í mars 2002 og er því um samanburðarhæfar tölur að ræða fyrir tímabilið mars-ágúst árin 2002-2003. Ef litið er til þessara sex mánaða ársins þá hafa nú komið 11,6 % fleiri erlendir gestir í ár en á sama tíma í fyrra. Er þá bara horft til þeirra gesta sem fóru um Leifsstöð. Gestafjöldi frá nokkrum löndum. Mars - ágúst 2002 og 2003 (Talning í Leifsstöð)   2002 2003 Breyting Norðurlöndin: 44.621 49.108 10,10% Bandaríkin: 28.597 27.868 -2,60% Bretland: 25.956 32.355 19,80% Þýskaland: 24.571 28.167 12,80% Frakkland: 14.399 16.449 12,50% Holland: 6.811 7.736 12,00% Ítalía: 6.544 7.519 12,80% Spánn: 3.072 4.134 25,70% Japan: 2.119 2.099 -1,00% Heildarfjöldi: 183.258 204.452 11,60%  
Lesa meira

Áframhaldandi flug Grænlandsflugs

Leyfi Grænlandsflugs til áframhaldandi flugs á milli Kaupmannahafnar og Akureyrar hefur verið staðfest af dönskum og íslenskum flugmálayfirvöldum. Í ljósi þessa hefur Grænlandsflug ákveðið að halda áfram áætlunarflugi á milli Akureyrar og Kaupmannahafnar. Flogið verður sem fyrr tvisvar í viku. Styrki ferðaþjónustu á norðanverðu landinuÍ frétt frá Grænlandsflugi segir að það sé von félagsins að áætlunarflugið styrki mjög ferðaþjónustu á norðanverðu landinu, um leið og það gefi fólki á Norður- og Austurlandi færi á því að komast til meginlands Evrópu án þess að þurfa að eyða tíma og fjármunum í að komast suður á Keflavíkurflugvöll. Í fréttinni segir einnig að Grænlandsflug hafi fengið mjög jákvæð viðbrögð farþega við fluginu sem hvetji félagið til að halda áfram á sömu braut.  
Lesa meira

Viðskiptamenntun innan ferðaþjónustu efld

Viðskiptadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst annars vegar og Ferðamáladeild á Hólum hins vegar hafa undirritað samkomulag um gagnkvæmt mat á námi. Markmið samkomulagsins er að efla viðskiptamenntun innan ferðaþjónustu. Gagnkvæmt matNemendur sem útskrifast frá Háskólanum á Hólum fá nám sitt metið sem 30 eininga áfanga til BS-prófs í viðskiptafræði með áherslu á ferðaþjónustu við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Þá fá nemendur, sem útskrifast með diploma í rekstrarfræðum við Viðskiptaháskólann á Bifröst, nám sitt metið sem 60 eininga áfanga til BA-prófs í ferðamálum við Hólaskóla. Leiði til þekkingar og menntunar í hæsta gæðaflokki Markmið samkomulagsins er sem fyrr segir að efla viðskiptamenntun innan ferðaþjónustu. Með þessu móti verði mætt mikilli og vaxandi þörf í landinu fyrir rannsóknir og háskólamenntun á þessu sviði, eins og segir í frétt frá skólunum. Aðilar samkomulagsins leggja áherslu á að samstarfið leiði til þekkingar og menntunar í hæsta gæðaflokki sem standist í einu og öllu alþjóðlegan samanburð. Skólarnir hafi enda með sér samstarf um rannsóknanám sem og rannsókna- og þróunarverkefni er lúta að rekstri ferðaþjónustufyrirtækja. Mikilvægur áfangin fyrir nemendurForráðamenn beggja skóla lögðu á það áherslu við undirritun samkomulagsins að Hólum síðastliðinn laugardag að þessi tenging milli skólanna væri mikilvægur áfangi og opnaði nemendum skólanna nýjar og spennandi námsleiðir. Samkomulag Háskólans á Hólum og Viðskiptaháskólans á Bifröst nær einnig til fiskeldismenntunar.  
Lesa meira