Fréttir

Á ferð um Ísland 2003

Ferðahandbókin "Á ferð um Ísland" er nú komin út þrettánda árið í röð. Í henni er að finna fjölbreyttar upplýsingar um athyglisverða staði og þjónustu fyrir ferðamenn. Bókin kemur út einu sinni á ári og er dreift ókeypis í 30.000 eintökum, aðallega á Upplýsingamiðstöðvum, hótelum, gistihúsum, ferðaskrifstofum og á bensínstöðvum. Bókin kemur einnig út á ensku og þýsku og er alls dreift í 90.000 eintökum. Í bókinni er að finna kort og umfjöllun um hvern landshluta, ásamt upplýsingum um helstu gisti- ferða- og afþreyingarmöguleika í hverjum landshluta fyrir sig. Í bókinni er einnig að finna kafla um sjálfbæra ferðamennsku, hestaferðir, ferðalög á hálendinu, menningartengda ferðaþjónustu, verðlag og það helsta sem er á döfinni víðsvegar um landið í sumar. Útgáfufélagið Heimur hf. gefur bókina út og ritstjóri er María Guðmundsdóttir. Bókina er einnig að finna í prentvænni útgáfu.  
Lesa meira

Jón Karl kosinn formaður SAF

Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, var kosinn formaður Samtaka ferðaþjónustunnar sem lauk síðdegis í gær. Tekur hann við af Steini Loga Björnssyni. Með Jóni Karli í stjórn eru Anna Sverrisdóttir frá Bláa lóninu, Steingrímur Birgisson frá Bílaleigu Akureyrar, Einar Bollason frá Íshestum, Hrönn Greipsdóttir frá Radisson SAS Hótel Sögu, Hörður Gunnarsson Ferðaskrifstofu Íslands og Signý Guðmundsdóttir frá Ferðaskrifstofu Guðmundar Jónassonar. Evrópumál voru helsta umræðuefni fundarins. Fyrirlesarar voru Rauno Niinimäki, sem er fjármálaráðgjafi í finnska fjármálaráðuneytinu, Birgir Ísleifur Gunnarsson, Seðlabankastjóri og Þorsteinn Þorgeirsson, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Í ályktunum aðalfundarins er m.a. fagnað skattalækkunarhugmyndum forsætisráðherra þar sem skattar og gjöld á ferðaþjónustufyrirtæki séu almennt íþyngjandi auk þess sem svört atvinnustarfsemi skekki víða samkeppnisstöðu fyrirtækja. Er þess um leið krafist að ferðaþjónustufyrirtæki greiði almennt samkvæmt lægra þrepi virðisaukaskatts. Þá skoraði aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar á stjórnvöld að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að draga úr áhrifum hás raungengis krónunnar um þessar mundir. Loks var ítrekuð ályktun aðalfundar samtakanna árið 1999 þar sem eindregið er varað við "vanhugsuðum og lítt undirbúnum áformum um að hefja hvalveiðar að nýju við Ísland," eins og segir í ályktuninni. Hvalaskoðun sé orðin ein vinsælasta afþreying ferðamanna hér á landi og sé að skapa þjóðarbúinu verulegar tekjur og landinu afar jákvæða ímynd.  
Lesa meira

Byrjað að sýna Íslandsþætti Global Extremes

Hluti af Sjónvarpsþáttaröðinni Global Extremes var sem kunnugt er tekin upp á Íslandi í febrúar sl. og var verið að sýna fyrsta þáttinn af þremur í N.-Ameríku nú á dögunum. Sá þáttur var tekinn upp í Ísafjarðarbæ og á Snæfjallaströnd. Í þáttunum sem eru framleiddir af sjónvarpsstöðinni Outdoor Life Network hófu 50 fullhugar keppni með útsláttarfyrirkomulagi í ýmsum þrautum víða um heim. Eftir stóðu tíu kappar af báðum kynjum þegar leikurinn barst til Vestfjarða og leystu þátttakendur ýmsar þrautir og verkefni í vestfirskri náttúru og samfélagi. Þar má nefna fjallaklifur, skíðamennsku, beitningu og bústörf. Rúnar Óli Karlsson, ferðamálafulltrúi Ísafjarðarbæjar, sá um dagskrána fyrir hópinn á meðan hann dvaldi á Vestfjörðum og hann segir þetta hafa verið afar skemmtilegt verkefni. Af viðbrögðum við þættinum að dæma sé um að ræða góða kynningu fyrir svæðið og landið í heild. Á næstunni verða sýndir tveir þættir í viðbót sem teknir voru upp á Íslandi. Annar var tekinn upp í Skaftafelli þegar reynt var við Hvannadalshnjúk og hinn þegar farið var yfir Mýrdalsjökul. Eftir Íslandsförina stóðu 5 þátttakendur eftir og í maí munu þeir reyna við lokaþrautina sem felst í því að klífa Mt. Everest, hæsta fjall á jörðinni. Þess má geta að skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í New York var í samstarfi við sjónvarpsstöðina um komu hópsins hingað til lands. Global Extremes  
Lesa meira

Loftferðasamningur við Kína skapar grundvöll fyrir áætlunarflug

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, og Yang Yuanyuan, flugmálaráðherra Kína, undirrituðu í gær loftferðasamning á milli Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína. Samningurinn, sem var áritaður í Peking 26. nóvember sl., heimilar tilnefndum flugfélögum hvors ríkis um sig að stunda reglubundið áætlunarflug með farþega, farangur, frakt og póst á milli landanna. Hvort ríki um sig getur tilnefnt þrjá áfangastaði í hvoru landi auk þriggja staða til millilendingar á leiðinni. Sérstakt samkomulag við loftferðasamninginn gerir einnig ráð fyrir heimildum fyrir óreglubundinni þjónustu milli landanna tveggja og heimild til handa flugfélögum hvors ríkis um sig til að halda uppi flugþjónustu á tilgreindum leiðum í samvinnu við flugfélög frá öðrum ríkjum, s.s. með sameiginlegum flugnúmerum eða annarskonar samvinnu. Samningurinn og samkomulagið taka gildi þegar við undirritun. Skapar grundvöll fyrir áætlunarflugLoftferðasamningurinn skapar grundvöll fyrir áætlunarflug á milli landanna, auk þess sem hann er ein meginforsenda útrásar íslenskra frakt-og farþegaflugfélaga í þessum heimshluta. Í Kína er sjötta mesta flugumferð í heimi og hvergi er eins mikill vöxtur í fraktflutningum og í Asíu. Í viðtölum fjölmiðla við talsmenn Atlanta og Flugleiða hefur komið fram að þeir telja afar jákvætt að samningurinn skuli hafa tekið gildi og hann skapi grundvöll fyrir félögin til að leita sér verkefna á þessu svæði. Samningur við fleiri ríki í bígerðUndirritun samningsins við Kína er afrakstur heimsóknar íslenskrar sendinefndar, skipaðri embættismönnum og fulltrúum flugrekenda, til Asíu í nóvember ásíðasta ári, en sendiráð Íslands í Peking sá um undirbúning heimsóknarinnar. Í þeirri ferð var loftferðasamningur við Suður-Kóreu einnig áritaður og er búist við að hann verði undirritaður á næstu mánuðum. Þá er áætlað að ljúka samningaviðræðum um loftferðasamninga við Singapúr, Hong Kong og Macau á þessu ári. Jafnframt hafa íslensk stjórnvöld nýlega lagt til við 24 önnur ríki að gerður verði loftferðasamningur milli þeirra og Íslands og afhent þeim samningsdrög í því skyni. Ríkin eru í Asíu, Afríku, Mið- og Suður-Ameríku og Evrópu.  
Lesa meira

Áfangaskýrsla um Vatnajökulsþjóðgarð

Nefnd um stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls hefur skilað áfangaskýrslu til umhverfisráðherra. Hlutverk nefndarinnar samkvæmt skipunarbréfi er að fara yfir og skoða þá möguleika sem til greina koma til stofnunar þjóðgarðs eða verndarsvæða fyrir norðan Vatnajökul m.t.t. þeirra áætlana um landnýtingu á svæðinu sem Alþingi hefur fyrir sitt leyti fallist á. Nefndinni var falið að vinna tillögur að umfangi verndarsvæðis og verndarstigi að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélög, landeigendur, ferðaþjónustuaðila og umhverfissamtök.  
Lesa meira