Fara í efni

Byrjað að sýna Íslandsþætti Global Extremes

GlobalExtremes
GlobalExtremes

Hluti af Sjónvarpsþáttaröðinni Global Extremes var sem kunnugt er tekin upp á Íslandi í febrúar sl. og var verið að sýna fyrsta þáttinn af þremur í N.-Ameríku nú á dögunum. Sá þáttur var tekinn upp í Ísafjarðarbæ og á Snæfjallaströnd.

Í þáttunum sem eru framleiddir af sjónvarpsstöðinni Outdoor Life Network hófu 50 fullhugar keppni með útsláttarfyrirkomulagi í ýmsum þrautum víða um heim. Eftir stóðu tíu kappar af báðum kynjum þegar leikurinn barst til Vestfjarða og leystu þátttakendur ýmsar þrautir og verkefni í vestfirskri náttúru og samfélagi. Þar má nefna fjallaklifur, skíðamennsku, beitningu og bústörf. Rúnar Óli Karlsson, ferðamálafulltrúi Ísafjarðarbæjar, sá um dagskrána fyrir hópinn á meðan hann dvaldi á Vestfjörðum og hann segir þetta hafa verið afar skemmtilegt verkefni. Af viðbrögðum við þættinum að dæma sé um að ræða góða kynningu fyrir svæðið og landið í heild. Á næstunni verða sýndir tveir þættir í viðbót sem teknir voru upp á Íslandi. Annar var tekinn upp í Skaftafelli þegar reynt var við Hvannadalshnjúk og hinn þegar farið var yfir Mýrdalsjökul.

Eftir Íslandsförina stóðu 5 þátttakendur eftir og í maí munu þeir reyna við lokaþrautina sem felst í því að klífa Mt. Everest, hæsta fjall á jörðinni. Þess má geta að skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í New York var í samstarfi við sjónvarpsstöðina um komu hópsins hingað til lands.

Global Extremes