Fara í efni

Nýtt skipurit Ferðamálaráðs Íslands tekur gildi

Nú um mánaðamótin taka gildi skipulagsbreytingar á Ferðamálaráði Íslands. Eins og fram hefur komið var á fundi Ferðamálaráðs um miðjan desember sl. samþykkt að skipta starfsemi ráðsins formlega upp í þrjú svið. Mesta breytingin felst í því að stofnað er nýtt svið, markaðssvið. Undir það heyra öll markaðsmál, jafnt innlend sem erlend.

Breytingin er gerð í kjölfar þess að samningur um Markaðsráð ferðaþjónustunnar rann út í lok síðasta árs eftir fjögurra ára gildistíma. Í því ljósi beindi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, því til Ferðamálaráðs að þessi lögbundni málaflokkur stofnunarinnar, þ.e. markaðs- og kynningarmál, yrði efldur. Til að verða við tilmælum ráðherra, og jafnframt til að gera Ferðamálaráð enn betur í stakk búið til að sinna verkefnum sínum, var unnið skipurit fyrir stofnunina þar sem starfseminni var skipt upp í þrjú svið, sem fyrr er sagt. Með því er leitast við að gera verkefni ráðsins skilvirkari og línur á milli mismunandi málaflokka stofnunarinnar skýrari. Segja má að hér sé verið að festa á blað í aðalatriðum það verklag sem unnið hefur verið eftir í stofnuninni en með samþykki ráðsins var það formlega staðfest. Þannig hefur verið rennt styrkari stoðum undir núverandi starfsemi Ferðamálaráðs, auknar áherslur lagðar á meginmálaflokka og búið í haginn fyrir nýja.

Markaðssvið
Landkynningar- og markaðsmál eru styrkt með stofnun á nýju markaðssviði. Öll markaðsmál, jafnt innlend sem erlend, munu heyra undir sviðið, þ.á.m. kynningarskrifstofur Ferðamálaráðs í New York, Frankfurt og fyrirhuguð skrifstofa í Kaupmannahöfn. Eftir er að ganga frá ráðningu forstöðumanns sviðsins.

Upplýsinga- og þróunarsvið
Núverandi starfsemi á Akureyri fær nafnið upplýsinga- og þróunarsvið. Meðal verkefna eru upplýsingamál, gerð gagnagrunns, umhverfismál, fræðslumál, vefþróun og -viðhald, rannsóknir, flokkun gististaða o.fl. Forstöðumaður er Elías Bj. Gíslason.

Rekstrar- og stjórnsýslusvið
Þriðja sviðið er síðan rekstrar- og stjórnsýslusvið og þar er Magnús Oddsson ferðamálastjóri jafnframt forstöðumaður. Undir sviðið heyra m.a. rekstur og fjármál, skipulag og áætlanagerð, lögbundin stjórnsýsluverkefni, umsjón með samningagerð, kannanir, leyfismál, fjölþjóðlegt samstarf o.fl.