Fara í efni

"Travel Agent Magazine" útnefnir Einar Gústavsson "Europe Person of the Year"

Einar
Einar

Bandaríska tímaritið "Travel Agent Magazine" hefur útnefnt Einar Gústavsson, forstöðumann skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í New York, "Europe Person of the Year" annað árið í röð. Útnefninguna hlýtur Einar fyrir það starf sem hann hefur unnið við að koma Evrópu og Íslandi á framfæri sem áfangastöðum fyrir ferðalanga frá Bandaríkjunum.

Sl. þrjú ár hefur Einar verið formaður bandarísku deildar Ferðamálaráðs Evróu (ETC). Þá stýrir Einar starfi Scandinavian Tourism Inc. í New York, sameiginlegu fyrirtæki Norðurlandanna, sem sinnir markaðsmálum og fleiri þáttum sem löndin hafa talið hagkvæmt að leysa í sameiningu. Loks má nefna Iceland Naturally samstarfið sem skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í New York hefur haldið utan um. Að mati "Travel Agent Magazine" má ekki síst rekja aukinn Evrópu- og Íslandsáhuga í Bandaríkjunum til þess öfluga starfs sem Einar hefur stýrt á áðurnefndum sviðum og hann sé því vel að útnefningunni kominn.