Fréttir

Fjölda ferðatengdra verðlauna í myndaleik Ísland er með´etta!

Í vikunni hófst myndaleikur á vefsíðunni islandermedetta.is þar sem almenningur getur sent inn myndir af upplifun sinni af landinu og unnið fjölda skemmtilegra ferðatengdra vinninga. Í sumar hófst átak í sameiginlegri kynningu innlendrar ferðaþjónustu og vefsvæðið islandermedetta.is var opnað. Þar geta landsmenn fundið allra handa ævintýri og upplifanir sem eru í boði um allt land. Öllum býðst að deila reynslu sinni af landi og þjóð með skemmtilegum myndum og nú hafa allir sem eiga skemmtilega myndir í fórum sínum fengið enn betri ástæðu til þess að deila myndum á vefinn: Tækifærið á að vinna skemmtilega ferðatengda upplifun og vinningar eru fjölmargir. Nú þegar hefur fjölda skemmtilegra mynda verið hlaðið inn á vefinn og allir geta skoðað herlegheitin. í næstu viku verður tilkynnt um sigurvegara, en alls eru átta stórir ferðavinningar í pottinum auk fjölda aukavinninga. Það eina sem þarf til að taka þátt er að hlaða inn mynd úr sumarfríinu, skemmtilegri vetraferð, nýlegri berjatínslu, eða hverju sem lýsir upplifun af landinu og þeim endalausu skemmtilegu möguleikum sem það hefur upp á að bjóða.  Keppendur þurfa að skýra innsendar myndir með lýsandi stikkorðum eða setningum. Þær myndir sem lýsa best, að mati dómnefndar, skemmtilegum augnablikum af innlendum upplifunum eru sigurstranglegastar. Myndirnar þurfa alls ekki að vera bundnar við frí eða sumarleyfi. Sáraeinfalt að taka þátt í gegnum vef,  snjallsíma eða tölvupóstAllir geta hlaðið inn myndum á vefsíðuna. Innskráðir notendur á Facebook geta hlaðið inn myndum en einnig er hægt að sækja myndaleiks síma-app fyrir Android og iPhone sem gera notendum kleift að setja inn myndir á vefinn. Instagram og twitter-notendur geta sent inn myndir sjálfkrafa með því að merkja þær #islandermedetta. Fyrir þá sem hafa ekki aðgang að framangreindu er einfalt að senda tölvupóst á netfangið leikur@islandermetta.is með mynd sem viðhengi og þá birtist hún sjálkfkrafa á vefnum. Nánar um vinninga og myndaleikinn á islandermedetta.is. Vefurinn islandermedetta.is hittir í mark hjá ævintýraþyrstum ÍslendingumLandsmenn hafa þegar tekið vel við sér og heimsóknir á vefinn skipta tugþúsundum nú þegar. Athygli vekur að mælingar sína að notendur verja drjúgum tíma til þess að skoða vefinn og ljóst að það er einfalt að gleyma sér við að skoða þá fjölbreytilegu möguleika sem þar eru kynntir. Allir skráðir aðilar í ferðaþjónustu hafa aðgang að bakenda vefsins og geta hlaðið inn fjölda upplýsinga um þjónustu sína. Nánari upplýsingar veitir:Sigrún Hlín SigurðardóttirÞróunarstjóri markaðsmála Ferðamálastofusigrun@ferdamalastofa.is sími: 892 0675 www.islandermedetta.is
Lesa meira

Styrkir til skipulags og hönnunar áfangastaða fyrir ferðamenn

Ferðamálastofa auglýsir eftir umsóknum um styrki til skipulags á áfangastöðum fyrir ferðamenn sem ekki eru í eigu eða umsjón ríkisins.  Um er að ræða 3 - 4 styrki að upphæð allt að kr. 3 milljónir.  Um getur verið að ræða þarfagreiningu, stefnumótunar-, skipulags- og hönnunarvinnu. Athugið ekki er um framkvæmdastyrk að ræða.  Lögð er áhersla á heildaryfirbragð áfangastaðar þar sem staðarvitund og vistvæn nálgun eru sett í öndvegi.  Umsóknarfrestur:Umsóknarfrestur er til og með 31. október 2012. Umsóknir sem berast eftir það eru ekki teknar gildar. Styrkþegar verða kynntir á Ferðamálaþingi 22. nóvember 2012. Við undirbúning umsóknar skal hafa eftirfarandi í huga: Afurð verkefnisins skal vera heildarskipulag, hönnun og framtíðarsýn fyrir áfangastaðinn.  Skilyrt er að um sé að ræða áfangastaði sem eru opnir almenningi og að aðgengi allra verði tryggt sem frekast er kostur. Að jafnaði getur styrkur ekki numið hærri upphæð en 75% heildarkostnaðar.  Við yfirferð umsókna er tekið mið af markmiðum ferðamálaáætlunar 2011-2020, sjálfbærnisjónarmiðum, nýnæmi o.fl.  Við hönnunina skal horft til áherslna Ferðamálastofu er varða skipulag og hönnun, útlit og gæði mannvirkja og merkinga sem koma m.a. fram í "Ferðamálaáætlun 2011-2020", “Menningarstefnu í mannvirkjagerð”, leiðbeiningarritinu „Góðir staðir“ og „Handbók um merkingar á ferðamannastöðum og friðlöndum”. Við mat á umsóknum er horft til gæða og trúverðugleika umsóknar. Umsókn og fylgiskjölUmsókn skal senda inn á sérstöku umsóknareyðublaði, sjá hér að neðan, og henni þurfa að fylgja tiltekin gögn.  Í umsókn og fylgigögnum er kallað eftir eftirfarfarandi upplýsingum: Verkefnislýsingu og framtíðarsýn sem lýsir hugmyndinni með rökstuddum og skýrum hætti. Kostnaðar- og verkáætlun.  Skriflegu samþykki allra landeigenda og/eða umsjónaraðila. Afriti af gildandi aðalskipulagi og deiliskipulagi ef við á frá viðkomandi sveitarfélagi.  Afstöðumynd sem sýnir hvernig verkefnið fellur að gildandi aðalskipulagi ef það er til staðar.   Öðrum gögnum sem styrkt geta umsókn. Hverjir geta sótt um:Einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök og sveitarfélög að uppfylltum ofangreindum skilyrðum. Hvar ber að sækja um:Umsóknareyðublað er að finna hér fyrir neðan. Eyðublaðið er á word-formi og er best að byrja á að vista það á eigin tölvu áður en útfylling hefst.  Skipulag og hönnun áfangastaða fyrir ferðamenn - umsókn (Word) Áður en ráðist er í gerð styrkumsókna Áður en ráðist er í gerð styrkumsókna er vert að kynna sér neðangreint efni: Menningarstefna í Mannvirkjagerð Ný Skipulagslög nr. 123/2010 „Góðir staðir“ - leiðbeiningarrit um uppbyggingu ferðamannastaða (PDF) Aðgengi fyrir alla bæklingurinn Handbók um merkingar (PDF 8,6 MB) Ferðamálaáætlun 2011-2020 Nánari upplýsingar veitir Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður AkureyriNetfang: elias@ferdamalastofa.is - Sími: 535-5510
Lesa meira

Hjólað á köldum svæðum er leikur einn

Ráðstefnan "Hjólum til framtíðar 2012 - rannsóknir og reynsla" verður haldin í Iðnó 21. september kl. 9 - 16. Í ár er áherslan á það sem efst ber á baugi í heimi hjólavísindanna og reynslu þeirra sem hafa eflt hjólreiðar í sínu nærumhverfi. Hjólreiðar á köldum svæðum Rannsókn um Hjólreiðar á köldum svæðum er eitt lykilerinda ráðstefnunnar. Þar kemur fram að öflugasti hópur hjólreiðamanna borgarinnar Oulu er á aldrinum 15 – 25 árs og um 30% þeirra hjóla árið um kring allra sinna ferða í allt að -30°frosti. Til samanburðar hefur þessi hópur hjólandi verið nánast ósýnilegur á Íslandi.  Til landsins koma virtir vísindamenn með fyrirlestra, m.a. frá Bretlandi og Finnlandi. Einnig verða innlendar hjólatengdar rannsóknarniðurstöður og rannsóknir kynntar auk þess sem farið verður yfir reynslu einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga af eflingu hjólreiða. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Jón Gnarr borgarstjóri og Dr. Ari Kristinn Jónsson rektor HR munu ávarpa ráðstefnuna. Þorsteinn Hermannsson samgönguverkfræðingur, verður fundarstjóri dagsins. Árleg ráðstefnaÞetta er önnur ráðstefna Hjólafærni á Íslandi og Landssamtaka hjólreiðamanna sem haldin er í Evrópsku samgönguvikunni. Á síðasta ári bar hún nafnið Hjólum til framtíðar og nú er það Hjólum til framtíðar 2012- rannsóknir og reynsla. Á næsta ári, 20. sept. 2013, verður það Hjólum til framtíðar 2013; réttur barna til hjólreiða. Samvinnuverkefni margra aðilaHjólum til framtíðar 2012; rannsóknir og reynsla, er samvinnu verkefni fjölmargra aðila. Hjólafærni á Íslandi og Landssamtök hjólreiðamanna skipuleggja ráðstefnuna í góðri samvinnu við Reykjavíkurborg, Vegagerðina, Landlæknisembættið, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Ferðamálastofu og fleiri góða aðila. Skráning til 19. septemberSkráning á ráðstefnuna er hér: Hjólum til framtíðar 2012; skráning Skráningu lýkur á miðnætti 19. sept. Aðgangur að ráðstefnunni er 4.500 kr. og 2.000 kr. fyrir námsmenn. Erindin hennar verða aðgengileg á vef www.lhm.is eftir ráðstefnuna. Ráðstefnan verður einnig í beinni útsendingu á netinu þannig að hún á að vera aðgengileg áhugasömum um víða veröld. Sent út á netinuÞeir sem eiga lengra að sækja geta fylgst með ráðstefnunni í beinni útsendingu á Netinu. Leiðbeiningar til að tengjast eru hér að neðan. Uppsetning á nýjustu útgáfu Java:Til að byrja með er nauðsynlegt að tryggja að tölvan sé með nýjustu útgáfu af Java forritinu (er á öllum tölvum en ekki víst að þið séuð með það nýjasta). Þannig að best er að byrja á að fara inn á www.java.com, hlaða þar niður nýjustu útgáfu (áberandi hnappur á miðjum skjánum) og setja upp. Þetta getur tekið nokkrar mínútur.  Tengjast fundinum:Til að tengjast fundinum er farið inn á þessa vefslóð sem verður virk skömmu áður en ráðstefnan hefst:https://fundur.thekking.is/startcenter/Join.xhtml?sinr=257111354&sipw=nv64Athugið að samþykkja þau skilaboð sem upp koma en í flestum tilfellum kemur tvívegis upp gluggi þar sem smellt er á „run“. Eftir það á fundur að hefjast. Allar nánari upplýsingar veitir Sesselja Traustadóttir, framkvæmdastýra Hjólafærni á Íslandi í s. 864 2776 hjolafaerni@hjolafaerni.is Dagskrá Hjólum til framtíðar 2012 – rannsóknir og reynsla: 9.00 - 9.05 Setning borgarstjóra, Jóns Gnarr.   Hjólaskálin afhent; viðurkenning fyrir framúrskarandi hjólaeflingu. 9.05 – 9.50 Where have we come from? Where are we going to? Academic  Cycling Research.   Peter Cox, Senior Lecturer in Sociology at the University of Chester, Great Britain 9.50 - 10.10 Kaffihlé  10.10 – 10.30 Mat á gæðum hjólaleiða   Davíð Arnar Stefánsson, meistaranemi í landafræði við Háskóla Íslands 10.30 – 10.50 Hjólað til og frá vinnu: Vísindaleg reynslusaga með ögn af tilfinningasemi   Björn H. Barkarson, umhverfisfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf    10.50 - 11.10 Hjólað í vinnuna, rannsókn á meðal liðsstjóra keppninnar   Jóna Hildur Bjarnadóttir, sviðsstjóri almenningsíþróttasviðs Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, 11.10 - 11.30 Hjólað í skólann – rannsókn á reiðhjólanotkun framhaldsskólanema og viðhorfi þeirra til hjólreiða.  Bjarney Gunnarsdóttir, íþrótta- og hjólafærnikennari, B.S. í íþrótta- og heilsufræði. 11.30 - 11.50 Áhrif umhverfisupplifunar á samgönguhjólreiðarfólk  Harpa Stefánsdóttir, arkitekt FAÍ, doktorsnemi i skipulagsfrædi vid Norwegian University of Life Sciences  11.50 – 12.50 Hádegismatur  12.50 – 13.00 Ávarp menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur  13.00 – 13.40 Winter cycling is an option   Jaakko Ylinampa, Director, Lapland´s Centre for Economic Development, Transport and the Environment 13.40 - 14.00 Allt á hreyfingu: Hjólreiðar og borgarrými   Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands    14.00 - 14.20 Hjólastígar Reykjavíkurborgar – samstarf við Vegagerðina  Ólafur Bjarnason, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar 14.20 - 14.35 Samgöngusamningar – er þess virði að láta fjármuni í þetta? Reynslan hjá Matís  Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís 14.35 - 14.50 Kaffihlé  14.50 – 15.30 Pallborðsumræður: Hvernig eflum við hjólarannsóknir? Hreinn Haraldsson Vegamálastjóri, Peter Cox dósent í félagsvísindum við háskólann í Chester, Ásdís Hlökk Theodórsdóttir skipulagsfræðingur og aðjúnkt við HR, Jaakko Ylinampa forstjóri við Lapland´s Centre for Economic Development, Transport and the Environment og Harpa Stefánsdóttir, arkitekt FAÍ, doktorsnemi i skipulagsfræði.  15:30 - 15:40 Samantekt; Þorsteinn Hermannsson  15:40 – 15:50 Réttur barna til að hjóla:  Sesselja Traustadóttir og Morten Lange kynna ályktun Velo-City Global 2012 og Hjólum til framtíðar 2013 - virðum rétt barna til hjólreiða; á öllum aldri.    15:50 - 16:00 Ráðstefnuslit, Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR  16:00 - 17:00 Móttaka í Ráðhúsinu Fundarstjóri verður Þorsteinn Hermannsson, samgönguverkfræðingur hjá Mannviti. Þorsteinn stýrir einnig pallborðsumræðunum.   
Lesa meira

Umhverfisverðlaun 2012 - óskað eftir tilnefningum

Ferðamálastofa auglýsir eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna fyrir árið 2012. Verðlaunin hefur stofnunin veitt árlega frá árinu 1995 og er tilgangur þeirra að beina athyglinni að þeim ferðamannastöðum eða fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem sinna umhverfismálum í starfi sínu og framtíðarskipulagi. Ferðaþjónustan byggir afkomu sína að miklu leyti á umhverfislegum gæðum og er það trú Ferðamálastofu að verðlaunin geti orðið hvatning til ferðaþjónustuaðila og viðskiptavina þeirra að huga betur að umhverfi og náttúru og styrkja þannig framtíð greinarinnar. Hverjir koma til greina sem verðlaunahafar?Allir þeir sem tengjast ferðamálum og láta sig umhverfismál varða og vinna markvisst að því að viðhalda jafnvægi milli efnahagslegra, náttúrlegra og félagslegra þátta. Það geta verið einstaklingar, fyrirtæki eða félagasamtök. Tilnefningar sendist á skrifstofu Ferðamálastofu, Geirsgötu 9, 101 Reykjavík, merktar Umhverfisverðlaun eða með tölvupósti á umhverfisstjóra stofnunarinnar, Svein Rúnar Traustason, á netfangið sveinn@ferdamalastofa.is fyrir 15. október næstkomandi. Skjal til útfyllingarHér að neðan er skjal með spurningum og atriðum sem þurfa að vera í lagi þegar ferðaþjónustuaðilar eru tilnefndir. Skjal til útfyllingar vegna umhverfisverðlauna (Word-skjal) Nánari upplýsingar og listi yfir fyrri verðlaunahafa Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson - arctic-images.com    
Lesa meira

Gistinætur heilsárshótela í júlí

Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum í júlí síðastliðnum. Sem fyrr vekur Hagstofan athygli á að tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Gistinóttum á hótelum í júlí fjölgar um 12% Gistinætur á hótelum í júlí voru 254.900 samanborið við 227.500 í júlí 2011. Gistinætur erlendra gesta voru um 90% af heildarfjölda gistinátta í júlí en gistinóttum þeirra fjölgaði um 13% samanborið við júlí 2011. Á sama tíma fjölgaði gistinóttum Íslendinga um 8%. Gistinóttum á hótelum fjölgaði í öllum landshlutum. Á höfuðborgarsvæðinu voru 154.100 gistinætur eða um 14% fleiri en í júlí 2011. Á Suðurlandi voru 37.900 gistinætur á hótelum í júlí sem er rúmlega 10% aukning samanborið við fyrra ár. Á Norðurlandi fjölgaði gistinóttum um 10%, voru 28.300 samanborið við 25.800 í júlí 2011. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum einnig um 10% en þar var fjöldi gistinátta 11.700. Gistinætur á Austurlandi voru 12.700 og fjölgaði um rúm 7%. Gistinætur á Suðurnesjum voru 10.200 eða um 6% fleiri en í júlí 2011. Gistinóttum á hótelum fjölgaði um rúm 18% fyrstu sjö mánuði ársinsGistinætur á hótelum fyrstu sjö mánuði ársins 2012 voru 1.026.100 en voru 866.900 fyrir sama tímabil árið 2011. Á þessu tímabili hefur gistinóttum erlendra gesta fjölgað um 20% á meðan gistinóttum Íslendinga hefur fjölgað um 11%.  
Lesa meira

Nauðsynlegt að vita hverjir sækja þig heim

„Ég vil endilega hvetja ferðaþjónustuaðila almennt til að vera duglegri að halda saman upplýsingum um samsetningu gestahópsins því slíkt getur verið afar gagnlegt og er í raun nauðsynlegt að mínu mati,“ segir Sigurður Atlason, forstöðumaður Galdrasafnsins á Hólmavík. Sigurður hefur í mörg ár skráð niður þjóðerni þeirra sem koma á safnið og getur þannig fylgst með þróuninni. Frakkar að taka toppsætið?Svo dæmi sé tekið af ágúst þá voru gestir hátt í 5 þúsund og þar af voru Frakkar fjölmennastir af erlendum gestum eða 21,2%, Þjóðverjar 18,8% og Ítalir 11,4%. „Þjóðverjar hafa verið stærsti hópurinn undanfarin sumur en mér sýnist jafnvel stefna í að Frakkar gætu velt þeim úr efsta sætinu, sem væru þá nokkrar fréttir. En það kemur betur í ljós þegar ég tek saman tölur fyrir sumarið í heild. Þá hefur verið áhugavert að sjá nýjar þjóðir koma inn í verulegu mæli, t.d. Tékka og Ísraelsmenn,“ segir Sigurður. Að hans sögn eru Íslendingar sem fyrr fjölmennastir eða um fjórðungur þeirra sem koma í safnið. En hvað hag telur Sigurður sig hafa af því að halda utan um þessar upplýsingar. „Það skiptir þig auðvitað öllu máli að vita hverjir eru að heimsækja þig, bæði upp á markaðsstarf, hvaða tungumál er best að leggja áherslu á og fleira.“ Rangri ímynd viðhaldið af stöðunni á landsbyggðinni Góð umferð hefur verið í Galdrasafnið í sumar en það verður opið í allan vetur, líkt og verið hefur undanfarin sjö ár. „Það kom mér satt best að segja á óvart fyrsta veturinn hvað umferðin var mikil og hún hefur síðan aukist jafnt og þétt. Akkilesarhællinn er sú ímynd sem ég vil meina að ferðaskrifstofur og ferðaþjónustuaðilar á höfuðborgarsvæðinu viðhaldi af landsbyggðinni, að þar sé allt lokað á veturna. Það gengur afar illa að koma því inn hjá fólki að þannig er það ekki í dag. Það er mjög víða opið og fjölmargt hægt að gera. Þessu verður að fara að linna og ég skil satt best að segja ekki hvaða hag menn telja sig hafa af því að viðhalda þessari ímynd,“ segir Sigurður. Mynd: Uppvakningurinn á Galdrasafninu vekur jafnan óskipta athygli.  
Lesa meira

Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um hækkun viðisaukaskatts á gistingu

Eins og fram hefur komið hafa stjórnvöld nú kynnt hugmyndir um að hækka virðisaukaskatt í 25,5% um mitt árið 2013. Í ágúst 2012 fól fjármálaráðuneytið Hagfræðistofnun að vinna greinargerð um áhrif fyrirhugaðrar hækkunar virðisaukaskatts á komur ferðamanna og ríkissjóð. Skýrslun má nálgast hér að neðan hana unnu Kári S Friðriksson, MSc og Dr. Sveinn Agnarsson. Áhrif þess að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu (PDF)
Lesa meira

Svipuð fjölgun ferðamanna í ágúst og aðra mánuði í sumar

Samkvæmt talningum Ferðamálastofu fóru 115.279 erlendir ferðamenn frá landinu í ágúst síðastliðnum eða um 13.400 fleiri en í sama mánuði árið 2011. Talningar Ferðamálastofu hafa sýnt fjölgun alla mánuði ársins 2012 en fjölgunin í ágúst er svipuð og aðra mánuði í sumar, júní (13,3%) og júlí (14,7%). Tvöfalt fleiri ferðamenn á ellefu ára tímabiliFerðamenn í ágúst voru 13,2% fleiri en í ágúst árið 2011. Þegar litið er til fjölda ferðamanna í ágústmánuði á ellefu ára tímabili (2002-2012) má sjá 8,8% aukningu milli ára að jafnaði frá árinu 2002. Þjóðverjar, Bandaríkjamenn og Frakkar nærri 40% ferðamannaAf einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í ágúst frá Þýskalandi (14,4%), Bandaríkjunum (13,7%) og Frakklandi (10,6%). Ferðamenn frá Bretlandi (6,8%), Danmörku (5,3%), Noregi (5,2%), Ítalíu (4,9%), Spáni (4,8%) og Svíþjóð (4,3%) fylgdu þar á eftir. Af einstaka þjóðum fjölgaði Þjóðverjum, Bandaríkjamönnum, Frökkum og Kínverjum mest í ágúst milli ára. Þannig komu um 2.600 fleiri Þjóðverjar í ár en í fyrra, 2.000 fleiri Bandaríkjamenn, um 1.900 fleiri Frakkar og um 1.100 fleiri Kínverjar. Einstök markaðssvæðiÞegar litið er til einstakra markaðssvæða má sjá aukningu frá öllum mörkuðum. Mest er hún þó frá löndum sem eru flokkuð undir "Annað " eða 23%. Aukningin frá  Bretlandi, Mið- og S-Evópu og Norður Ameríku er svipuð eða um og yfir tíu prósent. Norðurlandabúum fjölgar hlutfallslega minnst eða um 3,1%. Ferðamenn frá áramótumÞað sem af er ári hafa 472.285 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 65.801 fleiri en á sama tímabili í fyrra en um er að ræða 16,2% aukningu milli ára. Ferðamönnum hefur fjölgað verulega milli ára frá öllum mörkuðum. Þannig hefur Bretum fjölgað um 34,4%, N-Ameríkönum um 19,0%, Mið- og S-Evrópubúum um 11,5% og ferðamönnum sem eru flokkuð undið "Annað" um 21,8%. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað í minna mæli eða um 6,9%. Ferðir Íslendinga utanUm 37 þúsund Íslendingar fóru utan í ágúst síðastliðnum, 8,3% fleiri en í ágúst 2011. Frá áramótum hafa 242.904 Íslendingar farið utan, 5,9% fleiri en árinu áður þegar brottfarir mældust um 229 þúsund. Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Talnaefni/Ferðamannatalningar hér á vefnum. Nánari upplýsingar veitir Oddný Þóra Óladóttir, rannsóknastjóri oddny@ferdamalastofa.is Ágúst eftir þjóðernum Janúar - ágúst eftir þjóðernum       Breyting milli ára       Breyting milli ára   2011 2012 Fjöldi (%)   2011 2012 Fjöldi (%) Bandaríkin 13.821 15.825 2.004 14,5   Bandaríkin 56.900 69.268 12.368 21,7 Bretland 6.997 7.784 787 11,2   Bretland 45.791 61.542 15.751 34,4 Danmörk 6.027 6.110 83 1,4   Danmörk 30.471 30.223 -248 -0,8 Finnland 2.026 1.542 -484 -23,9   Finnland 9.006 9.562 556 6,2 Frakkland 10.376 12.258 1.882 18,1   Frakkland 30.141 34.121 3.980 13,2 Holland 3.619 4.006 387 10,7   Holland 15.208 16.465 1.257 8,3 Ítalía 5.714 5.653 -61 -1,1   Ítalía 10.720 11.775 1.055 9,8 Japan 741 828 87 11,7   Japan 4.498 5.783 1.285 28,6 Kanada 3.232 3.652 420 13,0   Kanada 12.677 13.538 861 6,8 Kína 1.323 2.417 1.094 82,7   Kína 5.966 9.514 3.548 59,5 Noregur 5.393 5.956 563 10,4   Noregur 29.401 33.987 4.586 15,6 Pólland 2.035 2.091 56 2,8   Pólland 10.758 10.986 228 2,1 Rússland 444 1.215 771 173,6   Rússland 1.972 3.681 1.709 86,7 Spánn 5.501 5.547 46 0,8   Spánn 11.821 11.838 17 0,1 Sviss 2.957 3.696 739 25,0   Sviss 8.710 10.411 1.701 19,5 Svíþjóð 4.536 4.926 390 8,6   Svíþjóð 24.014 25.493 1.479 6,2 Þýskaland 14.001 16.633 2.632 18,8   Þýskaland 46.624 52.735 6.111 13,1 Annað 13.098 15.140 2.042 15,6   Annað 51.806 61.363 9.557 18,4 Samtals 101.841 115.279 13.438 13,2   Samtals 406.484 472.285 65.801 16,2                       Ágúst eftir markaðssvæðum Janúar - ágúst eftir markaðssvæðum       Breyting milli ára       Breyting milli ára   2011 2012 Fjöldi (%)   2012 2012 Fjöldi (%) Norðurlönd 17.982 18.534 552 3,1   Norðurlönd 92.892 99.265 6.373 6,9 Bretland 6.997 7.784 787 11,2   Bretland 45.791 61.542 15.751 34,4 Mið-/S-Evrópa 42.168 47.793 5.625 13,3   Mið-/S-Evrópa 123.224 137.345 14.121 11,5 N-Ameríka 17.053 19.477 2.424 14,2   N-Ameríka 69.577 82.806 13.229 19,0 Annað 17.641 21.691 4.050 23,0   Annað 75.000 91.327 16.327 21,8 Samtals 101.841 115.279 13.438 13,2   Samtals 406.484 472.285 65.801 16,2                       Ísland 34.188 37.023 2.835 8,3   Ísland 229.392 242.904 13.512 5,9                
Lesa meira

Gengið frá fyrstu lokagreiðslu frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Fyrir helgi gekk Framkvæmdasjóður ferðamannastaða frá fyrstu lokagreiðslu til styrkþega. Um var að ræða styrk til Gunnarsstofnunar vegna skipulagsvinnu og hönnunar á útsýnispalli og minjasvæði að Skriðuklaustri. Einhver umfangsmesta fornleifarannsókn síðari áraUppgreftri Ágústínusarklausturs á Skriðuklaustri í Fljótsdal sem starfrækt var 1493-1554 lauk síðasta sumar. Að sögn Skúla Björns Gunnarssonar, forstöðumanns Gunnarsstofnunar, er um að ræða einhverja umfangsmestu fornleifarannsókn síðari ára en hún hófst árið 2002 með framlögum Kristnihátíðarsjóðs. Í ár hefur verið unnið að frágangi minjasvæðisins og þann 19. ágúst síðastliðinn var það opnað formlega af mennta- og menningarmálaráðherra. Í samráði við Fornleifavernd ríkisins hafa grunnform klausturbygginga og kirkju verið hlaðin upp og búið er að tyrfa veggi og umhverfi þannig að hægt er að feta í fótspor þeirra sem dvöldu í klaustrinu á 16. öld. “Tímamótin nú markast einnig af þeim 500 árum sem liðin eru frá því Stefán Jónsson Skálholtsbiskup vígði klausturkirkjuna,” segir Skúli Björn og því má bæta við að samtímis kom einnig út bók um rannsóknina á klaustrinu að Skriðu eftir dr. Steinunni Kristjánsdóttur. Hönnun á útsýnispalli og skipulagning á minjasvæðinu Sem fyrr segir var styrkur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, sem var að upphæð 500 þúsund krónur,  nýttur í hönnun á útsýnispalli og skipulagningu á minjasvæðinu í tengslum við gerð verndaráætlunar fyrir klausturminjarnar. Gott útsýni er yfir minjasvæðið og geta gestir fræðst um staðinn á upplýsingaskiltum sem eru á pallinum og af skiltum sem komið hefur verið fyrir í rústunum sjálfum. Landmótun ehf. og Verkfræðistofa Austurlands unnu hönnunarvinnu vegna útsýnispallsins en Tréiðjan Einir sá um byggingu hans.  Sjá nánar á www.skriduklaustur.is Næsti umsóknarfrestur til 10. septemberFramkvæmdasjóður Ferðamannastaða tók til starfa í byrjun þessa árs og er vistaður hjá Ferðamálastofu. Markmið og hlutverk sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum fór fram í febrúar síðastliðnum og nú er einmitt verið að auglýsa eftir umsóknum um styrki fyrir árið 2013. Umsóknarfrestur vegna þeirra er til 10. september næstkomandi. Nánar um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða
Lesa meira

World Travel Market - skráning

Íslandsstofa auglýsir eftir þátttöku á World Travel Market ferðakaupstefnunni í London dagana 5.-8. nóvember. World Travel Market er ein stærsta ferðakaupstefna í heimi og er haldin árlega. Sýningin verður opin í fjóra daga fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og tengda aðila (trade) en seinni tveir dagarnir eru einnig opnir almenningi. Sýningin fer fram í ExCel sýningarhöllinni í London líkt og undanfarin ár. Íslandsstofa sér um að skipuleggja básinn og býður þar m.a. upp á fundaaðstöðu þar sem þátttakendum gefst kostur á að hitta viðskiptavini. Plássið á básnum er takmarkað og gildir því reglan fyrstur kemur - fyrstur fær. Áhugasamir eru því hvattir til að skrá sig hið fyrsta. Síðasti skráningardagur er 12. september.  Skráningareyðublað World Travel Market 2012 (Word) Umsóknir skulu sendar til Heru Brá Gunnarsdóttur, hera@islandsstofa.is með cc. á Aðalstein Sverrisson adalsteinn@islandsstofa.is Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu World Travel Market
Lesa meira