Fara í efni

Aðalfundur All Senses hópsins

All senses
All senses

Á annan tug fyrirtækja á Vesturlandi sem á einhvern hátt þjóna ferðamönnum hafa tekið sig saman undir einu merki, ?Upplifðu allt? eða ?All Senses Awoken?. Hópurinn hélt aðalfund sinn á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi í vikunni.

Nafnið Upplifðu allt - All Senses Group (ASG) vísar til þess að á Vesturlandi geti gestir upplifað allt það besta sem Ísland hefur upp á að bjóða, náttúrufegurð, afþreyingu, sögu og góðan aðbúnað, segir í frétt frá samtökunum. Fram kemur að hópurinn hefur starfað saman í meira en tvö ár og vex stöðugt ásmeginn. Hér er á ferðinni dæmi um klasasamstarf þegar fyrirtæki í bullandi samkeppni taka höndum saman um að kynna sig og svæðið og miðla hvoru öðru af þekkingu og reynslu.

Fram kemur að umrædd fyrirtæki skapa um 150 störf á ársgrundvelli og má því reikna með því að afleidd störf séu í kringum 300. Flest fyrirtækjanna í samstarfinu eru með starfsemi í gangi 10 mánuði eða lengur og hópurinn á það einnig sameiginlegt að búa yfir mikilli rekstrareynslu og víðfeðmu tengslaneti.

Á aðalfundinum gerði Hansína B. Einarsdóttir grein fyrir starfi liðins árs og Unnur Halldórsdóttir, fór yfir fjármál verkefnisins. Var það samdóma álit allra viðstaddra að verkefnið hafi skilað miklum árangri og möguleikarnir væru óþrjótandi. Ákveðið var að stofna félag um verkefnið sem hefur það að meginmarkmiði að kynna Vesturland sem áfangastað, efla samstarf þeirra sem kjósa að vera í félaginu og miðla þekkingu og auka fagmennsku

Í verkefnisstjórn næsta árs voru kosin: Hansína B. Einarsdóttir, Hótel Glym, Unnur Halldórsdóttir, Hótel Hamri og Steinar Berg Ísleifsson, Fossatúni. Verkefnisstóri ASG er Þórdís G. Arthursdóttir. Meðfylgjandi mynd var tekin af þeim sem sóttu aðalfundinn.