Fara í efni

Góður árangur MK-nema í Evrópukeppni hótel- og ferðamálaskóla

MK-nemar
MK-nemar

Nemendur úr Menntaskólanum í Kópavogi sýndu frábæran árangur í árlegri nemakeppni AEHT (Evrópusamtaka hótel og ferðamálaskóla) sem haldin var í Killarney á Írlandi dagana 7.-12. nóvember síðastliðinn og komu heim með tvenn gullverðlaun.

Nemakeppnin er liðakeppni þar sem dregnir eru saman þátttakendur frá ólíkum löndum sem síðan spreyta sig á verkefnum tengdum áherslusviðum í námi þeirra. Að þessu sinni var keppt í kökugerð, gestamóttöku, framreiðslu, barþjónustu, ferðakynningum, matreiðslu, stjórnun, herbergisþjónustu og að auki voru veitt sérstök verðlaun fyrir hreinlæti í umgengi við matvæli.

Íris Jóhannsdóttir, nemi á ferðabraut MK, tók þátt í keppni í ferðakynningum ásamt Danny van der Weel frá Hollandi. Verkefnið að þessu sinni var að fjalla um neikvæð og jákvæð áhrif ferðamennsku á umhverfið í Killarney og koma með tillögur til úrbóta. Farið var með nemendur í kynnisferð um nágrennið og þau fengu síðan einn dag til að undirbúa 20 mínútna kynningu sem flutt var fyrir áhorfendur og dómnefnd. Hlutu þau gullverðlaun fyrir kynninguna sína og silfurverðlaun fyrir að vera eitt af þeim sex liðum sem sýndu besta samvinnu og fagmennsku. Íris fékk einnig gullverðlaun fyrir að vera stigahæsti keppandinn frá sínu landi.

Ragnar Th. Atlason, bakaranemi, keppti í kökugerð ásamt James Dunn frá Írlandi. Verkefni þeirra var að útbúa fjórar tegundir af bakkelsi fyrir síðdegiste, blanda heilsudrykk (?smoothie?) í tvö glös og svara nokkrum fagtengdum spurningum. Þeir höfðu hálfan dag til að ráða ráðum sínum og ákveða hvað yrði á boðstólum og síðan 3½ klst. til að ljúka verkinu í sérstöku keppniseldhúsi. Fengu þeir gullverðlaun fyrir sitt framlag, sem meðal annars er metið með tilliti til bragðs og útlits, fagmennsku í vinnubrögðum og samvinnu keppenda.

Evrópusamtök hótel og ferðamálaskóla voru stofnuð árið 1988 og nú eru um 320 skólar frá yfir 30 löndum í samtökunum. MK hefur sent nemendur í AEHT keppnina frá því árið 1998 með frábærum árangri og hlotið samtals 9 gull- og silfurverðlaun.

Ingólfur Sigurðsson, fagstjóri í bakstri og Ásdís Ó. Vatnsdal, enskukennari hafa lengst af séð um að þjálfa og undirbúa nemendurna fyrir AEHT keppnirnar. Þeim hefur báðum nokkrum sinnum verið boðið sæti í dómnefndum í bakstri/eftirréttagerð og ferðakynningum og var Ingólfur til að mynda yfirdómari í kökugerðarkeppninni nú í Killarney. Ásdís á einnig sæti í sérstakri nefnd sem hefur það hlutverk að semja og viðhalda keppnisreglum AEHT og sjá um að þeim sé fylgt eftir. Helene H. Pedersen, fagstjóri ferðagreina í MK, er fulltrúi Íslands í framkvæmdaráði AEHT og situr alla fundi þess sem og aðalfund samtakanna.

Mynd: Íris og Ragnar geta sannarlega verið stolt af árangrinum.