Fréttir

Áhugi kannaður á þátttöku á TUR ferðasýningunni

Íslandsstofa kannar áhuga íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja á ferðasýningunni  TUR, sem haldin verður í Gautaborg í Svíþjóð  dagana 24-27 mars 2011. TUR er tvískipt sýning þar sem fyrstu tveir dagar sýningarinnar eru eingöngu B2B en seinni tveir dagar eru opnir fyrir almenning. Á TUR gefst gott tækifæri fyrir íslensk fyriræki í ferðaþjónustu að kynna sig og koma á viðskiptasamböndum. Þátttaka í sýningunni getur verið með tvennum hætti: Full þátttaka  og viðvera á Íslandsbásnum Senda kynningarefni til dreifingar á sýningunni TUR er stærsta ferðasýningin á Norðurlöndunum en um 40.000–50.000 manns sækja hana. Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband sem allra fyrst og eigi síðar en 8. desember. Nánari upplýsingar veitir Sunna Þórðardóttir, sunna@islandsstofa.is. Sími: 5114000. Nánari upplýsingar um sýninguna má sjá á heimasíðu TUR
Lesa meira

Gistibæklingurinn Áning er kominn út

Gistibæklingurinn Áning er nú kominn út sautjánda árið í röð. Hann kemur út í 50.000 eintökum á íslensku, ensku og þýsku. Í bæklingnum er að finna upplýsingar um tæplega 240 gististaði, um 60 tjaldsvæði og 40 sundlaugar og staðsetningu þeirra um land allt. Áningu er dreift ókeypis á öllum helstu ferðamannastöðum innanlands, á upplýsingamiðstöðvum, hótelum og gistiheimilum og víðar. Áningu er einnig dreift til yfir 200 ferðaskrifstofa í Evrópu og Norður-Ameríku,sem selja ferðir til Íslands. Þá er Áningu einnig dreift um borð í Norrænu. Netútgáfu bæklingsins er að finna á www.heimur.is/world og www.icelandreview.com   Útgáfufélagið Heimur hf. gefur bæklinginn út, ritstjóri er Ottó Schopka" segir í fréttatilkynningu frá útgáfufélaginu Heimi hf.
Lesa meira

Ferðaþjónustureikningar 2000-2008

Hagstofa Íslands birtir nú öðru sinni ferðaþjónustureikninga, að þessu sinni fyrir tímabilið 2000–2008. Þar kemur m.a. fram ferðaneysla innanlands á árinu 2008 og dreginn er upp ferðajöfnuður fyrir árið 2009. Metur efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu fyrir þjóðarbúskapinnFerðamennska og starfsemi sem tengist ferðalögum og þjónustu við ferðamenn er vaxandi atvinnugrein hér á landi eins og víða erlendis. Ferðaþjónusta er í raun og veru ekki sérstök atvinnugrein, eins og t.d. fiskveiðar þar sem atvinnustarfsemin ræðst af því hvað er framleitt, heldur afmarkast hún við það hver kaupir. Ferðaþjónustureikningar hafa það hlutverk að meta efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu fyrir þjóðarbúskapinn. Helstu hagtölur í ferðaþjónustu byggjast á niðurstöðum um útgjöld eða kaup erlendra ferðamanna á Íslandi, útgjöldum Íslendinga á ferð um eigið land og útgjöldum Íslendinga á ferðalagi erlendis. Ekki var unnt að gera heildstætt yfirlit yfir ferðaþjónustu á árinu 2009 þar sem framleiðsluupgjör þjóðhagsreikninga liggur ekki fyrir. Upplýsingar um útgjöld erlendra ferðamanna innanlands ásamt upplýsingum um gistinætur liggja hins vegar fyrir og varpa ljósi á þróunina á árinu 2009. Meginniðurstöður Á árunum 2000–2008 hefur hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu verið á bilinu 4,3% til 5,7. Mestur var hann árið 2002 en minnstur 2006, en að meðaltali var hann 4,9%. Heildarumsvif fyrirtækja í ferðaþjónustu á árinu 2008 námu ríflega 209 milljörðum króna eða sem svarar um 14% af vergri landsframleiðslu og þá er búið að áætla fyrir umsvifum íslenskra ferða- og flugþjónustufyrirtækja vegna starfsemi utan Íslands. Heildarferðaneysla innanlands á árinu 2008 var rúmlega 171 milljarður króna eða sem svarar rúmlega 11,5% af vergri landsframleiðslu. Ferðaneysla innanlands skiptist þannig að kaup erlendra ferðamanna voru 93,5 milljarðar, ferðaneysla heimilanna um 67,5 milljarðar og kaup fyrirtækja og opinberra aðila 9,5 milljarðar króna. Á árinu 2008 er áætlað að ríflega 9.200 manns hafi starfað við ferðaþjónustu eða um 5,1% af störfum alls. Gjaldeyristekjur og ferðaneysla 2009Á árinu 2009 voru gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum 155 milljarðar króna. Þá er búið að taka tillit til umsvifa íslenskra ferða- og flugþjónustufyrirtækja vegna starfsemi utan Íslands. Ferðaneysla erlendra ferðamanna innanlands var 112 milljarðar króna en 43 milljarðar króna eru tekjur vegna ferðamanna utan Íslands. Á árinu 2009 hækka meðalútgjöld á ferðamann úr ríflega 186 þúsund krónum í 227 þúsund krónur. Meðalgengi krónunnar veiktist um rúmlega 34% milli 2008 og 2009 sem að öðru jöfnu hefur styrkt samkeppnisstöðu landsins sem ferðamannalands, segir Hagstofan. Íslenskir ferðamennUm 45% af umsvifum ferðaþjónustu innanlands á árinu 2008 má rekja til íslenskra ferðamanna. Á árinu 2003 var þetta hlutfall 47%. Ferðaútgjöld Íslendinga innanlands hafa aukist verulega á undanförnum árum en ferðaneysla erlendra ferðamanna hefur aukist hlutfallslega meira. Framleiðsluvirði í ferðaþjónustu 2008Heildarframleiðsluvirði í ferðaþjónustu á grunnvirði var 179 milljarðar króna 2008 og aðfanganotkunin 123 milljarðar króna eða 69% af framleiðsluvirðinu. Mismunurinn 56,2 milljarðar króna er sá virðisauki eða verðmætaaukning sem leiðir af þjónustu við ferðamenn. Ferðaþjónustureikningar mæla þannig bein efnahagsáhrif þeirra fyrirtækja sem annast þjónustu við ferðamenn. Ferðaþjónustureikningar 2000-2008  
Lesa meira

Heilsulandið Ísland kynnt

Félagar úr Vatnavinum verða með fyrirlestur í Listasafni Reykjavíkur næstkomandi fimmtudagskvöld, 2. desember, þar sem verkefnið Heilsulandið Ísland verður kynnt. Í tilkynningu frá Vatnavinum segir að verkefnið stuðli að fjölbreyttri og sjálfbærri uppbyggingu og atvinnusköpun á landsvísu með eflingu heilsutengdrar ferðaþjónustu í nánum tengslum við jarðvarma og náttúru landsins. Markmið þess er að stuðla að uppbyggingu nýrra heilsulinda um allt land jafnt sem endurbótum á eldri laugum og baðstöðum og skapa þannig fjölbreytta möguleika fyrir innlenda sem erlenda gesti. Þá telja Vatnavinir að mikið sóknarfæri sé fólgið í ferðamannaiðnaðinum og unnt sé að styrkja ímynd Reykjavíkur enn frekar sem baðborg gagnvart ferðamönnum. Hafa þeir í því samhengi unnið að nokkrum hugmyndum fyrir Reykjavíkurborg. Fyrirlesturinn hefst klukkan 20 og er aðgangur ókeypis og öllum opinn.
Lesa meira

Krásir - matur úr héraði

Impra á Nýsköpunarmiðstöð og Ferðamálastofa óska eftir umsóknum um þátttöku í verkefninu Krásir sem er fræðslu og þróunarverkefni í svæðisbundinni matargerð. Í verkefnin verður boðið upp á fræðslu auk faglegs og fjárhagslegs stuðnings við þróun og sölu matvæla. Þátttaka í verkefninu er opin einstaklingum og litlum fyrirtækjum á landsbyggðinni, eða samstarfshópum einstaklinga og lítilla fyrirtækja, sem óska eftir að vinna saman við þróun á matvörum. Matvörurnar þurfa að vera ákveðin nýjung, en hafa um leið sterka skírskotun til viðkomandi svæða eða menningar. Verkefnin þurfa einnig að vera í sterkum tengslum við ferðaþjónustu, t.d. með sölu beint til ferðamanna, á sveitahótelum, gististöðum eða í veitingahúsum á landsbyggðinni. Tilgangur verkefnisTilgangur verkefnisins er að styrkja þróun í svæðisbundinni matargerð með því að framleiða og selja matvörur sem byggja á hráefni, sögu og þekkingu á ákveðnum svæðum. Ennfremur er markmiðið að auka samstarf milli fyrirtækja í ferðaþjónustu og lítilla fyrirtækja sem framleiða matvörur og auðvelda þeim sameiginlega markaðssetningu á svæðinu. Þeir, sem taka þátt í verkefninu taka þátt í fræðslu um í þróun, vinnslu og meðferð matvæla og fá auk þess fjárhagslegan og faglegan stuðning við þróun á nýjum afurðum. Með verkefninu er verið að auka þekkingu á gæðum og faglegri vinnu við þróun nýjum matvörum. Áherslur 2010 Svæðistengdar matarminjar Nýjungar í hefðbundinni matargerð Markmið Að auka framboð á matvörum sem hafa sterka skírskotun til svæðis eða sögu og menningar á viðkomandi svæði. Að koma nýrri vöru á markað. Að vinna að faglegum úrlausnum við þróun á viðkomandi vöru. Að verkefnin skili fyrirtækjunum það miklum ávinningi að kostnaðurinn við vöruþróunina skili sér til baka innan 2 - 3 ára frá því að sala hefst. Að auka þekkingu á þróun, framleiðslu og markaðssetningu. Að auka og efla samstarf milli fyrirtækja í ferðaþjónustu og maltvælaframleiðslu. ForsendurForsendur þess að verkefni geti fengið stuðning eru m.a. eftirfarandi:  Einhver nýung, þróun eða nýbreytni frá þeim vörum sem eru í boði í dag Tenging við matarvenjur og sögu svæðisins Sala sé líkleg til að skila þróunarkostnaði til baka á innan við 2-3 árum Verkefnið raski ekki samkeppni á viðkomandi svæði FramkvæmdHluti af verkefninu er námskeið þar sem þátttakendur fá fræðslu um þróun, vinnslu, meðferð og öryggi matvæla. Námskeiðin verða auglýst nánar síðar. Þátttakendur munu vinna að sínum verkefnum með aðstoð frá Impru auk sérfræðinga á tilteknum sviðum. Þjónusta Impru á Nýsköpunarmiðstöð er án endurgjalds, en styrknum er ætlað að standa undir hluta af öðrum kostnaði, t.d. ráðgjöf sérfræðinga, prófunum, mælingum eða öðrum þáttum við þróunina. Umsóknarfrestur er til 28. nóvember 2010 Umsóknareyðublað (Á vef Impru) Nánari upplýsingar veita Tinna Björk Arnardóttir í síma 522-9451/netfang: tinnabjork@nmi.is og Sigurður Steingrímsson í síma 522-9435/netfang: sigurdurs@nmi.is 
Lesa meira

Ísland á top 10 lista til að dvelja á jólunum

CNN telur að Reykjavík sé einn af top 10 stöðum í heiminum til að verja jólunum. Í frétt á vef fjölmiðlasamsteypunnar eru taldar til nokkrar ástæður. Til að byrja með eru jólasveinarnir 13 nefndir til sögunnar og jólaþorpið í Hafnarfirði, þar sem að auki er vísað í álfa og huldufólk. Þá kemur fram að fólk byrji að fagna jólunum strax í nóvember með jólahlaðborðum. Að sjálfsögðu er svo klikkt út með frásögn af hinni miklu flugeldasýningu á gamlárskvöld og þrettándanum. Greininni fylgir svo vetrarmynd frá Akureyri sem fengin er af vef Ferðamálastofu visiticeland.com. Greinin á vef CNN
Lesa meira

Íslenskir fjallaleiðsögumenn hlutu nýsköpunarverðlaun SAF 2010

Nýsköpunarverðlaun SAF – Samtaka ferðaþjónustunnar 2010 voru afhent í Hörpunni tónlistar- og ráðstefnuhúsi í dag. Íslenskir fjallaleiðsögumenn  hlutu verðlaunin í ár en fyrirtækið er vel að þeim komið og þykir hafa sýnt af sér fagmennsku sem öllum ætti að vera til fyrirmyndar í ferðaþjónustu á Íslandi. Í rökstuðningi dómnefndar segir að eftirfarandi hafi einkum legið til grundvallar ákvörðun hennar: “Joseph Schumpeter sem oftast er talinn til frumkvöðla í nýsköpunarfræðum segir okkur að nýsköpun felst í nýjum samsetningum auðlinda sem eru fyrir. Þannig er ekkert nýtt undir sólinni en nýsköpun er innleiðing nýrra ferla og samsetning nýrrar vöru innan þess samhengis sem fyrirtæki starfar hverju sinni.    Alls bárust 20 tilnefningar í samkeppni um Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunar fyrir árið 2010. Allar voru þær mjög frambærilegar og átti dómnefnd, sem skipuð er formanni samtakanna, einum félagsmanni og forstöðumanni Rannsóknamiðstövar ferðamála, í nokkrum vandræðum með að greiða úr hver stóð fremst meðal jafningja. Það fyrirtæki sem hlýtur verðlaunin í ár er hinsvegar vel að þeim komið og hefur sýnt af sér fagmennsku sem öllum ætti að vera til fyrirmyndar í ferðaþjónustu á Íslandi. Verkefnið sem þeir hljóta verðlaunin fyrir er vönduð útfærsla á hugmynd sem margir hafa borið í maganum en ekki náð, viljað eða getað sett saman vöru úr. Jöklaganga íslenskra fjallaleiðsögumanna er vara sem byggir á einni mestu sérstöðu Íslands í Evrópu, ísnum í jöklunum og því sem landið dregur nafn sitt af. Varan er vönduð og vel útfærð og gefur öllum tækifæri til að komast í snertingu við það sem gerir landið okkar svo einstakt. Þannig ætti varan að efla hróður landsins og hvetja fólk sem annars hefði ekki komið, til að koma hingað og gera eitthvað sem allir þurfa að gera einu sinni á ævinni. Varan er einnig til þess fallin að ýta undir áhuga á Íslandi sem áfangastað að vetri þegar ís og snjór ríkja á landinu. Er það í takt við brýnar þarfir ferðaþjónustu að teygja tímabilið og veita þjónustu allt árið úti á landi.” Nánar á vef SAF  
Lesa meira

Nýr ferðamálafulltrúi í New York

Sif Einarsdóttir Gústavsson hefur verið ráðin til Íslandsstofu sem ferðamálafulltrúi á viðskiptaskrifstofu Íslands í New York. Hefur hún störf í ársbyrjun 2011. Með víðtæka reynsluSif hefur áður starfað fyrir Ísland á þessum vettvangi og einnig fyrir belgíska ferðamálaráðið í N.-Ameríku. Undanfarið hefur hún starfað fyrir ferðaskrifstofuna Iceland Travel, einnig með áherslu á Ameríkumarkað. Hún er að ljúka meistaragráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá HÍ og er með bandarískan ríkisborgararétt. “Mikil ánægja ríkir með ráðningu Sifjar og væntum við mikils af starfi hennar fyrir stofuna,” segir í frétt frá Íslandsstofu. Margir hæfir umsækjendurTæplega 160 umsóknir bárust um starf ferðamálafulltrúans, þar af um 60 erlendis frá. Mikill hluti umsókna var frá fólki sem uppfyllti þau grunnskilyrði sem sett voru fram í auglýsingu starfsins og sumar þeirra voru frá verulega vænlegum umsækjendum. Tók því nokkurn tíma og vinnu að fara í gegnum þær til að þrengja hópinn. Einar hættir eftir áratuga starfEinar Gústavsson sinnt starfi umdæmisstjóra Ameríku af miklum dug til margra ára, en hann hættir nú fyrir aldurs sakir. Svo skemmtilega vill til að hann er faðir Sifjar. “Um leið og við bjóðum nýjan starfsmann velkominn, kveðjum við því með söknuði góðan og gegnan fulltrúa íslenskrar ferðaþjónustu sem starfað hefur af mikilli elju á Ameríkumarkaðnum áratugum saman,” segir í frétt Íslandsstofu.
Lesa meira

Iceland Express bætir Skotlandi og Írlandi við

Edinborg, Dublin og Belfast bætast við sem áfangastaðir á vegum Iceland Express næsta sumar. Beint flug á milli Íslands og þessara staða hefur ekki verið í boði til þessa. Flogið verður tvisvar í viku á milli Íslands og Edinborgar í Skotlandi. Áætlunin hefst 14. júní og nær til 30. ágúst. Flogið verður tvisvar í viku, á mánudögum og föstudögum. Áætlunin til Belfast á Norður-Írlandi tengist Edinborgarfluginu og er því á sömnu dögum. Til Dublin á Írlandi verður hins vegar flogið vikulega, á þriðjudögum, frá 10. júní til 29. ágúst.
Lesa meira

Ísland er meðal ?leyndustu perlanna? í golfheiminum

Ísland á góða möguleika á að auka hlut sinn í ferðamennsku tengdu golfi, ef marka má niðurstöður verðlauna á stærstu golfferðasýningu heims, sem nú er nýafstaðin. Þar komst landið í úrslit verðlauna þeirra áfangsataða sem kalla má „leyndustu perlurnar í golfheiminum.“ Valið af golfblaðamönnumSýningin sem um ræðir, IGTM, var haldin í Valencia á Spáni. Þar veittu alþjóðlegu samtökin IAGTO (The Global Golf Tourism Organisation) verðlaun í nokkrum flokkum til golfáfangastaða um allan heim. Um 150 meðlimir samtaka golfblaðamanna (Golf Travel Writers Association) taka þátt í að velja vinningshafa. Sex staðir í úrslitumÍ flokknum Undiscovered Golf Destination of the Year fengu 17 áfangastaðir atkvæði í ár en í lokaúrslitum voru síðan sex áfangastaðir: Prince Edward eyja, Búlgaria, Columbía, Ísland, Mississippi og Svíþjóð. Það var síðan Prince Edward eyja í Kanada sem varð fyrir valinu að þessu sinni. Höfðar til erlendra kylfinga„Það að komast á blað með þessum áfangastöðum sem þarna voru nefndir og svo í lokaúrslit sex áfangastaða hlýtur að vera vísbending um að Ísland hefur að einhverju leyti náð athygli þessara fjölmiðlamanna sem skrifa um golfferðamennsku um allan heim og ekki síður ákveðin staðfesting á að golfvellir og þjónusta hér á landi höfðar til erlendra kylfinga sem ferðast til að spila golf. Þá nýtist þetta okkur einnig vel til áframhaldandi kynningar erlendis,“ segir Magnús Oddsson hjá Golf Iceland samtökunum. Hér að neðan má sjá hvaða þættir það eru sem fjölmiðlamennirnir fá sem viðmið þegar þeir eru beðnir um tilnefningar: • To what extent the destination is “undiscovered”;• Qualities that make it an interesting golf destination;• Attractiveness of the region and courses;• Quality and accessibility of the courses;• Standard of accommodations;• Friendliness of the staff;• Value for money and Speed of Play *Markmið Golf Iceland era ð kynna og markaðssetja Ísland sem áfangastað fyrir kylfinga. Að samtökunum standa flestir 18 holu golfvellir á Íslandi, Golfsamband, Íslands, Ferðamálastofa og öflug fyrirtæki í ferðaþjónustu.   
Lesa meira