Fara í efni

Vestnorden haldin í 24. sinn

Vestnorden 2009
Vestnorden 2009

Um 120 íslensk fyrirtæki tóku þátt í 24. Vestnorden ferðakaupstefnunni sem haldin var í Kaupmannahöfn  fyrr í mánuðinum í umsjón Grænlendinga. Nýtt fyrirkomulag var nú reynt varðandi uppsetningu en í stað bása voru eingöngu borð. Virtist nýtt fyrirkomulag mælast vel fyrir þótt plássið að hefði þurft að vera betra.

Að sögn Jóns Gunnars Borgþórssonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálastofu, átti starfsfólk Ferðamálastofu fundi með um 40 aðilum á meðan að á kaupstefnunni stóð. „Auk þess ræddum við að sjálfsögðu við fjölda fólks á óformlegum fundum þess utan, sem einnig er hluti af þessu öllu. Þátttakendur virtust ánægðir með sinn hlut þegar upp var staðið, bæði kaupendur og seljendur, en auðvitað ræðst síðan framhaldið af því hversu vel þessum aðilum gengur að vinna úr fundum sínum. Það er ástæða til að hvetja bæði kaupendur og seljendur að vinna úr afrakstrinum eins fljótt og auðið er,“ segir Jón Gunnar.

Vestnorden á Íslandi
Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA), sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands, standa að Vestnorden. Er kaupstefnan haldin til skiptis af löndunum þremur, þar af annað hvert ár á Íslandi. Næst er því komið að Íslendingum en endanleg dagsetning og staðsetning liggur ekki fyrir.

Myndina hér fyrir ofan tók Þorleifur Þór Jónsson, forstöðumaður hjá Útflutningsráði, af starfsfólki Ferðamálastofu. Frá vinstri: Sigrún Hlín Sigurðardóttir, Davíð Jóhansson og Jón Gunnar Borgþórsson. Fleiri myndir Þorleifs eru hér  fyrir neðan.