Fréttir

Tvær ferðasýningar að hefjast

Ferðamálastofa tekur þátt í tveimur ferðasýningum sem báðar hefjast næstkomandi fimmtudag. Þetta er annars vegar hin árlega TUR ferðasýning í Gautaborg og hins vegar ný sýning í París, Map ? Le Monde á Paris. Metþátttaka á TURTUR í Gautaborg er stærsta ferðasýning á Norðurlöndum og hefur Ísland tekið þátt til margra ára. Metþátttaka er að þessu sinni en 14 fyrirtæki eru á íslenska sýningarsvæðinu sem Ferðamálastofa hafði sem fyrr umsjón með að skipuleggja. Þá er Icelandair á sér bás við hliðina. ?Ég er bjartsýn á gott gengi í ár. Meðal nýjunga er að á föstudaginn verðum við með viðburð fyrir fjölmiðlafólk þar sem við kynnum Ísland með ýmsum hætti og mun m.a. Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra verða viðstaddur,? segir Lisbeth Jensen, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálastofu í Kaupmannahöfn. Ný sýning í ParísMap ? Le Monde á Paris er nú haldin í fyrsta sinn, en hún leysir af hólmi tvær sýningar sem haldnar hafa verið í París undanfarin ár. Sýningin stendur yfir í fimm daga og er tvískipt. Fyrstu tveir dagarnir eru fyrir fagaðila en seinni þrjá dagana er sýningin opin almenningi. Icelandair, Reykjavik Excursions, Smyril Line/Voyages Galia og Island Tours France taka þátt ásamt Ferðamálastofu. Þátttaka Íslands er skipulögð af skrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt, sem sér um Mið-Evrópumarkað. Mynd: Frá TUR í fyrra.
Lesa meira

ITB tókst vel

Þátttaka Íslands á ITB ferðasýningunni í Berlín tókst með miklum ágætum í ár en sýningunni lauk í gær. Sem fyrr var Íslensk ferðaþjónusta kynnt með öflugum hætti og aldrei hafa fleiri íslensk fyrirtæki tekið þátt eða alls 21. Að sögn Davíðs Jóhannssonar, forstöðumanns skrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt, óttuðust menn nokkuð að verkföll í Þýskalandi myndu setja strik í reikninginn og draga úr aðsókn. Þau mál leystust þó að hans sögn betur en á horfðist og var mikil umferð alla sýningardagana í bás Íslands. "Mér heyrist bara vera gott hljóð í fólki og margir góðir hlutir að gerast," segir Davíð. Sýningin er talin stærsta ferðasýning í heimi og skiptist í tvennt. Fyrri þrjá dagana er aðeins opið fyrir fagaðila en síðan fyrir almenning tvo síðustu dagana. Samkeppnin er mikil því í ár tóku þátt um 10.000 sýnendur frá rúmlega 180 löndum og að sjálfsögðu keppist hver og einn við að sýna sitt besta. Að sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálastofu, hefur Ísland mörg undanfarin ár verið í samfloti með öllum hinum Norðurlöndunum en það heldur kostnaði niðri auk þess sem Ísland er þar af leiðandi með mun betri staðsetningu en ella væri mögulegt. Þess má geta að komin er dagsetning á ITB 2009 og verður sýningin haldin 11.-15. mars. Myndirnar hér að neðan voru teknar á ITB um helgina. Bás Íslands á ITB.         Karine-Delti Beck frá skrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og Simone Reppisch frá skrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt.Sér yfir íslenska básinn og sem sjá má er nóg að gera.
Lesa meira

Reykjavíkurborg til liðs við Iceland Naturally

Á fundi borgarráðs í gær var samþykkt tillaga Ólafs F. Magnússonar borgarstjóra þess efnis að Reykjavíkurborg taki þátt í landkynningarátakinu Iceland Naturally í Norður Ameríku. Iceland Naturally felst sem kunnugt er í markaðssókn og kynningu á Íslandi og íslenskum vörum þar sem íslensk stjórnvöld og fyrirtæki taka höndum saman. Framan af einskorðaðist verkefnið við Norður-Ameríku og var fyrsti samningurinn þar gerður á haustmánuðum 1999. Síðar var Iceland Naturally útvíkkað til Evrópu og hófst þar á seinni hluta ársins 2006. Verkefnið hefur frá upphafi verið vistað hjá Ferðamálastofu.
Lesa meira

Sýningunum MATUR 2008 ásamt Ferða-og Golfsýningunni 2008 er frestað!

Ákveðið hefur verið að fresta framkvæmd sýninganna Matur 2008 og Ferða og Golfsýningarinnar 2008. Fram kemur í frétt á heimasíðu Íslandsmóta, framkvæmdaaðila sýninganna, að ákvörðunin sé tekin í samráði við skipuleggjendur og samstarfsaðila í ljósi núverandi markaðsaðstæðna hér á landi og væntinga þeirra fyrirtækja sem tekið hafa þátt í sýningunum á undanförnum árum. Sýningarhald sem hluti markaðs og kynningarstarfs er þó eftir sem áður mikilvægur þáttur í markaðsstarfi fyrirtækjanna og til þess að koma til móts við þessar þarfir er nauðsynlegt að endurmeta og breyta áherslum í sýningarhaldinu, segir á fréttinni. Matur 2008:Fyrirhugað er að sýningin Matur verði haldin í byrjun vetrar og þá með öðrum formerkjum og með nýjum áherslum en verið hafa hingað til. Nýjar upplýsingar um sýninguna og annað fyrirkomulag í tengslum við hana verður komið á framfæri á vormánuðum. Ferðasýningin og Golf 2008:Ferðatorg sem nýtur stuðnings Ferðamálasamtaka Íslands mun einnig frestast. Fyrirhugað er að efna til Ferðatorgs í öðru samhengi þegar nær dregur sumri.  
Lesa meira

Island Pro Travel hlaut Scandinavian Travel Award

Ferðaskrifstofan Island Pro Travel hlaut í gær Skandinavísku ferðaverðlaunin, Scandinavian Travel Award í flokknum ?nýsköpun? (Innovation). Verðlaunin voru afhent í sérstöku hófi í samkomusal norrænu sendiráðanna í Berlin í tengslum við ITB ferðakaupstefnuna sem hófst í gær. Alls voru sjö íslensk fyrirtæki tilnefnd til verðlaunanna í ár. Island Pro Travel hlaut þau fyrir þá nýjung sem felst í að leigja út báta til sjóstangveiði fyrir ferðafólk. Ferðaskrifstofan starfar í Þýskalandi og Bretlandi og sérhæfir sig í ferðum hingað til lands. Sem fyrr er Íslensk ferðaþjónusta kynnt með öflugum hætti á ITB. Sýningin er haldin árlega, nú í 42. sinn, og hefur Ferðamálastofa tekið þátt í henni nánast frá upphafi. Að þessu sinni kynna 21 ferðaþjónustufyrirtæki þjónustu sína á íslenska sýningarsvæðinu. Starfsfólk Ferðamálastofu í Frankfurt hefur veg og vanda að undirbúningi fyrir Íslands hönd og skipuleggur þátttökuna. Auk fyrirtækja sem taka þátt sem sýnendur koma einnig þó nokkur fyrirtæki í viðskiptaerindum frá Íslandi. Þátttakendur frá um 180 löndum eru mættir til Berlínar, alls um 10 þúsund sýnendur, og því ljóst að samkeppnin um ná hylli ferðamanna er hörð. Að sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálastofu, hafa verkföll opinberra starfsmanna sett strik í reikninginn varðandi samgöngur í Þýskalandi. Þannig hafa ekki allir getað komist á milli staða eins og þeir ætluðu og hafa sýnendur á ITB fundið fyrir því í minni aðsókn. Mynd: Frá ITB í fyrra.
Lesa meira

Norðurslóðaáætlun 2007 - 2013

Norðurslóðaáætlun 2007-2013 hófst formlega með sérstakri ráðstefnu   í Aviemore, Skotlandi  dagana  20.-21.  febrúar síðastliðinn.  Samtals er varið til áætlunarinnar 45 milljónum evra og gert er ráð fyrir mótframlögum  verkefnaþátttakenda að fjárhæð um 33.6  milljónum evra.  Þátttakendur á ráðstefnunni komu af öllu starfssvæði áætlunarinnar og voru samtals yfir 100, þar af 12 frá Íslandi, aðallega lykilaðilar úr  atvinnulífi, rannsókna- og háskólasamfélagi og stjórnvöldum  bæði á lands og héraðavísu.  Frummælendur komu frá Evrópusambandinu, skoskum  stjórnvöldum  og háskólum  er vinna að svæðaþróun.  Sérstaða norðursvæða Evrópu og lýðfræði var aðal umfjöllunarefni ráðstefnunnar.  Meðal þátttakenda frá Íslandi  voru fulltrúar atvinnuþróunarfélaga, vaxtaramninga, Háskólans á Akureyri og Háskólans á  Hólum,  auk Byggðastofnunar  og Iðnaðarráðuneytis. Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður uplýsinga og þróunarsviðs, sótti fundinn fyrir hönd Ferðamálastofu. Starfað var í vinnuhópum til að móta stefnu  og áherslur varðandi framtíðar verkefni sem hefðu mikla þýðingu fyrir starfssvæði áætlunarinnar m.a. á sviðum samgangna og upplýsingatækni.  Unnið verður áfram með þær áherslur er fram komu í vinnuhópum innan stjórnar áætlunarinnar og þær nýttar við frekari skilgreiningu á áherslu sviðum og vinnslu verkefnahugmynda innan NPP 2007-2013.  Sérstakt verkefnastefnumót verður síðan haldið í Umeå Svíþjóð í september n.k Starfssvæði áætlunarinnarNorðurslóðaáætlun 2007-2013  nær landfræðilega yfir mjög víðfeðmt svæði en þátttökulönd eru Evrópusambandslöndin,  Skotland, Norður Írland, Svíþjóð, Finnland og Írland auk Noregs, Íslands, Grænlands og Færeyja. Hin mismunandi svæði áætlunarinnar eru margbreytileg en hafa jafnframt ákveðin sameiginleg einkenni sem m.a. felast í veðurfarsaðstæðum norðurslóða, miklu dreifbýli, löngum vegalengdum og fl. Fjölþjóðleg samvinna innan Norðurslóðaáætlunar gefur ákveðin tækifæri til að þróa og finna nýjar leiðir til bættra búsetuskilyrða í víðum skilningi. Næsti umsóknarfresturAnnar umsóknarfrestur áætlunarinnar er nú opinn og lokar 7. mars 2008.  Opið er fyrir umsóknir í báðar áherslur áætlunarinnar: 1.       Nýsköpun og samkeppnishæfni 2.      Sjálfbær nýting náttúruauðlinda og samfélags. Á fyrsta umsóknarfresti voru samþykkt 12  ný aðalverkefni með heildarverkefniskostnað að fjárhæð 13.6 milljónir evra. Jafnframt hafa 9 forverkefni verið samþykkt sem hafa að megin tilgangi að vinna að gerð aðalumsókna.   Þriðji umsóknarfrestur áætunarinnar opnar 20. júní og lokar 26. september 2008  en umsóknir um forverkefni eru ekki bundnar neinum  sérstökum umsóknartíma. Íslenskir þátttakendur Eftirfarandi eru nú þegar þátttakendur í verkefnum Norðruslóðaáætlunar 2007-2013. Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri, Ferðamálasetur Íslands, Veiðistjórnarsvið Umhverfisstofnunar  - North Hunt, Sustainable Hunting Tourism  Rannsóknasetur Háskóla Íslands, Höfn Hornafirði, Háskólasetrið Húsavík, Þjóðgarðurinn Jökulsárgljúfrum, Þróunarstofa Austurlands, Kirkjubæjarstofa, Þjóðgarðurinn Skaftafelli og sveitarfélögin Hornafjörður, Skaftárhreppur, Fljótsdalshérað og Norðurþing - NEED, Northern Environment Education Development Héraðsskógar, Austurlandsskógar og Skógrækt ríkisins - PELLETime ? Solutions for competitive pellet production in medium size enterprices Fruman Nýheimum, Höfn Hornafirði og Fræðslunet Austurlands - Economuseum Northern Europe   Tengiliður áætlunarinnar hérlendis er Þórarinn Sólmundarson hjá Byggðastofnun, thorarinn@byggdastofnun.is
Lesa meira

Gistinóttum fjölgaði um rúm 12% í janúar

Hagstofan hefur birt tölur um gistinætur á hótelum í janúar síðastliðnum. Reyndust þær hafa verið 57.200 talsins en voru 51.000 í sama mánuði árið 2007. Gistinóttum fjölgaði því um 12% á milli ára. Fjölgunin er mest á höfuðborgarsvæðinu, Norðurlandi og Suðurlandi. Hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á höfuðborgarsvæðinu, úr 39.400 í 47.700 eða um 21%. Gistinóttum á Norðurlandi fjölgaði í janúar um rúm 8% á milli ára, úr 1.700 í 1.800. Á Suðurlandi  fjölgaði gistinóttum um tæp 4% frá fyrra ári, úr 2.800 í 3.000. Á Austurlandi fækkaði gistinóttum í janúar hinsvegar um tæp 61% á milli ára, eða úr 1.800 í 700. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fækkaði gistinóttum um 25% milli ára, úr 5.200 í 3.900. Fjölgun gistinátta á hótelum í janúar má aðallega rekja til Íslendinga, gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 22%  en gistinóttum útlendinga fjölgaði um rúm 8% milli ára. Nánar á vef Hagstofunnar
Lesa meira

Áframhaldandi fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll í febrúar

Tæplega 115 þúsund farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í nýliðnum febrúarmánuði, samkvæmt tölum frá flugvellinum. Þetta er tæplega 12% fjölgun farþega á milli ára, það er miðað við febrúar í fyrra. Frá áramótum hefur farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgað um 11,3% eða um 23.600 farþega. Farþegar á leið frá landinu voru 52.900 í febrúar síðastliðnum, fjölgaði um 15% á milli ára. Nánanst sami fjöldi var á leið til landsins og fjölgaði þeim um 13% miðað við febrúar í fyrra. Nánari skiptingu má sjá í meðfylgjandi töflu.   Febr.08. YTD Febr.07. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 52.908 104.672 45.947 93.497 15,15% 11,95% Hingað: 52.085 103.653 46.151 90.312 12,86% 14,77% Áfram: 1.847 4.395 3.642 6.156 -49,29% -28,61% Skipti. 8.124 18.851 7.279 18.016 11,61% 4,63%   114.964 231.571 103.019 207.981 11,59% 11,34%
Lesa meira

Ísland umfjöllunarefni National Geographic

Tuttugu og átta síðna grein um Ísland er meðal efnis í nýjasta tölublaði hins víðlesna tímarits National Geographic Magazine. Tímaritið kemur út í um 5 milljónum eintaka og er dreift um allan heim. Greinin fjallar um þær breytingar sem hafa orðið á Íslandi síðustu öldina, m.a. orkumálin, álverin, og hvernig þessi litla þjóð hefur skapað sér lífskjör meðal þess besta sem gerist. ?Í heildina er þetta mjög jákvæð grein fyrir Ísland, mikið myndskreytt og er m.a. þriggja síðna ?fold-out? frá Mývatnssveit,? segir Einar Gústavsson, forstöðumaður Ferðamálastofu í N.-Ameríku. Að sögn Einars kostar heilsíðuauglýsing litla 175 þúsund dollara, eða tæpar 12 milljónir króna, og geta menn síðan skemmt sér við að meta auglýsingagildi þessara 28 síðna.
Lesa meira

Gæðaverkefni Ferðaþjónustu bænda

Ferðaþjónusta bænda og Félag ferðaþjónustubænda hafa skrifað undir samning við fyrirtækið Better Business á Íslandi um 3ja ára verkefni á sviði gæða- og þjónustumála.  Um er að ræða svokallaðar hulduheimsóknir ?Mystery Shopper? á ferðaþjónustubæi sem geta veitt samtökunum og einstökum félögum verðmætar upplýsingar sem miða að því að styrkja stöðu og samkeppnishæfni Ferðaþjónustu bænda á sviði  gæða og þjónustu í nánustu framtíð.  MarkmiðMarkmið  gæðaverkefnisins  er að gera stöðumat á aðbúnaði og þjónustu hjá félögum innan Ferðaþjónustu bænda út frá sjónarhorni  gesta næstu 3 sumur, þ.e.  á árunum  2008-2010.  Ferðaþjónustubændur sem bjóða upp á gistingu í uppbúnum rúmum og morgunverð munu fá tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni og á það við um félaga sem bjóða upp á heimagistingu, gistingu í gistihúsum bænda og á sveitahótelum.  Með þessari nálgun getur Ferðaþjónusta bænda metið veikleika og styrkleika innan heildarinnar og kortlagt á raunhæfan hátt stöðu Ferðaþjónustu bænda í samkeppnisumhverfinu. Á þann hátt er hægt að vinna áfram með niðurstöðurnar eftir hvert sumar og stuðla þannig að enn markvissara starfi á sviði þjónustu og gæða innan Ferðaþjónustu bænda. Hvað er ?Mystery Shopper? ? Ferðamaður á vegum Better Business, sem hvorki starfsmenn Ferðaþjónustu bænda né ferðaþjónustubændur vita hver er, mun á meðan og eftir að heimsókn lýkur, taka eftir og skilgreina hvernig ferðaþjónustubændur bregðast við þeim hlutum sem Ferðaþjónusta bænda í samráði við félaga sína ákveða að varpa ljósi á.  Dæmi um þætti sem verða mældir er þjónusta við gesti, aðbúnaður, morgunverður, hreinlæti og snyrtimennska. Verkefnið er gæða- og þróunarverkefni sem  verður í gangi í 3 sumur og geta félagar verið þátttakendur hluta af tímabilinu eða allt tímabilið.  Alls munu 50 ferðaþjónustubæir fá tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni í sumar en af þeim 130 aðilum sem eru í Ferðaþjónustu bænda gefst um 100 aðilum að taka þátt í þessu verkefni á 3ja ára tímabilinu. Um er að ræða eitt stærsta verkefni sem ráðist hefur verið í á vegum Ferðaþjónustu bænda á sviðum gæða- og þjónustumála, þar sem lögð verður mikil áhersla á eftirfylgni og þróun  á þjónustustefnu ferðaþjónustubænda. Markmið Ferðaþjónustu bænda er að gestirnir fái ekki bara góða þjónustu heldur framúrskarandi þjónustu, segir í frétt frá FB. Á myndinni má sjá Martein Njálsson, formann Félags ferðaþjónustubænda, Bjarna Ásgeirsson, framkvæmdastjóra Better Business á Íslandi og Berglindi Viktorsdóttur, gæðastjóra Ferðaþjónustu bænda, skrifa undir samstarfssamninginn.
Lesa meira