Fréttir

4% fjölgun gistinátta í nóvember

Hagstofan hefur birt tölur um fjölda gistinátta á hótelum í nóvember síðastliðnum. Samkvæmt þeim fjölgaði gistinóttum um 2.700 nætur miðað við sama tíma árið áður eða um tæp 4%. Gistinætur á hótelum í nóvember síðastliðnum voru 75.100 en voru 72.400 í sama mánuði árið 2006. Gistinóttum fjölgaði á höfuðborgarsvæðinu, Norðurlandi og Suðurlandi. Hlutfallslega varð fjölgun mest á Norðurlandi, þar  nam hún rúmum 9%, en gistinóttum fjölgaði þar úr 3.100 í 3.400 milli ára.  Á höfuðborgarsvæðinu var aukning gistinátta um 8%, þar fóru gistinætur úr 55.000 í 59.600. Aukning gistinátta á Suðurlandi nam 4% og fóru þær úr 5.000 í 5.300 milli ára. Á öðrum landsvæðum fækkaði gistinóttum á hótelum í nóvember milli ára. Samdrátturinn var mestur á Austurlandi en gistinóttum fækkaði úr 2.700 í 1.200, 58%.  Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða var fækkun gistinátta um 13%, þar fækkaði gistinóttum úr 6.500 í 5.600. Fjölgun gistinátta á hótelum í nóvember má rekja til Íslendinga, 15%, en gistinóttum útlendinga fækkað lítillega.
Lesa meira

Stærstu ferðasýningarnar mikilvægur vettvangur

Hin árlega ITB ferðasýning í Berlín verður samkvæmt venju haldin nú í mars. ITB, eða Internationale Tourismusbörse, er ein mikilvægasta ferðasýning á meginlandi Evrópu og ein sú stærsta í heimi. Island hefur verið með sýningarbás á ITB síðastliðin 30 ár og verður svo einnig í ár. Um það bil 15 fyrirtæki verða frá Íslandi. Að sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálastofu, eru stærstu ferðasýningarnar ennþá mjög mikilvægur vettvangur fyrir ferðaþjónustuna til að koma þjónustu sinni á framfæri og til að halda á lofti almennri kynningu á Íslandi. Búist er við um 180.000 gestum og um 10.000 sýnendum. Sýningin stendur yfir frá 5.-9. mars. Fyrstu þrjá dagana er opið fyrir fagaðila en almenning síðustu tvo. Nánari upplýsingar um ITB og eyðublað fyrir skráningu á sýninguna má nálgast undir liðnum Markaðsmál/Ferðasýningar. Skráningu lýkur 10. janúar nk. Myndin er tekin á ITB í fyrra.
Lesa meira

Í mörg horn að líta í nýju starfi

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri hefur haft í mörg horn að líta á fyrstu dögum í nýju starfi. Ólöf Ýrr hefur notað tímann til að kynnast starfsfólki og á föstudaginn var hún á skrifstofu Ferðamálastofu á Akureyri. Með í för var einnig Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála í iðnaðarráðuneytinu en eins og fram hefur komið fluttust ferðamálin á milli ráðuneyta nú um áramótin. Meðfylgjandi er Ólöf með starfsfólki skrifstofunnar á Akureyri. Frá vinstri: Valur Þór Hilmarsson, Halldór Arinbjarnarson, Ólöf Ýrr Atladóttir Elín Svava Ingvarsdóttir og Elías Bj. Gíslason. Á myndina vantar Öldu Þrastardóttur.
Lesa meira

Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar til eflingar ferðaþjónustu - Auglýst er eftir umsóknum

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita alls 160 milljónum króna til eflingar ferðaþjónustu á þeim svæðum sem verða fyrir aflasamdrætti vegna skerðingar á veiðiheimildum. Auglýst er eftir umsóknum um stuðning við verkefni til atvinnusköpunar í ferðaþjónustu á ofangreindum svæðum. Umsækjendur geta verið sveitarfélög, einstaklingar og fyrirtæki og er hámarksstyrkur til hvers verkefnis 8 milljónir kr. Verkefnin verði unnin á árunum 2008-2009 og verður styrkurinn greiddur í tvennu lagi, helmingur hvort ár. Seinni greiðslan er háð árangursmælingu í samræmi við ákvæði í umsókn, en hver umsækjandi gerir tillögu að árangursmælikvarða fyrir viðkomandi verkefni. Við afgreiðslu umsókna verður sérstaklega litið til langtímaáhrifa verkefna á sköpun nýrra starfa á svæðunum og hversu hratt störfin geta orðið til. Ekki er um að ræða styrki til menntunar eða rannsókna. Umsóknum skal skila á sérstökum umsóknareyðublöðum, sem hægt er að nálgast hér á vefnum (sjá terngil hér fyrir neðan). Umsóknum skal skila til Byggðastofnunar, Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki eða Ferðamálastofu, Lækjargötu 3, 101 Reykjavík fyrir 5. febrúar 2008. Allar nánari upplýsingar eru veittar í iðnaðarráðuneytinu. Umsóknareyðublað (word-skjal)Ath. að best er að byrja á að vista eyðublaðið á eigin tölvu (hægrasmella á tengilinn og  velja "Save target as...") Auglýsing til útprentunar (PDF)
Lesa meira

Metfjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll

Samkvæmt tölum frá Keflavíkurflugvelli fóru tæplega 2,2 milljónir farþega um völlinn á nýliðnu ári. Þetta er fjölgun um 8% á milli ára og fleiri farþegar en nokkru sinni fyrr. Alls fóru 2.182.232 farþegar um völlinn á árinu, samanborið við 2.019.470 farþega árið 2007, sem þá var metár. Nánari skiptingu má sjá í meðfylgjandi töflu .   Des. 07. YTD Des.06. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 52.045 937.315 45.951 864.996 13,26% 8,36% Hingað: 53.507 946.370 50.109 868.036 6,78% 9,02% Áfram: 1.633 39.511 2.801 24.482 -41,70% 61,39% Skipti. 14.005 259.036 16.487 261.956 -15,05% -1,11%   121.190 2.182.232 115.348 2.019.470 5,06% 8,06%
Lesa meira

Pompei norðursins hlaut frumkvöðlaverðlaun Icelandair

Í gær var tilkynnt að verkefnið Pompei norðursins í Vestmannaeyjum hafi hlotið frumkvöðlaverðlaun Icelandair fyrir árið 2007. Um er ræða uppgröft húsa og fleiri gosminja sem grófust í ösku í Heimaeyjargosinu 1973. Verkefnið fór af stað á árinu 2005 og fékk á því ári hæsta styrkinn frá Ferðamálastofu til umhverfismála í flokknum ?uppbygging nýrra svæða?, 5 milljónir króna. Viðurkenningunni frá Icelandair nú fylgja 500.000 krónur og tíu farseðlar á leiðum Icelandair, auk þess sem verkefnið verður markaðssett í kynningarefni félagsins á árinu. Mynd: Hér má sá í gaflinn á einu þeirra húsa sem verið er að grafa upp. Þetta er hús númer 18 við Suðurveg.
Lesa meira

Ólöf Ýrr Atladóttir ráðin ferðamálastjóri

Í frétt á vef iðnaðarráðuneytisins kemur fram að Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hefur ráðið Ólöfu Ýrr Atladóttur, framkvæmdastjóra vísindasiðanefndar, ferðamálastjóra til næstu fimm ára. Ólöf Ýrr hefur að baki fjölbreytt nám í stjórnsýslu- og þróunarmálum, náttúruvísindum og íslensku í Háskóla Íslands og University of East Anglia. Ólöf Ýrr hefur góða þekkingu á alþjóðamálum og hefur lagt sérstaka áherslu á breytingastjórnun. Hún hefur reynslu á sviði ferðaþjónustu úr landvörslu og fararstjórn, og var einnig forstöðumaður Kviku, fræðagarðs við Mývatn. Ráðuneytið telur hana best fallna til að vera leiðandi í mikilvægum breytingum á skipulagi, stjórnsýslu og fjármögnun ferðaþjónustunnar á Íslandi. Hún er einnig til þess fallin að vera málsvari opinberrar stefnumótunar og samstarfs opinberra aðila í þágu atvinnugreinarinnar, svo og nýjunga í markaðsstarfi á innlendum og erlendum vettvangi, segir í fréttinni. Þá kemur fram að staðfestir umsækjendur um starf ferðamálastjóra voru 50 talsins. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna voru 20 umsækjendur kallaðir til viðtals. Þrír þeirra þóttu öðrum fremur hafa þá menntun, starfsreynslu og faglegan bakgrunn, sem krafist var samkvæmt auglýsingu til að gegna starfi ferðamálastjóra. Ráðherra valdi Ólöfu Ýrr úr síðasttalda hópnum með tilliti til forystuhæfileika og markmiðs jafnréttislaga, segir í fréttinni. Mynd: Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.
Lesa meira

Ferðamálastofa til iðnaðarráðuneytisins

Nú um áramótin komu til framkvæmda ákvæði laga um breytingar á lögum um stjórnarráðið, sem alþingi samþykkti í sumar. Líkt og fram hefur komið voru málefni ferðaþjónustunnar meðal þeirra sem fluttust til innan stjórnkerfisins, frá samgönguráðuneytinu til iðnaðarráðuneytisins. Með þessu verður Ferðamálastofa ein af undirstofnunum iðnaðarráðuneytisins.
Lesa meira