Fara í efni

Ólöf Ýrr Atladóttir ráðin ferðamálastjóri

Ólöf Ýrr Atladóttir
Ólöf Ýrr Atladóttir

Í frétt á vef iðnaðarráðuneytisins kemur fram að Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hefur ráðið Ólöfu Ýrr Atladóttur, framkvæmdastjóra vísindasiðanefndar, ferðamálastjóra til næstu fimm ára.

Ólöf Ýrr hefur að baki fjölbreytt nám í stjórnsýslu- og þróunarmálum, náttúruvísindum og íslensku í Háskóla Íslands og University of East Anglia. Ólöf Ýrr hefur góða þekkingu á alþjóðamálum og hefur lagt sérstaka áherslu á breytingastjórnun. Hún hefur reynslu á sviði ferðaþjónustu úr landvörslu og fararstjórn, og var einnig forstöðumaður Kviku, fræðagarðs við Mývatn. Ráðuneytið telur hana best fallna til að vera leiðandi í mikilvægum breytingum á skipulagi, stjórnsýslu og fjármögnun ferðaþjónustunnar á Íslandi. Hún er einnig til þess fallin að vera málsvari opinberrar stefnumótunar og samstarfs opinberra aðila í þágu atvinnugreinarinnar, svo og nýjunga í markaðsstarfi á innlendum og erlendum vettvangi, segir í fréttinni.

Þá kemur fram að staðfestir umsækjendur um starf ferðamálastjóra voru 50 talsins. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna voru 20 umsækjendur kallaðir til viðtals. Þrír þeirra þóttu öðrum fremur hafa þá menntun, starfsreynslu og faglegan bakgrunn, sem krafist var samkvæmt auglýsingu til að gegna starfi ferðamálastjóra. Ráðherra valdi Ólöfu Ýrr úr síðasttalda hópnum með tilliti til forystuhæfileika og markmiðs jafnréttislaga, segir í fréttinni.

Mynd: Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.