Fara í efni

Verkefni um menningu og ferðaþjónustu styrkt af Rannsóknarsjóði HA

KristinSoley
KristinSoley

Verkefninu "Menning og ferðaþjónusta á Norðurlandi 1. áfangi-Eyjafjörður" var á dögunum úthlutað styrk að upphæð 900.000 krónur úr Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri. Það er Kristín Sóley Björnsdóttir, sérfræðingur hjá Ferðamálasetri Íslands, sem hefur umsjón með verkefninu og samstarfsaðili hennar er Guðrún Helgadóttir kennari og sérfræðingur á ferðamálabraut Hólaskóla .

Áður hafði verkefnið hlotið styrk úr Háskólasjóði KEA en ekki síður er mikilsverður stuðningur menntamálaráðuneytisins, segir í frétt á heimasíðu Ferðamálasetursins. Ráðuneytið hefur bent á mikilvægi slíkra rannsókna og kemur það m.a. fram í skýrslu fyrrverandi menntamálaráðherra, Tómasar Inga Olrich, Menningartengd ferðaþjónusta (2001) en hann var einnig áður formaður Ferðamálaráðs.

Verkefnið fór af stað fyrir nokkru en áherslan er lögð á að kanna tengsl menningar og ferðaþjónustu í Eyjafirði. Auk þess á að draga fram og greina menningarleg sérkenni svæðisins frá sjónarmiði gesta og gestgjafa. Jafnframt verða könnuð áhrif menningarferðaþjónustu á menningarstarf og framboð menningar á svæðinu.

Verkefnið er þríþætt; Í fyrsta lagi eru viðhorf og væntingar ferðamanna, innlendra sem erlendra, kannaðar með spurningakönnun sem dreift er í Eyjafirði. Í öðru lagi eru viðhorf og væntingar gestgjafanna, þ.e. rekstaraðila í menningarstarfi og í menningatengdri ferðaþjónustu kannaðar með ítarlegum viðtölum. Í þriðja lagi er gerð úttekt á ímynd Eyjafjarðar sem áfangastaðar eins og hún birtist í kynningarefni fyrir ferðafólk.

Reynt verður að svara spurningum á borð við:

  • Hvert er megin aðdráttarafl menningar og menningarlegra sérkenna á Eyjafjarðarsvæðinu?
  • Hverjar eru væntingar ferðafólks til menningartengdrar ferðaþjónustu á Eyjafjarðarsvæðinu?
  • Hver er upplifun ferðafólks af menningartengdri ferðaþjónustu á Eyjafjarðarsvæðinu?
  • Hvernig höfða menningarstofnanir og rekstaraðilar menningartengdrar ferðaþjónustu til innlendra og erlendra ferðamanna?