Fréttir

Landshlutamiðstöð opnuð í Reykjanesbæ

Síðastliðinn laugardag var formlega opnuð ný upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn í Reykjanesbæ. Um er að ræða eina af svokölluðum landhlutamiðstöðvum sem opnar eru allt árið og ríkið kemur að rekstrinum en Reykjanesbær annast rekstur miðstöðvarinnar í samvinnu við Ferðamálaráð Íslands. Upplýsingamiðstöð Reykjaness er til húsa í Bókasafni Reykjanesbæjar í Kjarna. Þjónustusvæði hennar er Reykjanesið og helstu verkefni eru að annast upplýsingastarf um ferðamál á svæðinu, hafa aðgengilegar allar upplýsingar um þjónustu, viðburði og svæðið sjálft, svara almennum fyrirspurnum um Reykjanesið eða vísa á rétta aðila og hafa á boðstólum bæklinga um svæðið og þá þjónustu sem þar er í boði, ásamt helstu upplýsingabæklingum fyrir landið. Þess má geta að ríkið kemur einnig að rekstri upplýsingamiðstöðvarinnar í Leifsstöð sem þjónar hlutverki landamæramiðstöðvar fyrir allt landið. Myndartexti: Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ og Magnús Oddsson, ferðamálastjóri, klipptu á borða til staðfestingar því að upplýsingamiðstöðin væri formelga opnuð. Þeim til aðstoðar voru Hulda Björk Þorkelsdóttir, forstöðumaður bókasafnsins og Stefán Bjarkason framkvæmdastjóri. Mynd af vef Reykjanesbæjar.  
Lesa meira

Snæfellsnes verði umhverfisvottaður áfangastaður ferðafólks

Á vef Samgönguráðuneytisins er greint frá því að ráðuneytið hefur samið við fimm sveitarfélög á Snæfellsnesi um að Snæfellsnes verði, fyrst svæða á Íslandi, gert að umhverfisvottuðum áfangastað ferðamanna. Gert er ráð fyrir að ferðamennska á svæðinu verði stunduð með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Stefnt er að vottun Green Globe 21, alþjóðlegra samtaka um sjálfbæra ferðaþjónustu, og munu samtökin koma að vottunarferlinu. Það eru Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Stykkishólmsbær, Eyja- og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit sem standa að verkefninu og mun undirbúningsvinna standa í 6 mánuði. Þegar undirbúningsvinnu lýkur er hægt að sækja um úttekt og fulla vottun hjá Green Globe 21. Vegagerðin og Ferðamálaráð munu veita faglega ráðgjöf vegna verkefnisins og veita m.a. aðgang að þolmarkarannsóknum á ferðamannastöðum. Green Globe mun útvega sérfræðinga sem hafa reynslu af undirbúningi, ráðgjöf og úttekt á stórum ferðaþjónustusvæðum. Þess má geta að Ferðaþjónusta bænda vinnur að því að afla fyrirtækjum innan samtakanna Green Globe 21 vottunar. Hólaskóli sér um úttekt á fyrirtækjunum með styrk frá samgönguráðuneytinu. Styrkur samgönguráðuneytisins byggir að nokkru leyti á samstarfi við iðnaðarráðuneytið um eflingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Styrkurinn nemur alls 8,5 milljónum króna. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra og bæjar- og sveitarstjórar sveitarfélaganna fimm undirrituðu samkomulagið í Stykkishólmi fimmtudaginn 8. maí sl.  
Lesa meira

Myndir frá vígslu við Hraunfossa og Barnafoss

Skoða myndir
Lesa meira

Svipmyndir frá Ferðatorgi 2003

Meðfylgjandi myndir voru teknar við opnun Ferðatorgs 2003 í Smáralind. Skoða myndir
Lesa meira

Nýr leiða- og þjónustukortavefur Vegagerðarinnar

Vegagerðin hefur opnað "leiða- og þjónustukortavef" sem gefur notendum færi á að fá upplýsingar um ferðaþjónustu, áningastaði, leiðarlýsingar, sögustaði og náttúrufar landsins. Vefurinn tengist landshluta-, svæðis-, sögu- og náttúruskiltum sem sett hafa verið upp víða um land ferðafólki til hægðarauka og fróðleiks. Markmiðið með vefnum er aukin þjónusta við almenning í upplýsingaleit og jafnframt einfalda viðhald upplýsinga á þjónustuskiltum Vegagerðarinnar við þjóðvegi landsins. Skoða vef.  
Lesa meira

Samkomulag um menningarvef fyrir ferðaþjónustu

Í liðinni viku var í Reykholti í Borgarfirði undirritaður samningur um fjárveitingu til Snorrastofu til smíði menningarvefs fyrir ferðaþjónustu. Umrætt verkefni er eitt sex verkefna sem hljóta styrk á þessu ári í tengslum við samkomulag sem Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra og Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, undirrituðu á dögunum um verkefni í ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Samkomulagið er til þriggja ára og gerir ráð fyrir 22 milljónum króna til sex verkefna á þessu ári en jafnframt munu ráðherrarnir beita sér fyrir því að til sameiginlegra ferðaþjónustuverkefna verði veitt 40 milljónum á ári næstu tvö ár. Á meðfylgjandi mynd handsala þeir Bergur Þorgeirsson frá Snorrastofu og Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, samkomulagið um menningarvefinn eftir undirritun þess í Reykholti.  
Lesa meira

Ársæll Harðarson nýr formaður stjórnar Ráðstefnuskrifstofu Íslands

Aðalfundur Ráðstefnuskrifstofu Íslands (RSÍ) var haldinn sl. miðvikudag og þar m.a. kjörin ný stjórn. Á fyrsta fundi hennar var Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands, kjörinn stjórnarformaður.Aðrir í stjórn eru Kári Kárason frá Flugleiðum, Svanhildur Konráðsdóttir frá Reykjavíkurborg, Kristinn Daníelsson frá Radisson SAS Hótel Saga og Lára Pétursdóttir frá Reykjavík Congress. Að baki Ráðstefnuskrifstofu Íslands standa Ferðamálaráð Íslands, Reykjavíkurborg, Flugleiðir og flest leiðandi hótel á sviði ráðstefnuhalds og hvataferða, auk annarra fyrirtækja sem eiga hagsmuna að gæta af ráðstefnuhaldi og móttöku hvataferða, s.s. afþreyingarfyrirtæki, veitingahús og fleiri. Hlutverk skrifstofunnar er að markaðssetja Ísland á alþjóðamarkaði sem ákjósanlegan áfangastað til ráðstefnuhalds og hvataferða. Auk þess ber skrifstofunni að vekja áhuga Íslendinga í alþjóðasamskiptum á að halda ráðstefnur og fundi fagfélaga sinna hér á landi. Frá því haustið 1997 hefur starfsemi Ráðstefnustefnuskrifstofu Íslands verið hýst hjá Ferðamálaráði Íslands sem jafnframt hefur séð um rekstur hennar samkvæmt samkomulagi við stjórn skrifstofunnar. Verkefnastjóri er Rósbjörg Jónsdóttir.  
Lesa meira