Fara í efni

Ársæll Harðarson nýr formaður stjórnar Ráðstefnuskrifstofu Íslands

Mbl.is
Mbl.is

Aðalfundur Ráðstefnuskrifstofu Íslands (RSÍ) var haldinn sl. miðvikudag og þar m.a. kjörin ný stjórn. Á fyrsta fundi hennar var Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands, kjörinn stjórnarformaður.
Aðrir í stjórn eru Kári Kárason frá Flugleiðum, Svanhildur Konráðsdóttir frá Reykjavíkurborg, Kristinn Daníelsson frá Radisson SAS Hótel Saga og Lára Pétursdóttir frá Reykjavík Congress.

Að baki Ráðstefnuskrifstofu Íslands standa Ferðamálaráð Íslands, Reykjavíkurborg, Flugleiðir og flest leiðandi hótel á sviði ráðstefnuhalds og hvataferða, auk annarra fyrirtækja sem eiga hagsmuna að gæta af ráðstefnuhaldi og móttöku hvataferða, s.s. afþreyingarfyrirtæki, veitingahús og fleiri. Hlutverk skrifstofunnar er að markaðssetja Ísland á alþjóðamarkaði sem ákjósanlegan áfangastað til ráðstefnuhalds og hvataferða. Auk þess ber skrifstofunni að vekja áhuga Íslendinga í alþjóðasamskiptum á að halda ráðstefnur og fundi fagfélaga sinna hér á landi.

Frá því haustið 1997 hefur starfsemi Ráðstefnustefnuskrifstofu Íslands verið hýst hjá Ferðamálaráði Íslands sem jafnframt hefur séð um rekstur hennar samkvæmt samkomulagi við stjórn skrifstofunnar. Verkefnastjóri er Rósbjörg Jónsdóttir.