Fara í efni

Aukin umferð um icetourist.is

Veruleg aukning hefur orðið í heimsóknum á landkynningarvef Ferðamálaráðs, eftir að nýr og endurbættur vefur var opnaður um miðjan apríl sl. Umferð um vefinn hefur verið stigvaxandi frá þessum tíma og náði hámarki í júlí. Þá sýna mælingar að ríflega 36.000 gestir hafi komið í heimsókn og skoðað um 200.000 síður á vefnum. Þetta er nærri þreföldun miðað við sömu mæliaðferð á síðasta ári. Ljóst er að heimsóknir í ágúst verða nokkru færri en í júlí sem kemur heim og saman við reynslu fyrri ára. Samkvæmt reynslunni hefur dregið úr heimsóknum í ágúst og september en upp úr því fer þeim aftur að fjölga.

Heimsóknir frá ríflega 70 þjóðlöndum
Bandaríkjamenn eru manna duglegastir að nota Internetið og það kemur berlega í ljós ef litið er til þess hvar þeir gestir sem heimsækja icetourist.is búa. Ef skoðaðar eru heimsóknir í júlí kemur í ljós að rótarlén um 20% gesta endar á .com og 17% hefur endinguna .net en stærstur hluti þessara tölvunotenda kemur frá Bandaríkjunum. Þar á eftir koma gestir frá Íslandi, þ.e. með endinguna .is í rótarléni sínu, og eru þeir um 7,5% gesta. Spánverjar og Frakkar eru með tæp 7% heimsókna hvor þjóð, Þjóðverjar og Bretar hvorir um sig með tæp 6%, Ítalir eru tæp 5% gesta og Danir 3,5% Samtals fékk vefurinn heimsóknir frá ríflega 70 þjóðlöndum í júlí.

Viðamikill gagnagrunnur
Landkynningarvefurinn icetourist.is er á 6 tungumálum og á honum er hægt að nálgast hagnýtar og fróðlegar upplýsingar um Ísland og íslenska ferðaþjónustu. Einn grundvallarþáttur vefsins er sá viðamikli gagnagrunnur um íslenska ferðaþjónustuaðila sem byggður hefur verið upp á vegum Ferðamálaráðs Íslands á undanförnum árum. Í grunninum eru nú upplýsingar um vel á annað þúsund ferðaþjónustuaðila um allt land, ásamt ýmsum hagnýtum upplýsingum fyrir ferðafólk. Má fullyrða að um er að ræða heildstæðasta gagnagrunninn um íslenska ferðaþjónustu sem til er í dag og er hann alltaf að stækka. Grunnurinn er öllum aðgengilegur á icetourist.is undir liðnum "Gulu síðurnar" og sýna mælingar að þetta er sá hluti vefsins sem hvað mest er skoðaður.