Fara í efni

Ferja á milli Íslands og N.-Ameríku?

Óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs 2004
Óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs 2004

Vestnorræna ráðið hefur ákveðið að láta kanna hagkvæmni ferjusiglinga á milli Íslands og Norður-Ameríku. Hugmyndin gengur út á að siglingarnar yrðu í anda ferjunnar Norrænu sem eins og kunnugt er heldur uppi áætlunarsiglingum yfir sumartímann á milli Seyðisfjarðar og meginlands Evrópu með viðkomu í Færeyjum og á Hjaltlandseyjum. Gert er ráð fyrir að ferja sem sigldi á milli Íslands og Norður-Ameríku hefði viðkomu á Suður-Grænlandi. Vestnorræna ráðið vonast eftir því að hagkvæmnismatið liggi fyrir innan fárra mánaða og þá verði hægt að kanna hvort einhver hafi áhuga á að hleypa hugmyndinni af stokkunum.

Styttist í nýja Norrænu
Í þessu sambandi hefur verið rifjað upp að í upphafi voru litlar vonir bundnar við rekstur Norrænu. Ferjan hefur hins vegar reynst vinsæll ferðamáti og nú styttist í að ný, þrefalt stærri ferja, verði tekin í gagnið. Nýja Norræna er smíðuð í Þýskalandi og verður sjósett innan örfárra daga, nánar tiltekið 24. ágúst nk. Unnið verður við frágang fram í febrúar á næsta ári og í mars er ráðgert að skipið fari í jómfrúarferð sína.

Myndatexti:  Hin nýja Norræna er glæsilegt skip eins og þessi tölvugerða mynd ber með sér en hún er fengin á heimasíðu Smyril-Line.