Fréttatilkynning frá Norðursiglingu

Í kjölfar atviks þess á sl. laugardagsmorgunn, þegar einn bátur fyrirtækisins rakst utan í bryggju, telja undirritaðir sér bæði ljúft og skylt að láta eftirfarandi koma fram:

36 farþegar voru um borð þegar báturinn rakst utan í bryggjuna á leið út úr höfninni. Skipstjóra annars báts fyrirtækisins sem varð vitni að atburðinum grunaði strax að ekki væri allt með felldu og kvöddu stjórnendur fyrirtækisins lögregluna á staðinn og í kjölfarið vöknuðu grunsemdir um ölvun. Engum farþeganna varð meint af og biðu þeir næstu brottfarar og fóru þá með öðrum báti fyrirtækisins í hvalaskoðun.

Skipstjórinn sem um ræðir hefur starfað í hlutastarfi og við afleysingar hjá fyrirtækinu frá upphafi og hefur verið farsæll í starfi þar til þetta gerðist. Honum hefur verið sagt upp störfum. Mál hans fer sína leið fyrir dómstólum. Varðandi þann ólánssama mann sem óhappinu olli skal þess getið að hann hefur stundað sjó frá unga aldri og býr yfir mikilli reynslu og óvenjulegum sjómannshæfileikum.

Aldrei áður í átta ára sögu fyrirtækisins hefur viðlíka mál komið upp en til þessa hafa bátar Norðursiglingar flutt vel á annað hundrað þúsund farþega í hátt í 4.000 sjóferðum. Varla þarf að taka það fram að stjórnendur Norðursiglingar ehf. líta þetta atvik mjög alvarlegum augum og munu í framhaldi af þessu enn auka kröfur til starfsmanna sinna.

Með von um áframhaldandi gott samstarf,

Heimir Harðarson
Hörður Sigurbjarnarson

 


Athugasemdir