Fara í efni

Ný nálgun við greiningu á dreifingu gistinátta

vetrarkonnun5
vetrarkonnun5

Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur kynnt áhugaverða nálgun við samanburð á þróun gistinátta í því skyni að átta sig betur á þróun árstíðasveiflunnar. Til þessa hefur einkum verið horft til einfaldra hlutfallsreikninga en Rannsóknamiðstöðin hefur nú reiknað út svokallaðan GINI-stuðul.

Þróaðri tölfræðileg greining
Algeng notkun GINI-stuðulsins er við greiningu á jöfnuði tekna í samfélaginu og hefur Stefán Ólafsson, prófessor gjarna nýtt stuðulinn í því samhengi, segir í minnisblaði Rannsóknamiðstöðvar ferðamála. Með sama hætti er hægt að skoða dreifingu gistinátta yfir mánuði ársins eftir mismunandi svæðum. Ef allar gistinætur ársins skila sér alveg jafnt í hverjum mánuði inn á svæðið tekur GINI stuðulinn gildið núll. Hann hækkar eftir því sem gistináttadreifingin er ójafnari. Við gildið 1 er hefur einn mánuður allar gistinæturnar.Við samanburðinn er skoðað árabilið 1998-2011 og landinu skipt eftir svæðum sem endurspegla kjördæmaskiptingu 1959.

Höfuðborgarsvæðið með besta dreifingu
Eins og við er að búast er dreifingin lang best á höfuðborgarsvæðinu þar sem stuðullinn var 0,32 árið 1998 en hafði lækkað í 0,26 í fyrra. Lægstur var hann á þessu árabili 0,24, árið 2008.

Mest árstíðasveifla á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum
Ef litið er til ársins í fyrra, þ.e. 2011, þá var stuðullinn hæstur á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum, 0,71, en hins vegar hefur hann lækkað meira á Norðurlandi vestra á umræddu tímabili.

Ef meðaltal áranna 1998-2011 er skoðað má sjá að stuðullinn er um og yfir 0.7 á öllum svæðum utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, og raunar sker höfuðborgarsvæðið sig nokkuð úr.

Þokast í rétta átt
Í meðfylgjandi PDF-skjali er samanburðurinn settur upp í tvær töflur og má sjá að jöfnun árstíðasveiflunnar þokast í rétta átt. „Vandi íslenskrar ferðaþjónustu er engu að síður enn um sinn hin mikla árstíðarsveifla gistinátta, sem sérstaklega einkennir svæði utan höfuðborgarsvæðis,“ segir í minnisblaði Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.

Þróun árstíðasveiflu í gistingu  - GINI-stuðull (PDF)


Mynd: Vetur í Reykjavík
©Ragnar Th. Sigurðsson, arctic-images.com