Uppsveitabrosið 2007 afhent

Uppsveitabrosið 2007 afhent
Uppsveitabrosið 2007

Uppsveitabrosið 2007 var afhent síðastliðinn miðvikudag. Það hlutu að þessu sinni þær Steingerður Hreinsdóttir og Sædís Íva Elíasdóttir, ráðgjafar hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands. Uppsveitabrosið fá þær m.a. fyrir framúrskarandi samvinnu.

Uppsveitabrosið er viðurkenning sem veitt er árlega einstaklingi eða fyrirtæki sem hafa lagt ferðaþjónustunni í uppsveitum Árnessýslu lið á jákvæðan uppbyggilegan hátt og stuðlað að samvinnu.  Markmiðið er að senda út jákvæð skilaboð og vekja athygli á því sem vel er gert.

Brosið er óáþreifanlegt en því fylgir ávallt hlutur sem handverks- eða listamaður í Uppsveitunum býr til hverju sinni. Í ár var það Gréta Gísladóttir, myndlistarkona  í Reykholti, sem annaðist það. Hún málaði myndir af sunnlenskum fjöllum, Jarlhettunum og Heklu, sem tákn um kraftinn sem býr í þessum athafnakonum.

Þetta er í fjórða sinn sem brosið er veitt en hugmyndin að því varð til í stefnumótunarvinnu í ferðamálum. Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu, afhenti þeim Steingerði og Sædísi Ívu Uppsveitabrosið.
Sædís Íva Elíasdóttir, Ásborg Arnþórsdóttir, Steingerður
Hreinsdóttir.


Athugasemdir