Fréttir

Færeyingar halda næstu Vestnorden kaupstefnu

Að ári liðnu, eða haustið 2007, er komið að Færeyingum að vera gestgjafar á Vestnorden. Kaupstefnan verður á sama tíma og jafnan áður, nánar tiltekið dagana 10-11 september 2007. Vestnorden í Færeyjum verður númer 22 í röðinni. Vestnorrænu þjóðirnar þrjár, Íslendingar, Grænlendingar og Færeyingar, hafa skipst á um að halda kaupstefnuna og Shetlandseyingar hafa einnig komið að samstarfinu á síðustu árum. Meðfylgjandi mynd var tekin á Vestnorden 2006 sem lýkur í Laugardalshöllinni í dag.  
Lesa meira

Vestnorden í fullum gangi

Vestnorden ferðakaupstefnan hófst í Reykjavík í morgun.  Um 550 manns taka þátt í þessari stærstu ferðakaupstefnu sem haldin er á Íslandi annað hvert ár og alls hefur Vetsnorden nú verið haldin 21 sinni. Vestnorden er haldin á vegum ferðamálayfirvalda í Færeyjum á Grænlandi og Íslandi auk þess sem Shetlandseyjar hafa komið að kaupstefnunni hin síðari ár. Að þessu sinni munu um 300 ferðaþjónustuaðilar frá um 160 fyrirtækjum í aðildarlöndunum kynna vöru sína og þjónustu fyrir kaupendum. Nú í ár eru kaupendur 200 talsins frá 143 fyrirtækjum og koma þeir frá 30 löndum. Þá koma til kaupstefnunnar blaðamenn og boðsgestir þannig að heildarfjöldi þátttakenda eru um 550 talsins. Vestnorden lýkur á morgun. Meðfylgjandi myndir voru teknar á kaupstefnunni í morgun.  Einar Gústavsson, Lisbeth Jensen og Ársæll Harðarson í bás Ferðamálastofu. Bás Hótel Búða. Fulltrúar Hótel Selfos á fundi með með kaupendum. Bás Hótel Cabin. Spurningin er hvort veran fremst á myndinni sé að bíða eftir fundi með fulltrúum kaupenda á Vestnorden. Steingrímur Birgisson frá Bílaleigu Akureyrar.
Lesa meira

Nýr vefur Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu

Á Vestnorden ferðakaupstefnunni í morgun opnaði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra nýjan vef Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu. Samtökin eru samvinnu- og samráðsvettvangur þeirra er stunda sögutengda ferðaþjónustu hérlendis. Auk þess er markmiðið að auka samvinnu í kynningarmálum, gæðamálum og stuðla að aukinni fagmennsku. Samtökin leggja í fyrstu áherslu á arfleifð íslenskra miðaldabókmennta, fyrstu aldir Íslandsbyggðar og miðaldamenningu, þ.e. tímabilið frá landnámi og fram um 1300. Stofnaðilar eru yfir 30 frá öllum landshlutum. Samtökin eru mynduð í kjölfar þátttöku sjö þeirra í Evrópuverkefninu Destination Viking - Sagalands (2003-2005). Slóðin á hinn nýja vef er www.sagatrail.is . Á meðfylgjandi mynd má sjá þegar Sturla Böðvarsson opnar vefinn.  
Lesa meira

Veruleg fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll það sem af er árinu

Í ágústmánuði síðastliðnum fóru 269.561 farþegi um Keflavíkurflugvöll og fjölgar þeim um 9,79% á milli ára. Þetta kemur fram í tölum frá flugvellinum sem birtar voru í dag. Veruleg fjölgun farþega hefur átt sér stað á þessu ári og nemur 10,3% frá áramótum. Farþegar fyrstu átta mánuði þessa árs voru rúmlega 1,4 milljónir samanborið við tæplega 1,3 milljónir frá janúar til ágúst 2005. Nánari skiptingu má sjá í meðfylgjandi töflu.     Ágúst.06. Frá áram. Ágúst.05. Frá áram. Mán. % breyting % br. frá ára Héðan: 120.244 610.223 105.451 530.397 14,03% 15,05% Hingað: 115.085 611.897 100.134 534.013 14,93% 14,58% Áfram: 2.426 20.966 551 9.022 340,29% 132,39% Skipti. 31.806 175.656 39.396 212.659 -19,27% -17,40%   269.561 1.418.742 245.532 1.286.091 9,79% 10,31%
Lesa meira

Óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna Ferðamálastofu fyrir árið 2006

Líkt og undanfarin ár munu yfirvöld ferðamála veita umhverfisverðlaun á Ferðamálaráðstefnunni sem haldin verður á Hótel Loftleiðum í Reykjavík þann 16 nóvember næstkomandi. Verðlaunin eru veitt þeim aðilum sem þykja hafa skarað framúr í umhverfismálum. Tilgangur verðlauna sem þessara er að hvetja ferðaþjónustuaðila til að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að huga að þeirri auðlind sem þeir nýta og hvetja þá til ábyrgðar á eigin athöfnum. Ferðaþjónustan byggir afkomu sína að miklu leyti á umhverfislegum gæðum og er það trú Ferðamálastofu að verðlaunin geti orðið hvatning til ferðaþjónustuaðila og viðskiptavina þeirra um að huga betur að umhverfinu og styrkja þannig framtíð greinarinnar. Hér með er óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna og er öllum heimilt að senda inn tilnefningar og þurfa þær að hafa borist umhverfisfulltrúa Ferðamálastofu fyrir 30. september nk. Tilnefningar má senda með tölvupósti á netfangið valur@icetourist.is eða til Ferðamálastofu, Strandgötu 29, 600 Akureyri. Við tilnefningu til umhverfisverðlauna er vert að hafa í huga að viðkomandi hafi skýr markmið í umhverfismálum. Markmið með umhverfisvænni ferðamennsku eru:Að vernda bæði menningar- og náttúrulegt umhverfi. Umhverfisvæn ferðamennska er samspil þriggja þátta; ferðamannsins, heimamanna og umhverfisins. Frekari upplýsingar veitir umhverfisfulltrúi í síma 464-9990 eða með tölvupósti valur@icetourist.is Nánar um Umhverfisverðlun Ferðamálastofu Mynd: Ingi Gunnar Jóhannsson.
Lesa meira

Gistinóttum á hótelum í júlí fjölgaði um 11%

Talningar Hagstofunnar sýna að gistinóttum á hótelum í júlí síðastliðnum fjölgaði um 11% á milli ára. Þær voru 175.900 í ár, samanborið við 158.000 í sama mánuði árið 2005. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum. Aukningin var hlutfallslega mest á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða þar sem gistinætur fóru úr 17.000 í 19.500 milli ára, 15% aukning. Á höfuðborgarsvæðinu nam fjölgunin rúmum 13% er gistinóttum fjölgaði úr 92.400 í 104.800. Á Norðurlandi fór gistináttafjöldinn úr 18.400 í 19.900 sem telst rúmlega 8% aukning milli ára. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um tæplega sexhundruð, úr 9.200 í 9.800, 6% aukning. Fjölgunin á Suðurlandi nam rúmum 4% og fóru gistinæturnar úr 21.000 í 21.900 milli ára. Fjölgun gistinátta á hótelum í júlí árið 2006 má bæði rekja til Íslendinga og útlendinga en gistinóttum útlendinga fjölgaði um 12% og Íslendinga um 5%. Gistirými á hótelum í júlímánuði jókst milli ára. Fjöldi herbergja fór úr 3.773 í 3.886, 3% aukning og fjöldi rúma úr 7.659 í 7.900, 3% aukning. Gistinóttum á hótelum janúar - júlí fjölgaði um 10%Á fyrstu sjö mánuðum ársins fjölgaði gistinóttum um 10% frá fyrra ári, en gistináttafjöldinn fór úr 600.600 í 661.500 milli ára.  Fjölgun varð á öllum landsvæðum.  Hlutfallslega varð aukningin mest á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem gistinætur fóru úr 53.700 í 66.000 milli ára, 23% aukning.  Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin 10%, Austurlandi 10%, Norðurlandi 8% og á Suðurlandi 4%.  Fjölgun gistinátta á þessu tímabili má bæði rekja til Íslendinga og útlendinga en þeim fjölgaði í báðum tilvikum um 10%.   Hagstofan vekur athygli á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Tölur fyrir Suðurnes, Vesturland og Vestfirði eru lagðar saman og birtar í einu lagi vegna þess hve gististaðir á Suðurnesjum og Vestfjörðum eru fáir. Þá tekur Hagstofan fram að tölur fyrir 2006 eru bráðabirgðatölur. Meira talnaefni má finna á vef Hagstofunnar    
Lesa meira

Ferðamálaráðstefnan haldin 16. nóvember

Ferðamálaráðstefnan 2006 verður haldin á Hótel Loftleiðum fimmtudaginn 16. nóvember næstkomandi. Meginþema ráðstefnunnar að þessu sinni eru gæðamál í ferðaþjónustunni. Gæði eru ein af meginstoðunum í Ferðamálaáætluninni 2006-2015 og forsenda frekari vaxtar er að íslensk ferðaþjónusta sé samkeppnishæf í gæðum. Nánari dagskrá verður kynnt síðar. Mynd: Frá Ferðamálaráðstefnunni 2005 á Radisson SAS Hótel Sögu.
Lesa meira

Stærri og fjölbreyttari kaupendahópur en áður á Vestnorden ferðakaupstefnunni

Sem kunnugt er hefst Vestnorden ferðakaupstefnan í Reykjavík í næstu viku og verður það í 21. sinn sem hún er haldin. Mikil áhersla er eðlilega lögð á að ná til sem flestra kaupenda enda mikilvægt fyrir seljendur ferðaþjónustu á þessu svæði að fá tækifæri til að kynna vöru sína og þjónustu fyrir sem flestum. Síðast þegar kaupstefnan var haldin hér árið 2004 komu hingað 145 kaupendur frá 100 fyrirtækjum og voru þeir frá 20 löndum. Nú í ár eru kaupendur 200 frá 143 fyrirtækjum og koma þeir frá 30 löndum. Því eru kaupendur nær 40% fleiri en fyrir tveimur árum og fyrirtækin sem senda hingað kaupendur eru 43% fleiri. Er ekki síst ánægjulegt að sjá fjölgun kaupenda frá nýjum markaðssvæðum þar sem kaupendur koma nú sem fyrr segir frá alls 30 löndum í stað 20 árið 2004. Heimasíða Vestnorden 2006 Mynd: Frá Vestnorden 2004.  
Lesa meira