Fréttir

Gistinætur á heilsárshótelum árið 2010

Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum á liðnu ári. Tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Gistinætur á hótelum árið 2010 voru 1.290.200, en það er fækkun um 3% frá árinu 2009 þegar þær voru 1.333.800. Gistinóttum fjölgaði á Suðurnesjum um 3% og á Vesturlandi og Vestfjörðum um 2%. Svipaður fjöldi gistinótta var á Suðurlandi milli ára en í öðrum landshlutum fækkaði gistinóttum lítillega. Á Austurlandi fækkaði gistinóttum um 5% frá fyrra ári, á Norðurlandi um 4% sem og á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir árið 2010 hefur gistinóttum Íslendinga sem og erlendra gesta fækkað um 3% miðað við árið 2009. Nánar á vef Hagstofunnar
Lesa meira

Íslendingar meira á faraldsfæti á nýliðnu ári en árið 2009

Svipaður fjöldi Íslendinga, eða níu af hverjum tíu, ferðaðist innanlands árið 2010 og árið 2009. Ríflega fjórðungsaukning var hins vegar í utanferðum milli ára, 56,3 % ferðuðust utan árið 2010 en árið á undan ferðuðust 44,3% utan. Þetta er meðal niðurstaðna úr nokkrum spurningum um ferðalög Íslendinga innanlands sem Ferðamálastofa fékk MMR til að leggja fyrir Íslendinga á aldrinum 18-80 ára í nýliðnum janúarmánuði. Hvenær var ferðast innanlands og hversu lengi var dvalið? Júlí er langvinsælasti mánuðurinn til ferðalaga innanlands en 72,9% landsmanna nýttu þann mánuð til ferðalaga. Fast á eftir fylgja ferðalög landsmanna í ágústmánuði (63,4%) og júní (54,6%). Á vor- og haustmánuðum, þ.e. í apríl, maí, september og október, ferðaðist um fimmtungur í hverjum mánuði en mun minna var ferðast aðra mánuði ársins. Meðaldvalarlengd á ferðalögum innanlands var 14,9 nætur árið 2010. Um er að ræða sambærilega dvalarlengd og árið 2009 en þá var hún 14,3 nætur. Einn af hverjum tíu gisti eina til þrjár nætur, tveir af hverjum fimm fjórar til tíu nætur og helmingurinn ellefu nætur eða lengur. Hvaða svæði og staðir eru heimsóttir?Norðurland og Suðurland voru þeir landshlutar sem flestir landsmenn heimsóttu á árinu 2010 eða þrír af hverjum fimm. Tveir af hverjum fimm heimsóttu Vesturland, fjórðungur Austurland, fimmtungur Höfuðborgarsvæðið eða Vestfirði, einn af hverjum tíu hálendið og tæplega einn af hverjum tíu Reykjanesið. Til að gera sér betur grein fyrir flæði ferðamanna innan hvers landshluta voru svarendur spurðir hvort þeir hefðu heimsótt nokkra valda staði og svæði. Af þeim 45 stöðum eða svæðum sem spurt var um heimsóttu flestir Akureyri, Þingvelli/Geysi eða Gullfoss, Akranes eða Borgarnes, Egilsstaði eða Hallormsstað, Skagafjörð, Mývatnssveit, Húsavík, Hvalfjörð, Stykkishólm og Vík í Mýrdal.  Skoða mynd í stærri útgáfu Íslendingar nýta sem áður ódýra tegund gistingar í miklum mæli Helmingur Íslendinga á ferðalagi gisti hjá vinum og ættingjum og sama hlutfall í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl. Tæplega tveir af hverjum fimm gistu í sumarhúsi eða íbúð í einkaeign og álíka margir í orlofshúsi eða íbúð í eigu félagasamtaka. Fimmtungur gisti hins vegar á hóteli, gistiheimili eða sambærilegri gistingu. Sambærilegar niðurstöður fengust um gistimáta landsmanna á ferðalögun innanlands árið 2009. Hvaða afþreyingu greiða landsmenn fyrir?Sund og jarðböð eru sú afþreying sem flestir landsmenn greiddu fyrir á ferðalögum árið 2010 eða tveir landsmenn af hverjum þremur. Margir (37,7%) borguðu sig inn á söfn eða sýningar, fyrir veiði (22,5%), leikhús eða tónleika (17,3%), golf (14,1%) eða bátsferð (11,2%). Um og innan við fimm prósent nýttu sér einhverja af eftirtalinni afþreyingu; skoðunarferð með leiðsögumanni, gönguferð eða fjallgöngu með leiðsögumanni, dekur og heilsurækt, hestaferð, hvalaskoðun, flúðasiglingu eða kajakferð, vélsleða- eða snjósleðaferð og hjólaferð. Um er að ræða svipaðar niðurstöður og fyrir þá afþreyingu sem greitt var fyrir árið 2009. Fjölbreytni í ferðaáformum Íslendinga 2011Langflestir Íslendingar hafa einhver áform um ferðalög á árinu 2011. Þannig segjast 56,8% ætla fara í sumarbústaðaferð innanlands, 49,4% að heimsækja vini eða ættingja, 33,8% í ferð innanlands með vinahópi eða klúbbfélögum, 31,7% borgarferð erlendis, 25,2% borgar- eða bæjarferð innanlands og 24,5% útivistarferð innanlands, þ.m.t. gönguferðir, jeppa- eða snjóleðaferðir. Um könnuninaKönnunin var unnin sem net- og símakönnun 11.-14. janúar. Spurningar fyrir aldurshópinn 18-67 ára voru lagðar fyrir í spurningavagni MMR og var svarað á Internetinu. Könnunin náði til 1400 manna panel úrtaks, kvótaskiptu til samræmis við lýðfræðilega samsetningu þjóðskrár og var svarhlutfall 63,6%. Aldurshópurinn 68-80 ára var spurður símleiðis, byggt var á 159 manna úrtaki og var svarhlutfall 57,9%. Framkvæmd og úrvinnsla voru í höndum MMR. Könnunin í heild - Ferðalög Íslendinga (PDF)            
Lesa meira

NATA auglýsir eftir styrkumsóknum

Auglýst hefur verið eftir styrkumsóknum frá NATA, samstarfssamningi Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála. Í samræmi við áherslubreytingu sem nýr samningur landanna kveður á um er nú hægt að sækja um styrki til tvenns konar verkefna. Annars vegar verkefna í ferðaþjónustu, eins og verið hefur, og hins vegar ferðastyrki, t.d. vegna skólahópa, íþróttahópa eða menningarverkefna. Styrkir til verkefna í ferðaþjónustu Allir sem starfa að eflingu ferðaþjónustu á milli landanna þriggja geta sótt um styrk að hámarki 100.000 danskar krónur og skulu umsóknir fela í sér samstarf milli einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja í tveimur af löndunum þremur hið minnsta. Ekki eru veittir styrkir vegna launakostnaðar, ráðgjafar, útgáfu efnis eða vefsíðugerðar. Sækja má um aðstoð á eftirfarandi sviðum ferðaþjónustu. Til markaðssetningar Til nýsköpunar- og – vöruþróunar.. Í kynnisferðir á milli ferðaþjónustufyrirtækja Til gæða- og umhverfismála innan ferðaþjónustunnar. Við mat á umsóknum verður tekið tillit til eftirfarandi þátta: Verkefnishugmyndar og gæða umsóknarinnar Nýnæmis verkefnisins Markaðstengingar Kostnaðaráætlunar, fjármögnunar Samfélagslegs gildis Styrkir vegna kynnis- og námsferða Eitt af markmiðum samstarfssamnings um ferðamál á milli Íslands, Grænlands og Færeyja er að auka samskipti og fjölga heimsóknum á milli landanna þriggja. Því er stefnt að því að ráðstafa 25% af samningnum í slíka styrki. Ferðaþjónustuverkefni eru þó enn sem fyrr þungamiðjan í samningnum. Hér með eru auglýstir ferðastyrkir til þeirra sem vinna að samstarfsverkefnum sem varða tvö af löndunum þremur hið minnsta. Styrkjunum er einvörðungu ætlað að standa straum af ferðakostnaði. Hámarksstyrkur á hvern einstakling er  1.000 danskar krónur og hvert verkefni fær að hámarki 20.000 danskar krónur í heildarstyrk.Samskipti skóla - árganga, bekkja - ganga að öðru jöfnu fyrir við mat á umsóknum. Sækja má um styrk til kynnis- og námsferða eftirtaldra: Skóla Íþróttahópa Tónlistarhópa Annars menningarsamstarfs Við mat á umsóknum verður tekið tillit til eftirfarandi atriða: Verkefnishugmynd og gæði umsóknar Nýnæmi verkefnisins Tilgangur ferðar Gagnkvæm tengsl Kostnaðaráætlun, fjármögnun Ávinningur af verkefninu Hvar er hægt að sækja um?Allar umsóknir skulu vera á dönsku eða ensku á þar til gerðum eyðublöðum (á word-formi) sem nálgast má hér að neðan. Best er að byrja á að vista eyðublöðin á eigin tölvu áður en útfylling hefst. Umsókn vegna verkefna í ferðaþjónustu (Word) Danska - Enska Umsókn vegna kynnis- og námsferða (Word)  Danska - Enska Umsóknir sendist tilÓskað er eftir að skannaðar umsóknir með undirskrift verði sendar í tölvupósti á netfangið: skraning@ferdamalastofa.is Einnig er hægt að senda útfyllt eyðublöð í pósti til: NATA c/o FerðamálastofaGeirsgata 9101 Reykjavík SkilafresturLokafrestur til að skila umsókn er 13. mars 2011. Svör við umsóknum verða send umsækjendum eigi síðar en 20. apríl næstkomandi.  
Lesa meira

Þrír landkynningarvefir eru í úrslitum í íslensku vefverðlaunanna

Þrír landkynningarvefir eru í úrslitum í íslensku vefverðlaunanna þetta árið. Verkefnin eru Inspired by Iceland, Iceland wants to be your friend og Iceland Naturally. Íslensku vefverðlaunin eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins, haldin með það að markmiði að efla hann, verðlauna bestu vefina og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða. Einnig verða veitt verðlaun fyrir Bestu hönnunina, Frumlegasta vefinn, Athyglisverðasta vefinn að mati félaga í SVEF og Besta vef Íslands 2010. Því eiga þeir vefir sem ekki komust í úrslit enn von á því að fá verðlaun. Íslensku vefverðlaunin 2010 verða afhent við hátíðlega athöfn í Tjarnarbíói þann 4. febrúar nk. Dómnefnd skipuð fagfólki í vefmálum hefur valið þá vefi sem komast í úrslit. Dagskráin hefst kl. 18 með fyrirlestri Simon Collison (www.colly.com) sem er af mörgum talinn einn færasti vefhönnuður dagsins í dag. Simon mun ræða um stöðu og framtíðarsýn vefiðnaðarins. Að því loknu mun hann afhenda verðlaunin. Aðgangur er ókeypis. Inspired by Iceland Iceland wants to be your friend Iceland Naturally Sjá nánar.
Lesa meira