Fréttir

Björgunarsveitir á hálendinu sumarið 2009

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar verða með gæslu á hálendinu í sumar. Markmið verkefnisins eru að; fækka slysum á hálendinu, veita ferðamönnum aðstoð og upplýsingar, stytta viðbragstíma björgunarsveita og vera til staðar ferðamönnum til öryggis. Hálendinu verður  skipt í fjögur svæði sem eru Kjölur, Sprengisandur, Fjallabak og norðan Vatnajökuls og raðast björgunarsveitirnar niður á svæðin. Hver sveit sem tekur þátt í verkefninu mannar eina viku með a.m.k. þremur sjálfboðaliðum.  Björgunarsveitarbílar verða á ferðinni á þessum svæðum og er hlutverk þeirra að vera ferðamönnum til aðstoðar, fræða þá, leiðbeina þeim við vöð og öðru því sem uppá gæti komið.  Verkefnið stendur yfir frá 25. júní til 10. ágúst. Björgunarsveitirnar verða í sambandi við 112 þannig að viðbragð við slysum eða þeim hjálparbeiðnum sem koma inn til Neyðarlínunnar verður mun styttra.  Á hverju sumri eru björgunarsveitir SL kallaðar út til leitar að erlendum ferðamönnum.  Með því að staðsetja björgunarsveitir á hálendinu verður hægt að bregðast fljótt við ef einhverra verður saknað.  Er þá hægt að hefja rannsóknarvinnuna fljótt, hefja fyrstu leit og koma á tengslum við síðasta þekkta stað.  Björgunarsveitirnar verða því í góðu sambandi við skála- og landverði á sínu svæði.  Þess vegna munu björgunarsveitir heimsækja alla skála- og landverði a.m.k. einu sinni í viku. Komi til útkalls munu björgunarsveitirnar vinna eftir lands og svæðisstjórnarskipulagi SL. Hóparnir munu verða í daglegu sambandi við bakvakt Landsstjórnar björgunarsveita sem getur einnig fylgst með hópunum í ferilvöktun.
Lesa meira

Svipaður gistináttafjöldi í maí

Gistinætur á hótelum í maí síðastliðnum voru 117.000 en voru 117.900 í sama mánuði árið 2008. Gistinóttum fjölgaði á Suðurlandi og á Norðurlandi en í öðrum landshlutum fækkaði þeim milli ára. Þetta kemur fram í gistináttatölum Hagstofunnar. Gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mest á Suðurlandi úr 12.400 í 13.900 eða um rúm 12%  miðað við maí 2008. Á Norðurlandi fjölgaði gistinóttum úr 9.000 í 9.800 eða um tæp 9% miðað við sama mánuð í fyrra. Hlutfallslega fækkaði gistinóttum mest á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða, úr 10.400 í 7.900 eða um 24%. Gistinóttum fækkaði einnig á Austurlandi úr 4.700 í 4.300 eða um rúm 9%. Á Höfuðborgarsvæðinu var fjöldi gistinátta svipaður milli ára eða rúm 81.000. Í þessum tölum munar mest um Íslendinga því að fjöldi gistinátta erlendra ríkisborgara er svipaður. Fjölgun gistinátta erlendra gesta fyrstu fimm mánuði ársinsFjöldi gistinátta á hótelum fyrstu fimm mánuði ársins voru 420.500 en voru 428.700 á sama tímabili árið 2008. Gistinóttum fjölgaði á Suðurlandi um 8% og á Norðurlandi um 4%. Á öllum öðrum landsvæðum fækkaði gistinóttum, mest á Austurlandi um 21%. Fyrstu fimm mánuði ársins fækkaði gistinóttum Íslendinga um 14% á meðan gistinóttum erlendra ríkisborgara fjölgaði um 3% miðað við sama tímabil árið 2008. Nánar á vef Hagstofunnar  
Lesa meira

Farþegar um Keflavíkurflugvöll í júní

Tæplega 194 þúsund farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í júnímánuði síðastliðnum, samkvæmt tölum frá flugvellinum. Þetta eru um 19,4% færri farþegar en í júní 2008. Frá áramótum hafa tæplega 705 þúsund farþegar farið um völlinn en til samanburðar þá voru þeir tæplega 930 þúsund á sama tímabili í fyrra. Búast má við að samdráttur í ferðum Íslendinga vegi hlutfallslega hærra í þessum tölum en nemur fækkun í heimsóknum erlendra gesta. Nú er verið að vinna úr tölum Ferðamálastofu fyrir júní en í þeim má sjá skiptingu eftir þjóðerni og þá kemur þetta betur í ljós.   Júní.09. YTD Júní.08. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 78.667 302.115 103.570 411.407 -24,04% -26,57% Hingað: 88.123 309.923 109.916 417.468 -19,83% -25,76% Áfram: 3.947 27.454 2.116 15.986 86,53% 71,74% Skipti. 23.191 65.213 24.933 84.908 -6,99% -23,20%   193.928 704.705 240.535 929.769 -19,38% -24,21%
Lesa meira

Starfsþjálfun í fjarnámi hjá Ferðaþjónustu bænda

Í upphafi sumars bauð Ferðaþjónusta bænda upp á starfsþjálfun í fjarnámi fyrir félaga sína og starfsfólk þeirra í samstarfi við Margréti Reynisdóttur hjá Gerum betur. Þátttakendur horfðu á sex nýjar kennslumyndir með Erni Árnasyni, leikara en í þeim er sýnt á myndrænan hátt hvernig hægt er gera góða þjónustu betri, jafnvel framúrskarandi og hvað ber að varast. Í framhaldi af hverju myndbandi unnu þátttakendur verkefni þar sem áherslan var lögð á að yfirfæri námsefnið á eigin starfsemi. Það sem gerði starfsþjálfunina hentuga var að þátttakendur gátu tekið þátt hvar svo sem þeir voru staddir, því eingöngu er þörf á tölvu og nettenginu. Þessi nálgun hentar því mjög vel fyrir félaga í Ferðaþjónustu bænda og í haust verður starfsþjálfunin kynnt betur fyrir félögunum og þátttakendur deila reynslu sinni. Þess má geta að Félag ferðaþjónustubænda, Landsmennt og Starfsafl komu að því að niðurgreiða námskeiðsgjöld fyrir aðildarfélaga sína.
Lesa meira