Fréttir

Færni í ferðaþjónustu í Grundarfirði

Námskeiðið Færni í ferðaþjónustu I, fyrsti hluti  var haldið í Grundarfirði í liðinni viku. Þetta er annað árið í röð sem boðið er upp á námskeiðið á Vesturlandi. Nemendur á námskeiðinu komu frá Grundarfirði, Stykkishólmi og  af sunnanverðu Snæfellsnesi. Markmiðið með námskeiðinu er að  auka gæðavitund þeirra sem starfa við þjónustustörf, efla vitund þeirra fyrir sínu nærumhverfi og kynna þeim mikilvægi ferðaþjónustu sem atvinnugreinar fyrir Vesturland. Námskeiðið tókst mjög vel og vonast er til að námskeiðið verði kennt á fleiri stöðum næsta vor. Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi stendur að námskeiðinu í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins,  en kennsluna önnuðust; Einar Gunnlaugsson, Guðrún Vala Elísdóttir, Margrét Björnsdóttir og Þórdís G. Arthursdóttir en hún var einnig verkefnastjóri.  Auk leiðbeinendanna kom Jónas Guðmundsson, markaðsfulltrúi hjá Grundarfjarðarbæ, einnig að skipulagningu námskeiðsins.Sögumiðstöðin í Grundarfirði var heimsótt í námskeiðslok og þar tók Ingi Hans á móti hópnum og kynnti starfsemina og sýnd var kynningarmynd af Vesturlandi. Hópmyndin var tekin í Sögumiðstöðinni. Ljósmyndari Gunnar Kristjánsson.
Lesa meira

Gistinætur á hótelum í apríl svipaðar á milli ára

Hagstofan hefur birt niðurstöður úr talningu á gistinóttum í apríl síðastliðnum. Þær sýna að gistnætur á hótelum voru svipað margar og í apríl 2008 á landinu öllu en þróuðust þó ólíkt á milli landshluta. Gistinætur á hótelum í apríl síðastliðnum voru 92.100 en voru 91.800 í sama mánuði árið 2008. Gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mest á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða, úr 6.100 í 6.800 eða um rúm 10%  miðað við apríl 2008. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum úr 65.000 í 66.800 eða um tæp 3% miðað við sama mánuð í fyrra. Hlutfallslega fækkaði gistinóttum mest á Suðurlandi, úr 11.700 í 10.100 eða um 14%. Gistinóttum fækkaði einnig á Austurlandi úr 2.600 í 2.400 eða um tæp 9%. Á Norðurlandi fækkaði gistinóttum um rúm 5%, voru 6.100 miðað við 6.400 í apríl 2008. Fjölgun gistinátta á hótelum í apríl má aðallega rekja til útlendinga en gistinóttum þeirra fjölgaði um tæp 13% á meðan og gistinóttum Íslendinga fækkaði um 24% miðað við apríl 2008. Fækkun um 2% fyrstu  fjóra mánuði ársinsGistinætur fyrstu fjóra mánuði ársins voru 304.100 en voru 310.800 á sama tímabili 2008.  Fjölgun varð á Suðurlandi um rúm 6% og á Norðurlandi um tæp 2%. Fækkun varð á öllum öðrum landsvæðum, mest á Austurlandi eða um rúm 28%. Fyrstu fjóra mánuði ársins fækkar gistinóttum Íslendinga um 17% á meðan gistinóttum útlendinga fjölgar um tæp 5% miðað við sama tímabil 2008. Hagstofan vekur athygli á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið.  Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. 
Lesa meira

Sumarhátíðir sveitarfélaga á einum stað

Vegna vísbendinga um aukinn áhuga Íslendinga á ferðalögum innanlands í sumar hefur rekstrar- og útgáfusvið Sambands íslenskra sveitarfélaga safnað saman upplýsingum um menningar-, úti- og sumarhátíðir sveitarfélaga. Eru upplýsingarnar nú komnar á einn stað á vef sambandsins. Sveitarfélög eru hvött til þess að athuga hvort allar hátíðr séu skráðar í viðburðardagatalið og senda ábendingar og leiðréttingar ef einhverjar eru til Ingibjargar Hinriksdóttur á netfangið ingibjorg.hinriksdottir@samband.is. www.samband.is/hatidir
Lesa meira