Fréttir

Fyrirlestur um jarðminjaferðamennsku - geotourism

Jarðminjaferðamennska er skilgreind sem ferðaþjónusta sem byggir á sérstæðri jarðfræði og nýtur stöðugt meiri vinsælda á heimsvísu. Einn virtasti sérfræðingur heims á þessu sviði, dr. Ross Dowling, heldur opinberan fyrirlestur á vegum Háskólafélags Suðurlands og Kötlu Jarðvangs í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins mánudaginn 29. ágúst kl. 15-17. Vikuna 21. – 28. ágúst verður dr. Ross Dowling aðalkennari á meistaranámskeiði í Háskóla Íslands um þetta efni með sérstakri áherslu á jarðvanga (Geoparks).  Skráning er hafin á fyrirlesturinn þann 29. ágúst á netfanginu hrafnkell@hfsu.is.  Verð er kr. 7.500 og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Nánari upplýsingar um fyrirlesturinn og dr. Ross Dowling er að finna á heimasíðu Kötlu jarðvangs www.katlageopark.is Hér er hægt að hlaða niður nánari upplýsingum um fyrirlesturinn og hér  má finna ferilskrá dr. Ross.
Lesa meira

Ferðamenn í júlí tæplega 100 þúsund

Samkvæmt talningum Ferðamálastofu fóru 97.757 erlendir ferðamenn frá landinu í júlí síðastliðnum eða um 14 þúsund fleiri en í sama mánuði á síðasta ári. Aukningin nemur 17,1% milli ára. Ferðamenn hafa aldrei verið fleiri í júlímánuði eða frá því Ferðamálastofa hóf talningar í Leifsstöð árið 2002. Þegar litið er til einstakra markaðssvæða má sjá verulega aukningu frá N-Ameríku eða um 59%. Bretum fjölgar um 13,5%, Norðurlandabúum um 11,5% og Mið- og S-Evrópubúum um 6,2%. Aukningin frá löndum sem eru flokkuð undir annað er ennfremur umtalsverð eða 18,4% milli ára. Bandaríkjamenn og Þjóðverjar langfjölmennastir Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í júlí frá Bandaríkjunum (13,9%) og Þýskalandi (12,8%). Ferðamenn frá Danmörku (8,2%), Frakklandi (8,1%), Bretlandi (7,2%), Noregi (5,7%) og Svíþjóð (5,0%) fylgdu þar á eftir en samanlagt voru framangreindar sjö þjóðir 61% ferðamanna í júlímánuði. Ferðamenn frá áramótum Það sem af er ári hafa 304.643 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 50 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 19,6% milli ára. Aukning hefur verið milli ára frá öllum mörkuðum en N-Ameríkanar hafa þó borið uppi aukningu ársins en þeim hefur fjölgað um 51,2% frá því í fyrra. Norðurlandabúum hefur fjölgað um 17,7%, Mið- og S-Evrópubúum um 15,2%, Bretum um 8,8% og  ferðamönnum frá öðrum löndum um 14%. Ferðir Íslendinga utan Brottförum Íslendinga í júlí hefur fjölgað um 14,7% frá því í fyrra, voru 32.629 í ár en 28.453 í fyrra. Frá áramótum hafa 195 þúsund Íslendingar farið utan, 21,3% fleiri en árinu áður þegar brottfarir mældust tæplega 161 þúsund. Hér má sjá nánari skiptingu úr talningum Ferðamálastofu eftir þjóðerni og markaðssvæðum.  
Lesa meira

Birgir Þorgilsson fyrrverandi ferðamálastjóri fallinn frá

Birgir Þorgilsson fyrrvernadi ferðamálastjóri er fallin frá 84 ára gamall. Starfsvettvangur Birgis voru ferðamálin, fyrst á vettvangi flugsins frá árinu 1948 og síðan fyrir hið opinbera. Birgir sat í Ferðamálaráði frá fyrsta fundi þess 7. júlí 1964 til 1981, þegar hann gerðist markaðsstjóri Ferðamálaráðs. Árið 1985 var hann skipaður ferðamálastjóri og gegndi því starfi til 1993. Frá 1993-1997 var Birgir formaður Ferðamálaráðs. Þá gegndi Birgir fjölda trúnaðarstarfa fyrir ferðaþjónustuna bæði hér heima og erlendis. Eftirlifandi eiginkona Birgis er Ragnheiður Gröndal. Ferðamálastofa vottar henni og öðrum aðstandendum samúð. Inn á vef Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) er að finna greiðagóða samantekt á störfum Birgis sem og viðtal við hann undir lið er kallast Saga ferðaþjónustunnar. Mynd: Birgir Þorgilsson í miðið með Össuri Skarphéðinssyni þáverandi ráðherra ferðamála og Ólöfu Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra á Vestnorrænu ferðakaupstefnunni árið 2008.  
Lesa meira