Fréttir

Íslendingar tíðari gestir á hótelum höfuðborgarsvæðisins

Gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu í ágústmánuði fækkaði milli áranna 2001 og 2002 samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Í ágúst síðastliðnum töldust gistinætur vera 63.354 en árið 2001 voru þær 64.981, en það er um 2,5 % samdráttur. Hagstofan vekur hins vegar athygli á að fjöldi íslenskra hótelgesta á höfuðborgarsvæðinu tvöfaldaðist milli ára og fór úr 1919 í 3852 en útlendingum fækkaði um tæp 6% á sama tíma. Gistinóttum fækkaði á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum um rúm 13% í þessum landshluta í ágúst. Þar voru gistinætur 9.082 í ágúst síðastliðnum en árið á undan voru þær 10.470. Gististöðum í þessum landshluta fækkaði um einn og rúmum fækkaði þar með um 49. Á Norðurlandi vestra og eystra fækkaði um tæp 3% milli ára. Þá voru gistinæturnar 14.946 árið 2001 en töldust 14.504 í ágúst síðastliðnum. Útlendingum fjölgaði þá um 5% milli ára en á sama tíma fækkaði gistinóttum vegna Íslendinga úr 2.692 í 1.638. Gistinóttum fjölgaði á Suðurlandi eins og gerst hefur í öllum mánuðum á þessu ári. Þær voru 11.176 í ágúst 2001 en töldust 16.367 í ágúst sl, en það er aukning um rúm 46%. Fjölgunin á bæði við um íslenska og erlenda hótelgesti. Á Suðurlandi fjölgaði gististöðum um 3 á milli ára og rúmum þar með um 286. Hagstofan segir að skil á gistiskýrslum ágústmánaðar hafi ekki verið nægjanleg fyrir Austurland og því sé ekki mögulegt að birta tölur fyrir þann landshluta að svo stöddu.  
Lesa meira

Skýrsla um þróun og framtíð einstakra landssvæða í ferðaþjónustu kynnt á ferðamálaráðstefnunni

Nú er rétt vika í árlega ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands, þá 32. í röðinni. Hún verður, eins og áður hefur komið fram, haldin á Hótel Stykkishólmi dagana 17. og 18. október nk. og er opin öllu áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu. Að venju er á ráðstefnunni tekið fyrir eitt meginviðfangsefni og að þessu sinni er það þróun og framtíð einstakra landssvæða í ferðaþjónustu á Íslandi. Til grundvallar verður lögð nýútkomin skýrsla sem unnin hefur verið um þetta efni og ber hún yfirskriftina "Auðlindin Ísland - ferðaþjónustusvæði". Upphaf þessa máls má rekja til þess að á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar í apríl í fyrra setti ráðherra ferðamála, Sturla Böðvarsson, fram þá hugmynd að nauðsynlegt væri að kortleggja auðlindina Ísland, meta svæðisbundið helstu vaxtarmöguleika í ferðaþjónustu og móta framtíðarsýn, sem hafa mætti hliðsjón af við uppbyggingu starfsgreinarinnar á komandi árum. Skrifstofu Ferðamálaráðs var síðan falin umsjá málsins. Skýrslunni ætlað að skapa umræðurHöfundar skýrslunnar eru þeir Valtýr Sigurbjarnarson, landfræðingur og Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs á Akureyri. Í skýrslunni eru markaðssvæði skilgreind með tilliti til ferðaþjónustu. Síðan er sérstaða hvers svæðis dregin fram og helstu möguleikar þeirra tíundaðir. Í þriðja lagi eru þeir þættir skilgreindir, sem líklegastir eru til að laða ferðamenn hingað til lands á komandi árum og loks eru gerðar tillögur um skilgreind verkefni til uppbyggingar í ferðaþjónustu. Að sögn Magnúsar Oddssonar, ferðamálastjóra, eru þær hugmyndir og tillögur, sem settar eru fram í skýrslunni, fyrst og fremst hugsaðar til þess að skapa umræður og leiða af sér frekari úrvinnslu. "Við höfum lagt áherslu á að vinna náið með ferðaþjónustuaðilum á hverjum stað og munum auðvitað haga framhaldinu í samræmi við þau viðbrögð sem við fáum við efni þessarar viðamiklu skýrslu. Staða og framtíð upplýsingamiðstöðvaOfangreind skýrsla er ekki eina umfjöllunarefni ferðamálaráðstefnunnar því einnig verður farið yfir stöðu og framtíð upplýsingamiðstöðva á Íslandi og hefur Pétur Rafnsson, verkefnisstjóri hjá Ferðamálaráði, framsögu í málinu. Undanfarin ár hefur á vegum Ferðamálaráðs verið unnið markvisst að uppbyggingu og samræmingu á starfsemi upplýsingamiðstöðva fyrir ferðamenn, með góðum árangri, og hefur Pétur haldið utan um þá vinnu. Bjartara framundan í ferðaþjónustunniMagnús segir að mikill uggur hafi verið í fólki innan ferðaþjónustunnar á sama tíma í fyrra, enda hryðjuverkin í Bandaríkjunum þá nýafstaðin. "Við óttuðumst það mjög að hryðjuverkin myndu koma hart niður á ferðaþjónustunni um allan heim. Það hefur hins vegar sýnt sig að með réttum og skjótum viðbrögðum hefur okkur Íslendingum tekist að verja stöðu okkar í ferðaþjónustunni og virðast menn sammála um að forsendur séu til frekari sóknar okkar á þessu sviði." Umhverfisverðlaunin 2002 afhentSamkvæmt venju verða umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs afhent í tengslum við ráðstefnuna. Þau hafa verið afhent árlega frá árinu 1995 og komu síðast í hlut Íshesta. "Umhverfisþátturinn spilar æ stærri þátt í starfi Ferðamálaráðs og umhverfisverðlaunin er hugsuð sem hvatning til þeirra sem stunda umhverfisvæna ferðamennsku," segir Magnús. Markmiðin með umhverfisvænni ferðamennsku eru að vernda bæði menningar- og náttúrulegt umhverfi og hún felur í sér samspil ferðamannsins, heimamanna og umhverfisins. Dagskrá ráðstefnunnar  
Lesa meira

Suðurnesjamenn þinga um umhverfisvæna ferðaþjónustu

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar standa fyrir ráðstefnu um umhverfisvæna ferðaþjónustu á Hótel Keflavík þann 16. október nk.Fjallað verður um umhverfisvæna ferðaþjónustu og hvert sé hlutverk sveitastjórna og fyrirtækja, hvað sé hægt að gera til þess að gera fyrirtæki umhverfisvænni og hver ávinningurinn af því kann að vera. Umhverfismerkin Svanurinn, Green Globe og Blái fáninn verða kynnt og fjallað verður um stöðu umhverfismála á Suðurnesjum. Sturla Böðvarsson, samgöngumálaráðherra, mun setja ráðstefnuna. Hún er öllum opinn en í frétt frá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum eru sveitarstjórnarmenn og aðilar í ferðaþjónustu sérstaklega hvattir til að mæta. Myndatexti:  Bláa Lónið er án efa einn þekktasti ferðamannastaður landsins en það hlaut einmitt umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs Íslands árið 1999.  
Lesa meira

Samstarf við 19 aðila um auglýsingar á íslenskri ferðaþjónustu

Seinnipart ágústmánaðar sl. auglýsti Ferðamálráð Íslands eftir samstarfsaðilum um auglýsingar á íslenskri ferðaþjónustu. Alls sóttust tuttugu og þrír aðilar eftir samstarfi við Ferðamálaráð. Níu af þessum aðilum sóttu um framlag upp á kr. 500 þúsund og var ákveðið var að ganga til samstarfs við sex. Fjórtán óskuðu eftir samstarfi upp á kr. 1 milljón og ákveðið var að ganga til samstarfs við þrettán. Ekki þótti forsvaranlegt að gera upp á milli verkefna þessara þrettán aðila og var því ákveðið að Ferðamálráð skyldi ganga til samstarfs við þá alla en þó á þeim forsendum að framlag Ferðamálaráðs yrði lækkað í kr. 538 þúsund. Ekki verður greint frá verkefnum einstakra aðila en öll koma þau til með að hvetja landsmenn til að ferðast innanlands á komandi mánuðum. Um er að ræða framhald af herferðinni "Ísland - sækjum það heim" og er gert ráð fyrir að útlit og efnistök auglýsinga taki mið af því sem gert hefur verið til þessa. Sem fyrr segir leggur Ferðamálaráð fram 10 milljónir króna og með þessu er verið að meira en tvöfalda þá upphæð. Því er um afar öfluga markaðssetningu að ræða og væntir Ferðamálaráð mikils af þessu samstarfi. Eftirfarandi er listi yfir þá aðila sem óskuðu eftir samstarfi uppá kr. 500 þúsund og ákveðið var að ganga til samstarfs við: Safnasvæðið á Akranesi Guðmundur Tyrfingsson ehf. Ísfjarðarbær og hagsmunaaðilar Köfunarskólinn ehf. Greifinn, Bautinn, Sjallinn og Höldur Hótel Reykholt og Hótel Stykkishólmur Eftirfarandi er listi yfir þá aðila sem óskuðu eftir samstarfi upp á kr. 1 milljón og ákveðið var að ganga til samstarfs við: AVIS Ísland Íslandsflug hf. Höfuðborgastofa Ferðamálafélag Húsavíkur og nágrennis Flugleiðahótel, Hótel Ísafjörður, Hótel Reynihlíð, Flugfélag Íslands og Hótel KEA Destination Iceland ehf. Fosshótel Húsavík, Hótel Reynihlíð, Hótelveitingar, Sel Hótel Mývatn og SBA-Norðurleið Íslenskar Ævintýraferðir Ferðaskrifstofa Akureyrar Bláa Lónið hf. Íshestar ehf. Flugleiðahótel hf. Hótel Borgarnes hf.  
Lesa meira