Fréttir

Hvatningarverðlaun Ferðamálaráðs Íslands 2001

Á ráðstefnu um heilsutengda ferðaþjónustu sem haldin var í Eldborg við Bláa lónið 6. des. s.l. voru hvatningarverðlaun Ferðamálaráðs afhent í fyrsta sinn. Þau komu í hlut Bláa lónsins. Það var Sturla Böðvarsson sem afhenti verðlaunin og í máli hans kom fram að eins og ávallt þegar verðlaun eru veitt eru margir kallaðir en fáir útvaldir en sagði jafnframt að það hefði verið samdóma álit allra í Ferðamálaráði að Bláa lónið stæði upp úr þegar kæmi að veitingu þessara verðlauna.. Sturla rakti sögu fyrirtækisins sem stofnað var árið 1992 og tók við rekstri baðstaðarins tveimur árum síðar. Nýi baðstaðurinn var opnaður formlega 15. júlí 1999 og frá þeim tíma hafa 800 þúsund manns sótt staðinn heim. Sturla sagði Bláa lónið gott dæmi um hvernig náttúran og auðlindir hennar nýtast okkur á margvíslegan hátt. Í lóninu er jarðsjór sem fyrst var notaður til að framleiða rafmagn og hita upp ferskvatn. Glöggir menn uppgötvuðu síðan sem kunnugt er jákvæð áhrif lónsins fyrir þá sem eru með psoriasis og framleiddar eru húðvörur sem byggjast á hinum einstöku hráefnum Bláa lónsins. En einkanlega er Bláa lónið þó heilsulind þar sem allir, jafnt ungir sem aldnir, njóta vellíðunar og slökunar á sál og líkama.  
Lesa meira

Umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs 2001

Umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs Íslands voru veitt í sjötta sinn á Ferðamálaráðstefnunni sem haldin var á Hvolsvelli 18. - 19. okt s.l. Verðlaunin að þessu sinni hlaut ferðaþjónustufyrirtækið Íshestar og veitti Einar Bollason framkvæmdastjóri fyrirtækisins þeim viðtöku úr hendi Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Fram kom í máli ráðherra að Íshestar væru í fararbroddi afþreyingarfyrirtækja í umhverfismálum og að framkvæmdastjóri Íshesta er jafnframt formaður umhverfisnefndar samtaka ferðaþjónustunnar. Íshestar bjóða upp á margvíslegar ferðir jafnt styttri sem skemmri og nú hefur sú nýjung verið tekin upp að boðið er upp á svokallaðar ECO ferðir sem ekki eru hestaferðir heldur ferðir þar sem fléttað er saman fræðslu um náttúru, menningu og sögu. Íshestar hafa sett sér umhverfisstefnu og frætt sitt starfsfólk um hvernig ná má markmiði þeirrar stefnu. Þá hefur fyrirtækið átt gott samstarf við Náttúruvernd ríkisins og Landgræðsluna og fylgt leiðbeiningum þessara stofnana í hvívetna við skipulagningu ferða. Fyrirtækið Íshestar er því vel að heiðrinum komið. Myndatexti:  Einar Bollason framkv.stj. Íshesta, Bryndís Einarsdóttir aðst.framkv.stj. og Sigrún Ingólfsdóttir fjármálastj.  
Lesa meira

Ferðamálaráðstefnan 2001 - stutt ágrip.

31. Ferðamálaráðstefnan var haldin á Hvolsvelli 18. og 19. okt s.l. og var þetta jafnframt sú fjölmennasta sem haldin hefur verið, en alls sóttu hana rúmlega 200 manns hvaðanæva af landinu.Það var Tómas Ingi Olrich, formaður Ferðamálaráðs, sem setti ráðstefnuna en svo tók sveitarstjórinn á Hvolsvelli við, Ágúst Ingi Ólafsson, og greindi frá uppbyggingu ferðaþjónustu í Rángárþingi. Samgönguráðherra hr. Sturla Böðvarsson ávarpaði síðan ráðstefnugesti. Eins og fleiri kom ráðherra m.a inn á voðaverkin sem framin voru í Bandaríkjunum í síðasta mánuði og afleiðingar þeirra fyrir íslenska ferðaþjónustu og greinarinnar í heild. Í máli hans kom skýrt fram mikilvægi samvinnu á milli ferðaþjónustunnar og stjórnvalda. Umræður og vangaveltur um ástand og horfur í íslenskri ferðaþjónustu í kjölfar atburðanna í Bandaríkjunum þann 11. sept s.l. var næsti liður á dagskránni. Undir þeim málaflokki tóku til máls Magnús Oddsson ferðamálastjóri, Steinn Logi Björnsson framkv. stj. markaðssviðs Flugleiða og Friðrik Már Baldursson frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Menn voru sammála um það að án öflugra flugsamgangna til og frá landinu myndi ferðaþjónusta á Íslandi varla vera svipur hjá sjón. Friðrik velti fyrir sér tölum og hagfræði og setti ferðaþjónustuna og afleiðingar árásarinnar á Bandaríkin í þjóðhagslegt samhengi og sagði m.a. að samkv. opinberum hagtölum væru gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar hátt í 20% af útflutningstekjum en aðeins tekjur af sjávarafurðum færu hærra en þetta eða um 42%. Eftir matarhlé og almennar umræður um þennan málaflokk tók Tómas Ingi Olrich til máls og kynnti niðurstöður skýrslu nefndar um menningartengda ferðaþjónustu. Eftir að Tómas hafði stiklað á stóru í kynningunni voru mætir menn og konur í pallborði (sjá dagskrá) og voru þau öll sammála um að þessi skýrsla væri góð og þörf og að þarna kæmu fram margar góðar og skemmtilegar hugmyndir sem mikilvægt væri að halda á lofti. Blómleg menning er hornsteinn hvers samfélags og getur hún verið mikið aðdráttarafl í ferðaþjónustu. Þetta á ferðaþjónustan að nýta sér. En eins og segir í skýrslu nefndarinnar " Íslensk ferðaþjónusta verði í framtíðinni byggð upp á tveimur meginstoðum, íslenskri náttúru og íslenskri menningu og samverkan þessara þátta. Megináhersla verði lögð á að kynna náttúru landsins, menningu þjóðarinnar og gagnkvæm áhrif menningar og náttúru." (bls.9) Eftir kaffhlé steig í ræðustól John Moreu, framkv. stj. MMNC, fyrrverandi framkv.stj. Ferðamálaráðs Amsterdam og fyrrverandi forseti FECTO (city tourism). Meginþema erindis hans var menningarferðaþjónusta. Að þessu loknu voru fastir ráðstefnuliðir eins og fyrirspurnir, almennar umræður og afgreiðsla ályktana. Tvær ályktanir voru bornar upp á ráðstefnunni og voru þær báðar samþykktar. Þessar ályktanir svo og erindi ræðumanna í heild sinni er að finna á þessum vef www. ferdamalarad.is undir tenglinum "fundir og ráðstefnur - ferðamálaráðstefnan 2001". Ráðstefnunni var slitið kl 18:00, síðan var fordykkur í boði ráðherra, kvöldverður og skemmtun. Þá um kvöldið voru Umhverfisverðlaun FMR afhent og var það ferðaþjónustufyrirtækið Íshestar sem hlaut þau í ár. Daginn eftir var farin kynnisferð í boði heimamanna. Var þetta sérlega skemmtileg og ánægjuleg ferð um Njáluslóð þar sem m.a. ferðaþjónustufyrirtæki voru heimsótt.Þetta var ánægjulega dvöl í Rángárþingi, heimamenn tóku vel á móti gestum, veðrið var eins og best verður á kosið og sveitirnar skörtuðu sínu fegursta. Hafi heimamenn bestu þakkir fyrir.  
Lesa meira

Handbók Ferðamálaráðs 2002

Ákveðið hefur verið að gefa handbók Ferðamálaráðs út einu sinni á ári í stað tvisvar áður. Nú er í gangi vinnsla á nýjum gagnagrunni varðandi handbókina og gular síður á icetourist.is. Útlit handbókar og uppsetning verður með svipuðu sniði nema að yfirkaflarnir verða nú 5 í stað 10 áður. Með þessu er verið að gera upplýsingarnar hnitmiðaðri og aðgengilegri. Handbókin mun eftirleiðis koma út í upphafi hvers árs og kemur því næst út í byrjun janúar 2002. Vakin er athygli á að nú þurfa aðilar að greiða fyrir að vera í handbókinni kr.15.000. Hinsvegar mun Ferðamálaráð safna öllum upplýsingum saman varðandi ferðaþjónustuaðila á landinu endurgjaldslaust og hafa þá inni á gagnagrunni á netinu (icetourist.is) og í prentaðri útgáfu handbókar sem fer á allar upplýsingamiðstöðvar á landinu. Sept. 2001  
Lesa meira

Ástand og horfur í ferðaþjónustu á Íslandi í kjölfar atburðanna 11. sept. s.l.

Staða: Starfsumhverfi í alþjóðlegri ferðaþjónustu hefur breyst mjög til hins verra eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11.september síðastliðinn.Flugfélög og önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu urðu fyrir miklu tekjutapi vegna stöðvunar flugs til Bandaríkjanna í fjóra daga, eftirspurn og bókanir hafa dregist saman eftir atburðina og á það í reynd við ferðalög um allan heim.Ýmsar tölur hafa verið nefndar um þennan samdrátt og þó ýmislegt sé þar óljóst, ber öllum saman um að hann skiptir tugum prósenta þessar fyrstu þrjár vikur.Flugleiðir hafa áætlað að tap þeirra þessa fjóra daga hafi verið um kr. 100 millj. Meiri óvissa er eðlilega um hver áhrifin verði til næstu mánaða og til lengri tíma.Ef litið er til fyrri hryðjuverka, styrjalda og stórslysa á síðustu 15 árum þá hefur það verið þannig að ferðamönnum frá Bandaríkjunum til Evrópu hefur fækkað um nær 20 % í heild næstu 12 mánuði á eftir, en 12- 18 mánuðum frá viðburðinum hefur umfangið verið komið í sama horf og fyrr.Þessi hryðjuverk nú eru auðvitað ekki sambærileg við neitt annað sem gerst hefur á síðustu áratugum og því erfitt að líta til reynslunnar.Ljóst er þó af viðbrögðum flugfélaga um allan heim að þau virðast gera ráð fyrir að þessi samdráttur verði meiri nú enn fyrr og langvinnari.Sama skoðun kom fram á fundi í framkvæmdastjórnar Ferðamálaráðs Evrópu fyrir nokkrum dögum.Þar kom fram sú skoðun að ekki væri óeðlilegt við þessar aðstæður að gera ráð fyrir allt að 20% samdrætti í ferðalögum almennt næstu 12 mánuði. Var sú skoðun m.a byggð á viðbrögðum flugfélaga við hryðjuverkunum.Þá er hafin framkvæmd kannana í nokkrum löndum í Evrópu til að reyna að meta þessi áhrif og er niðurstaðan úr þeirri fyrstu í Frakklandi tilbúin( Sjá meðfylgjandi)Benda má einnig á í þessu sambandi að samkvæmt upplýsingum frá Upplýsingamiðstöð Ferðamála voru 22,4% færri heimsóknir þar nú í september miðað við september í fyrra. Viðbrögð: Fyrstu viðbrögð hafa verið mikill samdráttur í öllu flugi sérstaklega innan Bandaríkjanna og milli Bandaríkjanna og annarra landa.Þá hafa fyrirtæki í ferðaþjónustu í Bandaríkjunum dregið verulega úr starfsemi og sagt upp miklum fjölda fólks.Minni fréttir eru enn um samdrátt og uppsagnir hjá öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum en flugfélögum utan Bandaríkjanna.Til þess hlýtur þó að koma þar sem minni flutningur ferðamanna með flugi kemur fljótlega niður á öðrum þáttum ferðaþjónustu. Hér á Íslandi hafa Flugleiðir fyrstir fyrirtækja í ferðaþjónustu gripið til aðgerða. Starfsfólki Flugleiða og dótturfyrirtækja verður fækkað sem nemur 273 stöðugildum en 183 starfsmönnum var sagt upp nú um mánaðarmótin .Af hálfu félagsins er ákveðið að draga úr sætaframboði í millilandaflugi félagsins um 18% í vetraráætlun frá fyrra ári og um 11% í sumaráætlun 2002 samanborið við áætlun 2001. Mestur verður samdrátturinn á flugi til og frá Bandaríkjunum eða 32%. Gert er ráð fyrir að flogið verði til allra sömu staða á næsta sumri og flogið var til nú í sumar.Ákveðið hefur verið að endurnýja ekki leigusamning vegna einnar Boeing 757-200 flugvélar félagsins og mun því farþegaþotum félagsins fækka úr 10 í9 í maí á næsta ári.Gera verður ráð fyrir að fleiri fyrirtæki á öllum sviðum ferðaþjónustu hér á landi muni verða að bregðast við þessu ástandi á næstu vikum til að reyna að draga úr tapi vegna þessa fyrirsjáanlega samdráttar. Áhrif: Nú þegar hafa verið kynntar hækkanir á fargjöldum og stóraukinn kostnaður vegna aukinna tryggingargjalda og aukins kostnaðar vegna öryggismála sem mun gera öll ferðalög dýrari og tímafrekari. Þá virðast allir gera ráð fyrir að hin sálfræðilegu áhrif af hryðjuverkunum muni ein og sér draga úr ferðalögum tímabundið a.m.k..Því hafa, eins og kom fram hér að framan ,flugfélög um allan heim ákveðið að draga úr framboði í samræmi við minnkandi eftirspurn sem orðin er og er fyrirsjáanleg.Þegar litið er til þess niðurskurðar, sem Flugleiðir hafa ákveðið svo og þess samdráttar,sem allir eru sammála um að verði ,verður ekki hjá því komist að gera ráð fyrir verulegum samdrætti í erlenda hluta ferðaþjónustunnar hér á landi.Ákveðið samhengi hefur verið á milli aukningar í umfangi erlenda hluta ferðaþjónustunnar hér á landi og aukins sætaframboðs Flugleiða á undanförnum árum. Erfitt er að sjá að annað gildi nú þegar dregið er úr framboði.Nú í vetur er ekki um annað flug að ræða en flug Flugleiða til og frá landinu hvað varðar erlenda ferðamenn, ef frá er talið flug Go flugfélagsins nú fram í október. Sé gengið út frá því að 18% samdráttur verði í erlenda hlutanum næstu sex mánuði gæti það jafngilt um 2100 milljónum minni gjaldeyristekjum en á sama tíma fyrir ári. Ef þessum samdrætti væri skipt niður á nokkra þætti þá yrði minnkun tekna í fluginu um 900 milljónir og í öðrum tekjum af erlendum ferðamönnum um 1200 milljónir. Þar myndi gistiþátturinn þá skerðast á bilinu 300- 400 milljónir frá fyrra ári og veitingaþátturinn um hliðstæða upphæð.Verslun á Íslandi gæti þannig dregist saman á næstu sex mánuðum um a.m.k 100 milljónir vegna samdráttar í komu erlendra gesta. Þær tölur sem hér hafa verið nefndar fyrir næstu sex mánuði eru byggðar á þeim forsendum að vöntunin miðað við fyrra ár verði 18% að meðaltali yfir allan tímann og að engin aukning verði annars vegar vegna bættrar sætanýtingar og hins vegar að enginn árangur náist í að ná hærra hlutfalli af farþegum Flugleiða til að heimsækja Ísland á kostnað ferða yfir Atlantshafið.En auðvitað hlýtur að verða lögð áhersla á að draga úr þessum mögulegu neikvæðu áhrifum og verður það rætt hér að neðan Með sömu forsendum yrði samdráttur í gjaldeyristekjum næsta sumar á sex mánaða tímabili rúmlega 2000 milljónir. En áhrifin eru ekki eingöngu á fyrirtæki í ferðaþjónustu. Hlutur stjórnvalda í gjaldeyristekjum af ferðaþjónustu hefur verið áætlaður á bilinu 20-25 % í formi beinna og óbeinna skatta og gjalda.Miðað við þær forsendur gæti beint tap þjóðarbúsins orðið um 400-500 milljónir í vetur og allt að 800- 1000 milljónum á næstu 12 mánuðum. M.O. 30.09 01   RESULTS OF THE FRENCH SURVEY Half of the people questioned say that they intend to travel at least once, for over 24 hours (within or outside France) in the next three months, i.e. before the end of 2001. The other half say that they have not made any plans to travel over this period. The first IPK/BVA barometer concerning the confidence of French travelers is focused on the following question: "Will the present international events, in your opinion, change your travel plans between now and the end of 2001?" Among the population of French residents who plan to travel at least once for over 24 hours between now and the end of 2001, a third (32.7%) say that the events of September 11 and their consequences will modify these trips (22% say yes, definitely and 10% yes, probably). Twice as many women as men anticipate having to make changes. People in age groups of over 35 are the ones who most expect to make changes in planned trips. A relatively large share of the people who expect that their travel plans will be disrupted belong to the non-working population: 36% of the non-working population feel this way as against only 30% of the working population. This attitude is the least widespread in the Paris area (19%), followed by regions in the west of France (23%). People who say that they are afraid they will have to make changes tend to live in large towns with over 100,000 inhabitants (except Paris). Paradoxically, in villages and small towns with less than 20,000 inhabitants, the proportion of people who think they will modify trips they have planned is lower than in rural zones and larger towns. Conversely, two thirds of people who had planned to travel between now and the end of the year say that the events of September 11 and their consequences will not affect these trips. 19% say probably not, and 48% definitely not. Amongst these people, men in younger age groups are in the majority. People living in the Paris area are less likely than people in other areas to feel that planned trips will be changed. In conclusion, the positions of French people who plan to travel over the next three months are relatively categorical, whether they definitely expect them to be modified (22%) or not (48%). This shows, then, that 70% of French people planning to take trips have a clear opinion about the consequences the attacks of September 11 will have on their travel plans. 30% are more hesitant about the impact these events will have on their travel plans: 10% think that they will probably be modified and 20% think they probably will not. These ratios indicate a strong sense of involvement, and concern about how the crisis will develop. Travel behavior will, without any doubt, be one of the main indicators of this evolution.  
Lesa meira

Rannsókn á þolmörkum ferðamannastaða á Íslandi.

Ferðamálaráð Íslands, Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands vinna nú að rannsókn á þolmörkum níu ferðamannastaða á Íslandi. Þolmörk eru sá fjöldi ferðamanna sem svæði þolir áður en grípa verður til takmarkanna eða aðgerða til að forða hnignun ferðamannastaðar. Ferðamannastaður hnignar þegar ferðamönnum þangað fækkar eða staðurinn fer að láta á sjá að einhverju leyti. Rannsóknin tekur til fjögurra þátta ferðamennsku, grunngerðar svæðis, framboðs og afkastagetu fyrirtækja, reynslu ferðamanna og upplifunar þeirra, viðhorfa heimamanna til ferðamannna og ferðamennsku og áhrifa ferðamanna á náttúrulegt umhverfi. Það eru Anna Dóra Sæþórsdóttir, Arnar Már Ólafsson, Guðrún Gísladóttir og Bergþóra Aradóttir sem skipta með sér verkum og leiða rannsóknina. Sumarið 2000 voru þrír staðir rannsakaðir, Skaftafell, Lónsöræfi og Landmannalaugar. Sumarið 2001 voru rannsakaðir tveir staðir; Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum og Mývatnssveit. Úrvinnsla frá þessum stöðum er mislangt á veg komin en skýrslu um Skaftafell er þó að vænta á næstu misserum. Sept. 2001  
Lesa meira

Framkvæmdir á fjölsóttum ferðamannastöðum 2001.

Ferðamálaráð Íslands hefur á þessu ári unnið að framkvæmdum víða um land. Stærstu framkvæmdir ársins eru við Gullfoss, Öskju og Hengifoss. Við Gullfoss er verið að bæta göngustíga á neðra svæðinu auk þess sem bílastæðið verður endurnýjað samhliða endurbyggingu vegarins á milli Gullfoss og Geysis. Við Hengifoss hafa göngustígar verið byggðir, skilti sett upp og bílastæði verður klárað nú í haust í tengslum við vegagerð á Fljótsdal.Lokið er uppsetningu vatnssalerna við Öskju í samvinnu við Ferðafélag Akureyrar auk þess sem Ferðamálaráð sá um uppsetningu þurrsalerna við Vikraborgir. Þá hefur Ferðamálaráð komið að ýmsum smærri og stærri verkefnum víða um land, ýmist að öllu leyti eða í samstarfi við aðra. Alls mun Ferðamálaráð Íslands veita um 46 milljónum til umhverfisverkefna á þessu ári 2001. Hjalti Finnsson, sept.2001  
Lesa meira

Fjölmiðlabikar Ferðamálaráðs

Í júní 1982 varð til sú hugmynd innan Ferðamálaráðs Íslands að veita árlega viðurkenningu fyrir umfjöllun um ferðamál í fjölmiðlum. Að baki hugmyndinni lá einnig sú von að slík viðurkenning hvetti til frekari umfjöllunar. Þegar litið er yfir lista fyrri bikarhafa sést að Ferðamálaráð hefur litið til fjölmiðlunar í víðasta skilningi þegar þeir hafa verið valdir. Hefur verið litið til prentmiðla ýmis konar, ljósvakamiðla,kvikmyndagerðarmanna, ljósmyndara og einnig til einstaklinga og fyrirtækja sem með starfsemi sinni hafa skapað jákvæða umfjöllun um Ísland sem ferðamannaland í íslenskum og erlendum fjölmiðlum. Eftirfarandi einstaklingar og fyrirtæki hafa hlotið fjölmiðlabikar Ferðamálaráðs: 1982 Sæmundur Guðvinsson 1983 Haraldur J. Hamar 1984 Sigurður Sigurðsson 1985 Magnús Magnússon 1987 Ríkisútvarpið v/ Stikluþátta Ómars Ragnarssonar 1988 Örlygur Hálfdánarson 1991 Hjálmar R. Bárðarson 1992 Sólarfilma 1993 Vilhjálmur Knudsen 1994 Ferðafélag Íslands 1995 Nesútgáfan 1996 Mál og Menning 1997 Eiðfaxi ehf 1998 Flugleiðir 2000 Gunnar Marel Eggertsson  
Lesa meira

Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu fyrstu 6 mánuði ársins 2001

Aukning um 3 milljarða fyrri helming ársins.Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans um gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu fyrri helming ársins 2001 er aukningin frá árinu 2000 rúmlega 3 milljarðar. Aukning tekna vegna eyðslu í landinu er um 1,8 milljarðar, en í fargjaldatekjum rúmlega 1,2 milljarðar.     2000 2001 Breyting Tekjur alls: 11.299 14.302 26,6% Fargjaldatekjur: 5.038 6.274 24,5% Eyðsla í landinu: 6.261 8.028 28,2% Ef tekið er tillit til gengisbreytinga á milli áranna má gera ráð fyrir að raunaukningin sé um 8% í gjaldeyristekjum af erlendum ferðamönnum á þessu tímabili miðað við sama tímabil í fyrra. Magnús Oddsson 08.09 01.  
Lesa meira

Nýting hótela minnkar í borginni en eykst úti á landi

Herbergjanýting á hótelum í Reykjavík hefur dregist saman síðan í fyrra meðan verð hefur hækkað andstætt því sem átt hefur sér stað á landsbyggðinni, að því er segir í samantekt Samtaka ferðaþjónustunnar Í júní sl. var herbergjanýting á hótelum í Reykjavík rúm 88% meðan hún var tæplega 91% í júní í fyrra en á sama tíma hækkar meðalverð herbergja úr 9.079 kr. í 9.609 kr. Þá kemur fram að meðalherbergjanýting utan höfuðborgarinnar hafi aukist úr tæpum 59% í tæp 62% en meðalverð þar hafi lækkað úr 7.776 kr. í 7.324 kr. Á vef Samtaka ferðaþjónustunnar kemur fram að við samanburðinn beri að hafa í huga að júní í fyrra hafi verið óvenju góður og að staðan úti á landi sé mismunandi eftir rekstrareiningum og ljóst að sumir hafi bætt sig meðan aðrir sjái fram á einhvern samdrátt. Þá segir ennfremur í fréttatilkynningunni að í kjölfar mikilla umsvifa í fyrra megi búast við samdrætti því mikið hafi verið um ráðstefnur og fundi í borginni á síðasta ári. Jafnframt segir að verðlækkunin á landsbyggðinni eigi sér rætur í afbókunum en við þeim hafi verið brugðist með tilboðum af ýmsu tagi. Tekið úr Morgunblaðinu 12. júlí 2001  
Lesa meira