Fara í efni

Nýting hótela minnkar í borginni en eykst úti á landi

Herbergjanýting á hótelum í Reykjavík hefur dregist saman síðan í fyrra meðan verð hefur hækkað andstætt því sem átt hefur sér stað á landsbyggðinni, að því er segir í samantekt Samtaka ferðaþjónustunnar

Í júní sl. var herbergjanýting á hótelum í Reykjavík rúm 88% meðan hún var tæplega 91% í júní í fyrra en á sama tíma hækkar meðalverð herbergja úr 9.079 kr. í 9.609 kr. Þá kemur fram að meðalherbergjanýting utan höfuðborgarinnar hafi aukist úr tæpum 59% í tæp 62% en meðalverð þar hafi lækkað úr 7.776 kr. í 7.324 kr.

Á vef Samtaka ferðaþjónustunnar kemur fram að við samanburðinn beri að hafa í huga að júní í fyrra hafi verið óvenju góður og að staðan úti á landi sé mismunandi eftir rekstrareiningum og ljóst að sumir hafi bætt sig meðan aðrir sjái fram á einhvern samdrátt.

Þá segir ennfremur í fréttatilkynningunni að í kjölfar mikilla umsvifa í fyrra megi búast við samdrætti því mikið hafi verið um ráðstefnur og fundi í borginni á síðasta ári. Jafnframt segir að verðlækkunin á landsbyggðinni eigi sér rætur í afbókunum en við þeim hafi verið brugðist með tilboðum af ýmsu tagi.

Tekið úr Morgunblaðinu 12. júlí 2001