Fréttir

Hvatningarverðlaun Ferðamálaráðs Íslands 2001

Á ráðstefnu um heilsutengda ferðaþjónustu sem haldin var í Eldborg við Bláa lónið 6. des. s.l. voru hvatningarverðlaun Ferðamálaráðs afhent í fyrsta sinn. Þau komu í hlut Bláa lónsins. Það var Sturla Böðvarsson sem afhenti verðlaunin og í máli hans kom fram að eins og ávallt þegar verðlaun eru veitt eru margir kallaðir en fáir útvaldir en sagði jafnframt að það hefði verið samdóma álit allra í Ferðamálaráði að Bláa lónið stæði upp úr þegar kæmi að veitingu þessara verðlauna.. Sturla rakti sögu fyrirtækisins sem stofnað var árið 1992 og tók við rekstri baðstaðarins tveimur árum síðar. Nýi baðstaðurinn var opnaður formlega 15. júlí 1999 og frá þeim tíma hafa 800 þúsund manns sótt staðinn heim. Sturla sagði Bláa lónið gott dæmi um hvernig náttúran og auðlindir hennar nýtast okkur á margvíslegan hátt. Í lóninu er jarðsjór sem fyrst var notaður til að framleiða rafmagn og hita upp ferskvatn. Glöggir menn uppgötvuðu síðan sem kunnugt er jákvæð áhrif lónsins fyrir þá sem eru með psoriasis og framleiddar eru húðvörur sem byggjast á hinum einstöku hráefnum Bláa lónsins. En einkanlega er Bláa lónið þó heilsulind þar sem allir, jafnt ungir sem aldnir, njóta vellíðunar og slökunar á sál og líkama.  
Lesa meira