Fara í efni

Ferðamálaráðstefnan 2001 - stutt ágrip.

31. Ferðamálaráðstefnan var haldin á Hvolsvelli 18. og 19. okt sl. og var þetta jafnframt sú fjölmennasta sem haldin hefur verið, en alls sóttu hana rúmlega 200 manns hvaðanæva af landinu.
Það var Tómas Ingi Olrich, formaður Ferðamálaráðs, sem setti ráðstefnuna en svo tók sveitarstjórinn á Hvolsvelli við, Ágúst Ingi Ólafsson, og greindi frá uppbyggingu ferðaþjónustu í Rángárþingi. Samgönguráðherra hr. Sturla Böðvarsson ávarpaði síðan ráðstefnugesti. Eins og fleiri kom ráðherra m.a inn á voðaverkin sem framin voru í Bandaríkjunum í síðasta mánuði og afleiðingar þeirra fyrir íslenska ferðaþjónustu og greinarinnar í heild. Í máli hans kom skýrt fram mikilvægi samvinnu á milli ferðaþjónustunnar og stjórnvalda.

Umræður og vangaveltur um ástand og horfur í íslenskri ferðaþjónustu í kjölfar atburðanna í Bandaríkjunum þann 11. sept sl. var næsti liður á dagskránni. Undir þeim málaflokki tóku til máls Magnús Oddsson ferðamálastjóri, Steinn Logi Björnsson framkv. stj. markaðssviðs Flugleiða og Friðrik Már Baldursson frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Menn voru sammála um það að án öflugra flugsamgangna til og frá landinu myndi ferðaþjónusta á Íslandi varla vera svipur hjá sjón. Friðrik velti fyrir sér tölum og hagfræði og setti ferðaþjónustuna og afleiðingar árásarinnar á Bandaríkin í þjóðhagslegt samhengi og sagði m.a. að samkv. opinberum hagtölum væru gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar hátt í 20% af útflutningstekjum en aðeins tekjur af sjávarafurðum færu hærra en þetta eða um 42%. Eftir matarhlé og almennar umræður um þennan málaflokk tók Tómas Ingi Olrich til máls og kynnti niðurstöður skýrslu nefndar um menningartengda ferðaþjónustu. Eftir að Tómas hafði stiklað á stóru í kynningunni voru mætir menn og konur í pallborði (sjá dagskrá) og voru þau öll sammála um að þessi skýrsla væri góð og þörf og að þarna kæmu fram margar góðar og skemmtilegar hugmyndir sem mikilvægt væri að halda á lofti. Blómleg menning er hornsteinn hvers samfélags og getur hún verið mikið aðdráttarafl í ferðaþjónustu. Þetta á ferðaþjónustan að nýta sér. En eins og segir í skýrslu nefndarinnar " Íslensk ferðaþjónusta verði í framtíðinni byggð upp á tveimur meginstoðum, íslenskri náttúru og íslenskri menningu og samverkan þessara þátta. Megináhersla verði lögð á að kynna náttúru landsins, menningu þjóðarinnar og gagnkvæm áhrif menningar og náttúru." (bls.9)

Eftir kaffhlé steig í ræðustól John Moreu, framkv. stj. MMNC, fyrrverandi framkv.stj. Ferðamálaráðs Amsterdam og fyrrverandi forseti FECTO (city tourism). Meginþema erindis hans var menningarferðaþjónusta. Að þessu loknu voru fastir ráðstefnuliðir eins og fyrirspurnir, almennar umræður og afgreiðsla ályktana. Tvær ályktanir voru bornar upp á ráðstefnunni og voru þær báðar samþykktar. Þessar ályktanir svo og erindi ræðumanna í heild sinni er að finna á þessum vef www. ferdamalarad.is undir tenglinum "fundir og ráðstefnur - ferðamálaráðstefnan 2001".

Ráðstefnunni var slitið kl 18:00, síðan var fordykkur í boði ráðherra, kvöldverður og skemmtun. Þá um kvöldið voru Umhverfisverðlaun FMR afhent og var það ferðaþjónustufyrirtækið Íshestar sem hlaut þau í ár.

Daginn eftir var farin kynnisferð í boði heimamanna. Var þetta sérlega skemmtileg og ánægjuleg ferð um Njáluslóð þar sem m.a. ferðaþjónustufyrirtæki voru heimsótt.
Þetta var ánægjulega dvöl í Rángárþingi, heimamenn tóku vel á móti gestum, veðrið var eins og best verður á kosið og sveitirnar skörtuðu sínu fegursta. Hafi heimamenn bestu þakkir fyrir.