Fréttir

Ráðning markaðsstjóra

Gengið hefur verið frá ráðningu nýs markaðsstjóra. Ráðinn hefur verið Tómas Þór Tómasson. Tómas er fæddur 1959. Hann lauk námi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1984, B Sc. námi í Tourism & Travel Administration frá University of New Haven USA 1986 og MBA frá University of Warwick í Englandi 1999 með áherslu á stefnumótun, markaðsfræði og fjármál. Tómas var sölustjóri hópferðadeildar Samvinnuferða-Landsýnar 1987-1989 og sölu- og markaðsstjóri utanlandsdeildar Úrvals-Útsýnar 1991-1994. Hann var markaðsstjóri Skífunnar 1994-1998. Þá hefur Tómas unnið að ýmsum sérverkefnum undanfarin ár m.a. Stefnumótun og markaðsráðgjöf ("branding") fyrir Íslensku Auglýsingastofuna hf, stefnumótun og viðskiptaáætlun fyrir Smartkort ehf og könnun á afstöðu stjórnenda ferðaþjónustufyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu til stöðu greinarinnar og framtíðarfjárfesta fyrir Aflavaka hf. Tómas er kvæntur Helgu Jónasdóttur kennara og eiga þau fjögur börn. Tómas hóf störf hjá Ferðamálaráði þann 17. nóvember sl.. Umsækjendur um starfið voru 35.  
Lesa meira

Ísland tekur við formennsku í Ferðamálaráði Norðurlanda.

Á aðalfundi Ferðamálaráðs Norðurlanda, sem haldinn var í Kaupmannahöfn 12. október sl. tók Ísland við formennsku í ráðinu í fyrsta sinn. Aðild að Ferðamálaráði Norðurlanda eiga Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð og var til þess stofnað fyrir rúmlega 30 árum.Ferðamálaráð Norðurlanda sér um ýmis sameiginleg markaðs- og kynningarmál landanna fimm þar sem slíkt er talið henta og stendur að sameiginlegum ferðasýningum.Þá hefur ráðið í vaxandi mæli unnið að úrvinnslu tölfræði um ferðamál á Norðurlöndunum og gerð kannana á okkar sameiginlegu markaðssvæðum auk ýmissa annarra verkefna, sem snerta sameiginleg hagsmunamál ferðaþjónustu á Norðurlöndum. Þá á og rekur Ferðamálaráð Norðurlanda hlutafélagið Scandinavian Tourism Inc. í Bandaríkjunum.Það fyrirtæki sér um öll sameiginleg markaðs- og upplýsingamála landanna fimm í N- Ameríku. Formaður Ferðamálaráðs Íslands Tómas Ingi Olrich gegnir þannig formennsku í Ferðamálaráði Norðurlanda næstu tvö árin og Magnús Oddsson ferðamálastjóri verður sama tíma framkvæmdastjóri ráðsins.Þá verður forstöðumaður Ferðamálaráðs Íslands í Bandaríkjunum, Einar Gústafsson framkvæmdastjóri hlutafélagsins Scandinavian Tourism Inc.. M.O. 17. okt. 2000  
Lesa meira

Hvalaskoðun á Íslandi árið 2000 - okt 2000

Málefni: Hvalaskoðun á Íslandi árið 2000.Hvalamiðstöðin á Húsavík sem undanfarin 5 ár hefur gefið út skýrslu um umfang og þróun hvalaskoðunarferða hér við land hefur nú tekið saman upplýsingar um fjölda ferðamanna í hvalaskoðunarferðum á þessu ári. Gerður er fyrirvari með endanlega niðurstöðu á heildarfjölda ferðamanna vegna þess að enn er boðið upp á hvalaskoðunarferðir frá Reykjanesi. Endanlegar tölur liggja því enn ekki fyrir hjá öllum fyrirtækjunum. Ennfremur vantar upplýsingar frá nýjum fyrirtækjum sem boðið hafa upp á hvalaskoðunarferðir í sumar. Þrátt fyrir þessa fyrirvara liggur fyrir að veruleg auking hefur orðið á fjölda farþega í hvalaskoðunarferðum hér við land á þessu ári, eða um 25%. Þessi aukning fer fram úr björtustu vonum þeirra aðila sem staðið hafa að uppbyggingu á þessari nýju grein ferðaþjónustunnar. Sjá eftirfarandi töflu sem sýnir þróun hvalaskoðunarferða frá árinu 1995 til ársins 2000. Eins og sjá má á hafa vinsældir hvalaskoðunarferða aukist gríðarlega á þeim 6 árum sem liðin eru síðan þessi nýja grein afþreyingarferðamennsku komst á skrið hérlendis. Ekki er líklegt að svona mikill fjöldi einstaklinga fari í hvalaskoðunarferðir hér við land yfir sumartímann, heldur má ætla að fjölmargir ferðamenn fari á fleiri en einn eða tvo staði á landinu til að skoða hvali ásamt því að einhver fjöldi ferðamanna fer oftar en einu sinni út á sjó. Þetta bendir til að töluverður fjöldi ferðamanna komi til landsins, m.a. í þeim tilgangi að fara í hvalaskoðun. Ætla má að beinar tekjur "ferðaþjónustunnar" af hvalaskoðunarferðamennsku hafi numið allt að 660 milljónum á þessu ári. Þessar tekjur skiptast misjafnlega á milli fyrirtækja, s.s. flugfélaga, rútufyrirtækja, bílaleiga, hótela, gistiheimila, veitingahúsa, hvalaskoðunarfyrirtækja og annarra fyrirtækja sem með einum eða öðrum hætti koma beint að þjónustu við þessa ferðamenn. Tekjurnar hefðu orðið enn meiri ef ekki hefði komið til rútuverkfall í upphafi vertíðarinnar. Þegar horft er til margfeldisáhrifa beinna tekna af ferðaþjónustunni má gera ráð fyrir að heildarvelta þjóðarbúsins í tengslum við hvalaskoðunarferðamennsku hafi numið rúmum milljarði á árinu 2000, sjá eftirfarandi útreikninga. Skilgreining á skiptingu ferðamanna Skipting á fjöldaferðamanna Áætluð útgjöldá mann Samtalskrónur Hópur 1:  Íslendingar 6.000 5.000 30.000.000 Hópur 2:  Hvalaskoðun ástæða Íslandsferðar 4.000 120.000 480.000.000 Hópur 3:  Hvalaskoðun hluti af ferðaáætlun 4.000 15.000 60.000.000 Hópur 4:  Hvalaskoðun ákveðin á staðnum 30.000 3.000 90.000.000         Áætlaðar beinar tekjur af ferðamönnum   Alls krónur: 66.000.000         Margfeldisstuðull fyrir beina veltu 1,63*   Alls krónur: 415.800.000         Áætluð heildarvelta vegna hvalaskoðunarferðamennsku   Samtals krónur: 1.075.800.000 Til að meta heildaráhrif hvalaskoðunarferða á efnahagslífið verður að taka með í reikninginn margfeldisáhrif beinnar veltu greinarinnar. *Engar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum einstakra þátta innan ferðaþjónustunnar á efnahagslífið en samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun eru t.d. margföldunaráhrif gjaldeyristekna 1,5. Margfeldisáhrif ferðaþjónustunnar almennt séð, og þar með talið hvalaskoðunar kunna að vera eitthvað hærri að mati starfsmanns stofnunarinnar. (*samkvæmt upplýsingum 1998) Eftir samtöl við ferðamálafræðinga og fleiri aðila hef ég ákveðið að gera ráð fyrir margföldunarstuðlinum 1.63 í útreikningum þessum. Ég árétta að mikilvægt er að gerð verði óháð úttekt á efnahagslegum áhrifum hvalaskoðunarferða til að fá fram örugga niðurstöðu. Ég hef ítrekað lagt til að Þjóðhagsstofnun eða Hagfræðistofnun Háskóla Íslands verði falið að gera úttekt á þessum þætti ferðaþjónustunnar en ekki fengið nein viðbrögð. Ef frekari upplýsinga er þörf þá vinsamlega hafið samband við undirritaðan í síma 891-9820 eða með tölvupósti á: icewhale@centrum.is Húsavík 10. október 2000.Ásbjörn Björgvinssonforstöðumaður Hvalamiðstöðvarinnar á Húsavík  
Lesa meira

Bílinn allan heim - enga varahluti á hálendinu

Bílinn allan heim - enga varahluti á hálendinu, var yfirskrift á hreinsunarátaki sem Ferðamálaráð gekkst fyrir í lok ágúst og byrjun september. Átakið hófst við Húsafell og því lauk þremur vikum síðar við Mývatn en þá höfðu verið hreinsaðir um 1400 kílómetrar eða allir helstu hálendisvegir landsins. HugmyndinÁ hverju hausti fara fulltrúar Ferðamálaráðs vettvangsferð til þess að skoða þá staði þar sem FMR hefur staðið fyrir framkvæmdum á fjölsóttum ferðamannastöðum. Hjalti Finnsson umhverfisfulltrúi og ég vorum að keyra yfir Kjöl og þótti okkur fullmikið af varahlutum á víð og dreif á leiðinni. Við tókum eins mikið með og við gátum en urðum því miður að skilja mikið eftir, sagði Elías Bj. Gíslason hjá Ferðamálaráði um tildrög þess að hugmyndin að hreinsunarátaki á hálendinu kviknaði. Í vetur og vor var síðan unnið að því að fá samstarfsaðila en verkefni sem þetta er töluvert kostnaðarsamt. Þeir aðilar sem tóku þátt í verkefninu með FMR voru Europcar, eða Bílaleiga Akureyrar, sem skaffaði kerru, Hekla hf. útvegaði Galloper jeppa, Olís sá um olíur og rekstaravörur á bílnum,VÍS eftirlét tryggingar og auglýsingastofan Stíll sá um að merkja kerru og bíl. Ferðamálaráð þakkar fyrrnefndum aðilum fyrir þeirra þátt í verkefninu. FramkvæmdEins og áður sagði var farið yfir um 1400 kílómetra vegalengd eða nánast alla vegi sem Vegagerðin merkir sem F-vegi. Landinu var skipt upp í þrjú svæði, þ.e. vestur-, mið- og austursvæði. Þrír starfsmenn Ferðamálaráðs skiptu með sér að aka bílnum og stjórna verkinu. Þá voru ráðnir tveir vaskir sveinar, þeir Styrmir Hauksson og Þorgeir Finnsson sem höfðu það verk með höndum að tína það sem fannst upp á kerruna. ÁrangurÞað voru ótrúlegustu hlutir sem fundust. Mikið var um pústkerfi, jafnvel undan rútum og flutningabílum, mikið var um dekk og dekkjadræsur og jafnvel dekk á felgum. Þá fundust rafgeymar, bílrúður, gormar og demparar. Sem sagt allir helstu varahlutir sem fylgja bílum. Þegar upp var staðið þá taldi þetta níu kerrur eða um 15 rúmmetra af varahlutum. Meðan á hreinsuninni stóð var mikið um að vegfarendur stoppuðu og gáfu sig á tal við hópinn og tjáðu jákvæða skoðun sína á átakinu. FramhaldÞegar verkefni sem þessu er lokið þá spyrja menn sig hvort framhald verði á og þá hvernig? Eitt af því gæti verið að fara eftir þjóðvegi númer 1 og hreinsa það sem þar er og jafnvel mætti fara víðar. Því eins og margoft hefur komið fram í könnunum bæði Ferðamálaráðs og annarra, þá er það náttúra landsins fyrst og fremst sem hefur mest áhrif á gesti okkar og þeirra upplifun af heimsókn til landsins. Það hlýtur því alltaf að vera hagur okkar sem í ferðaþjónustu störfum að verkefni sem þetta sé í gangi. Er þarna komin samstarfsvettvangur ríkis, ferðaþjónustufyrirtækja og sveitafélaga?  
Lesa meira

Gjaldeyristekjur - september 2000

GJALDEYRISTEKJUR UM 1,3 MILLJÖRÐUM MEIRI FYRSTU SEX MÁNUÐI ÁRSINS 2000 EN 1999. Seðlabankinn hefur nú sent frá sér tölur um gjaldeyristekjur fyrstu 6 mánuði ársins 2000. Gjaldeyristekjur janúar - júní   1999 2000 % Tekjur alls: 10.404 11.729 +12,7% Fargjöld: 4.741 5.038 6,2% Eyðsla á Íslandi: 5.663 6.691 +18,14% Gestafjöldi: 106.006 127.155 20% M.O. Sept. 2000  
Lesa meira

Göngustígagerð við Dynjanda

Dagana 13. og 14. júní kom saman hópur sjálfboðaliða til að laga göngustíg við fossinn Dynjanda í Arnarfirði. Hópurinn samanstóð af fimm konum frá sjálfboðaliðasamtökum um náttúruvernd, þremur au-pair stúlkum frá Hollandi og Þýskalandi og skiptinema frá Belgíu. Umsjón með verkinu var í höndum Hjalta Finnssonar frá Ferðamálaráði Íslands og ferðamálafulltrúa Vestfjarða. Verkið gekk mjög greiðlega fyrir sig, lögð var möl í um það bil kílómeters leið, og á nokkrum stöðum var lögð steinhleðsla meðfram stígum. Gamlar merkingar voru lagaðar og nýjar settar upp. Nú er leiðin meðfram fossinum orðin mjög aðgengileg og vel þess virði að ganga hana. Leiðin er stutt og tiltölulega auðveld og útsýnið stórfenglegt í allar áttir. Fossinn og umhverfi hans var friðlýst sem náttúruvætti árið 1981. Svæðið við Dynjanda er nú vinsæll viðkomustaður ferðamanna og er öll aðstaða þar til fyrirmyndar, klósett og þvottaaðstaða og gott að tjalda. Stutt er yfir á Hrafnseyri, en þar er safn Jóns Sigurðssonar, sem er afar áhugavert. Einnig er upplagt að fara í Selárdalinn í leiðinni og skoða safn Samúels Jónssonar. Þeir sem eru áhugasamir um að taka þátt í verkefnum sem þessum er bent á að hafa samband við Jóhönnu Jóhannesdóttur, formann sjálfboðaliðasamtaka um náttúruvernd í síma: 567-1669. Fleiri göngustígaverkefni eru á döfinni á Vestfjörðum í byrjun ágúst og veitir ferðamálafulltrúi Vestfjarða upplýsingar í síma: 450-3000. Öllum er velkomin þátttaka. Grein úr mbl. Sigríður G. Ásgeirsdóttir, Ísafirði 5/7 2000  
Lesa meira

Ferðamálasetur Íslands

Ferðamálasetur Íslands,  hefur verið sett á laggirnar á Akureyri. Að því standa Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri.   Hlutverk setursins, sem verður í tengslum við rekstrardeild HA, verður að stunda rannsóknir á sviði ferðaþjónustu. Arnar Már Ólafsson ferðamálafræðingur arnar@unak.is hefur verið ráðinn forstöðumaður setursins. Framlag Háskólans á Akureyri til setursins verður 1 milljón króna á ári auk þess sem hann leggur til húsnæðið, en Háskóli Íslands mun leggja til tvær milljónir. Þessar þrjár milljónir eru þó aðeins grunnurinn því leitað verður eftir samstarfi við ýmsar stofnanir og samtök sem hafa beina hagsmuni af auknum rannsóknum á sviði ferðaþjónustu. Dagur - júní 2000.  
Lesa meira

Nokkrir punktar varðandi innlendamarkaðssetningu og annað áhugavert á vegum

ÚtvarpÍ sumar verða ferðapistlar á Rás 2 sem verða í boði Ferðamálaráðs. Pistlarnir verða sendir út á miðvikudögum og fimmtudögum í allt sumar í þættinum Hvítir Mávar sem Gestur Einar Jónasson hefur umsjón með. Pistlarnir verða unnir af dagskrárgerðarfólki útvarpsins.  Umfjöllunarefnið verður ýmis landsvæði og afþreyingarmöguleikar fyrir landann og aðra gesti. Blað "Gaman að sjá þig" Í endaðan maí/byrjun júní verður ferðablaði FMR dreift um land allt í um 80 þús. eintökum. Blaðið verður 48. bls. umfjöllunarefnið verður að miklum hluta um afþreyingarmöguleika, einnig umhverfisþáttinn og landshlutana ásamt ýmiskonar fróðleik tengdum ferðalögum. Auglýsingar í MorgunblaðiðAlla fimmtudaga frá 1. júní til 31. ágúst verður dálkur um hvað verður á döfinni næstu sjö daga sem áhugavert væri að skoða. Þarna verður okkur ekkert heilagt, þ.e. allt áhugavert á aðgang í þennan dálk. Þarna verður ekki um ítarlega umfjöllun að ræða, en fólki bent á að hafa  samband við upplýsingamiðstöðvarnar til að fræðast nánar. Þeir sem hafa ábendingar eru beðnir um að senda upplúsingar á eliasgi@icetourist.is Bílinn allan heim, enga varahluti á hálendinuÞetta er nafn á hreinsunarátaki sem Ferðamálaráð á samt samstarfsaðilum stendur fyrir seinnipart sumars. Farið verður um alla helstu hálendisvegi landsins og varahlutir og annað rusl hreinsað. Samtals verða hreinsaðir rúmlega 1300 km. þessar þrjár vikur sem verkefnið stendur yfir.Meðal samstarfsaðila Ferðamálaráðs í verkefninu eru: Hekla, Höldur bílaleiga, Olís og Stíll auglýsingastofa. EBJ maí 2000  
Lesa meira

Hvalaskoðun - frétt frá Þýskalandi

Í nýjasta tölublaði Der Spiegel (15/2000) er fjallað um hvalveiðar og tilraunir Japana til að kaupa málstað sínum fylgis innan landa alþjóðlegu hvalveiðinefndarinnar (IWC). Í lok greinarinnar er fjallað um hvalaskoðanir og framtíðargildi þeirra og farið lofsamlegum orðum um Ísland: "Fyrirmynd hinnar friðsamlegu nútímastefnu er Ísland. Á hinni brimsorfnu norðurhafseyju er hvalaskoðun nú þegar orðin mikilvæg atvinnugrein. Um 34.000 ferðamenn lögðu á liðnu ári úr höfn á kaldan sæ. Það sem hreif þá voru ekki kynni bragðlaukanna af hvalnum heldur hinn ca. 9 metra hái blástursstrókur frá hinum allt að 30 metra löngu og allt að 130 tonna þungu bláhvölum, einhverjir mestu risar sem í þessum heimi hafa lifað."  
Lesa meira

Ferðaþjónusta á internetinu

"Internetið er að snúa hinum hefðbundnu dreifingarleiðum ferðaþjónustunnar á hvolf.Ef einstök svæði ætla að taka þátt í byltingunni er þeim betra að haska sér". Þetta var niðurstaða ráðstefnu sem fram fór í Madrid 27. janúar 2000 um viðskipti á internetinu og ferðaþjónustu. Þeir sem munu ná mestum árangri í notkun netsins við sölu og markaðsfærslu ferðaþjónustu eru annars vegar stórfyrirtæki, flugfélög og ferðaskrifstofur og hins vegar smáfyrirtæki sem vinna á þröngum markaðssyllum. Þegar einstakir birgjar og ferðamannastaðir taka til við markaðsfærslu á netinu mun hlutverk og ráðandi staða stórra ferðaskrifstofa minnka og bein viðskipti milli ferðamanns og birgja munu aukast. Þetta kom fram í máli ferðamálastjóra Spánar, Germán Porras, sem ræddi um breytta kauphegðun á tímum upplýsingabyltingarinnar. "Innihald og upplýsingar skipta öllu máli" var inntak ræðu sem Gerry MacGowern frá írska fyrirtækinu NUA Internet Surveys.  "Leiðin til að laða ferðamenn að svæðum með Internetinu er að gefa eins nákvæmar og ítarlegar upplýsingar og mögulegt er og svara svo öllum fyrirspurnum strax, það þýðir samdægurs. Þá verða birgjar að ná sambandi strax við mögulega kaupendur með gagnvirkum heimasíðum og þannig reyna að að laða þá til kaupa". Þróunin er sú að ferðamenn vafra um á netinu til að leita sér upplýsinga, kaupa e.t.v einstakar einingar í smáum stíl beint af netinu, en pakkaferðir og heildarlausnir eru enn seldar af ferðaskrifstofum þar sem ferðamaður skynjar minni áhættu af því að "tala við einhvern" heldur en senda tölvuskeyti út í tómið á internetinu. Þá má að lokum benda á bæklinginn "Marketing tourism destinations online" sem er gefinn út af WTO. (Tekið saman úr fréttabréfi WTO Mars, 2000).  
Lesa meira