Hvalaskoðun á Íslandi árið 2000 - okt 2000

Hvalaskoðun á Íslandi árið 2000 - okt 2000
HvalaskodunIslandi

Málefni: Hvalaskoðun á Íslandi árið 2000.
Hvalamiðstöðin á Húsavík sem undanfarin 5 ár hefur gefið út skýrslu um umfang og þróun hvalaskoðunarferða hér við land hefur nú tekið saman upplýsingar um fjölda ferðamanna í hvalaskoðunarferðum á þessu ári.

Gerður er fyrirvari með endanlega niðurstöðu á heildarfjölda ferðamanna vegna þess að enn er boðið upp á hvalaskoðunarferðir frá Reykjanesi. Endanlegar tölur liggja því enn ekki fyrir hjá öllum fyrirtækjunum. Ennfremur vantar upplýsingar frá nýjum fyrirtækjum sem boðið hafa upp á hvalaskoðunarferðir í sumar.

Þrátt fyrir þessa fyrirvara liggur fyrir að veruleg auking hefur orðið á fjölda farþega í hvalaskoðunarferðum hér við land á þessu ári, eða um 25%. Þessi
aukning fer fram úr björtustu vonum þeirra aðila sem staðið hafa að uppbyggingu á þessari nýju grein ferðaþjónustunnar.

Sjá eftirfarandi töflu sem sýnir þróun hvalaskoðunarferða frá árinu 1995 til ársins 2000.

Eins og sjá má á hafa vinsældir hvalaskoðunarferða aukist gríðarlega á þeim 6 árum sem liðin eru síðan þessi nýja grein afþreyingarferðamennsku komst á skrið hérlendis. Ekki er líklegt að svona mikill fjöldi einstaklinga fari í hvalaskoðunarferðir hér við land yfir sumartímann, heldur má ætla að fjölmargir ferðamenn fari á fleiri en einn eða tvo staði á landinu til að skoða hvali ásamt því að einhver fjöldi ferðamanna fer oftar en einu sinni út á sjó. Þetta bendir til að töluverður fjöldi ferðamanna komi til landsins, m.a. í þeim tilgangi að fara í hvalaskoðun.

Ætla má að beinar tekjur "ferðaþjónustunnar" af hvalaskoðunarferðamennsku hafi numið allt að 660 milljónum á þessu ári. Þessar tekjur skiptast misjafnlega á milli fyrirtækja, s.s. flugfélaga, rútufyrirtækja, bílaleiga, hótela, gistiheimila, veitingahúsa, hvalaskoðunarfyrirtækja og annarra fyrirtækja sem með einum eða öðrum hætti koma beint að þjónustu við þessa ferðamenn. Tekjurnar hefðu orðið enn meiri ef ekki hefði komið til rútuverkfall í upphafi vertíðarinnar.

Þegar horft er til margfeldisáhrifa beinna tekna af ferðaþjónustunni má gera ráð fyrir að heildarvelta þjóðarbúsins í tengslum við hvalaskoðunarferðamennsku hafi numið rúmum milljarði á árinu 2000, sjá eftirfarandi útreikninga.

Skilgreining á skiptingu ferðamanna Skipting á fjölda
ferðamanna
Áætluð útgjöld
á mann
Samtals
krónur
Hópur 1:  Íslendingar 6.000 5.000 30.000.000
Hópur 2:  Hvalaskoðun ástæða Íslandsferðar 4.000 120.000 480.000.000
Hópur 3:  Hvalaskoðun hluti af ferðaáætlun 4.000 15.000 60.000.000
Hópur 4:  Hvalaskoðun ákveðin á staðnum 30.000 3.000 90.000.000
       
Áætlaðar beinar tekjur af ferðamönnum  

Alls krónur:

66.000.000
       
Margfeldisstuðull fyrir beina veltu 1,63*  

Alls krónur:

415.800.000
       
Áætluð heildarvelta vegna hvalaskoðunarferðamennsku  

Samtals krónur:

1.075.800.000

Til að meta heildaráhrif hvalaskoðunarferða á efnahagslífið verður að taka með í reikninginn margfeldisáhrif beinnar veltu greinarinnar. *Engar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum einstakra þátta innan ferðaþjónustunnar á efnahagslífið en samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun eru t.d. margföldunaráhrif gjaldeyristekna 1,5. Margfeldisáhrif ferðaþjónustunnar almennt séð, og þar með talið hvalaskoðunar kunna að vera eitthvað hærri að mati starfsmanns stofnunarinnar. (*samkvæmt upplýsingum 1998)

Eftir samtöl við ferðamálafræðinga og fleiri aðila hef ég ákveðið að gera ráð fyrir margföldunarstuðlinum 1.63 í útreikningum þessum. Ég árétta að mikilvægt er að gerð verði óháð úttekt á efnahagslegum áhrifum hvalaskoðunarferða til að fá fram örugga niðurstöðu. Ég hef ítrekað lagt til að Þjóðhagsstofnun eða Hagfræðistofnun Háskóla Íslands verði falið að gera úttekt á þessum þætti ferðaþjónustunnar en ekki fengið nein viðbrögð.

Ef frekari upplýsinga er þörf þá vinsamlega hafið samband við undirritaðan í síma 891-9820 eða með tölvupósti á: icewhale@centrum.is

Húsavík 10. október 2000.
Ásbjörn Björgvinsson
forstöðumaður Hvalamiðstöðvarinnar á Húsavík

 


Athugasemdir