Fara í efni

Upplýsingavinnsla ferðamennsku

Gagnabanki ferðaþjónustunnar

Háskólinn á Akureyri og Ferðamálaráð Íslands hafa gert með sér samning um uppsetningu og rekstur gagnabanka fyrir ferðaþjónustu. Um er að ræða gagnabanka sem mun vista talnagögn, skýrslur, rannsóknir og ritgerðir um ferðamál og ferðaþjónustu. Sú leið var valin að bjóða verkið út með lokuðu útboði og hafa nokkrir aðilar verið valdir til þess.

Vandinn sem gagnabankinn á að leysa er sá að gögn um ferðaþjónustu og ferðamál eru dreifð og misaðgengileg. Með gagnabanka sem er aðgengilegur á veraldarvefnum er ætlunin að notendur hafi góða yfirsýn yfir þau gögn sem til eru um ferðamál og aðgengi að upplýsingum sé auðvelt. Því verður lögð áhersla á notendavænt viðmót, hraða og skýrleika leiðbeininga.

Notendur upplýsinganna eru nemendur, fræðimenn, ferðaþjónustuaðilar, opinberar stofnanir og almenningur sem notar gögn og upplýsingar um ferðamál til fræðistarfa, skipulags, kennslu og hverra þeirra verkefna er krefjast heimilda og upplýsinga um ferðaþjónustu og ferðamál.

Gagnagrunnurinn verður vistaður á vefþjóni Háskólans á Akureyri og verður uppfærður þar. Ráðinn verður starfskraftur til að uppfæra gögn í gagnagrunninn og sinna verkefninu af hálfu eigenda. Starfssvið þess starfskrafts er að slá inn gögn, svara fyrirspurnum og sinna verkefninu þannig að ekki verði tafir eða misfellur við afgreiðslu fyrirspurna og miðlun gagna.

Samningur verður gerður við hvern og einn aðila sem leggur til gögn í grunninn. Efni þess samnings er í grófum dráttum það að eignarhald gagnanna breytist ekki og í honum er kveðið á um meðferð gagnanna. Gagnagrunnurinn kaupir ekki gögn heldur selur þau í umboðssölu. Þannig er um miðlun gagna að ræða ýmist gegn gjaldi eða án endurgjalds eftir eðli gagnanna.

Hagsmunir ferðamennsku norðan Vatnajökuls

Vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á hálendinu norðan Vatnajökuls þótti Ferðamálaráði nauðsynlegt að kanna hvort hagsmunum ferðamennsku væri fórnað og hvort hægt væri að svara því með einhverjum hætti í hverju hagsmunir ferðamennsku fælust á þessu svæði. Ferðamálaráð hefur því látið vinna skýrslu um hagsmuni ferðamennsku norðan Vatnajökuls. Skýrsluna unnu Anna Dóra Sæþórsdóttir, Birgir Jónsson og Björn Sigurjónsson. Skýrslan er nú til yfirlestrar og má vænta þess að hún líti dagsins ljós innan nokkurra vikna.

Björn Margeir Sigurjónsson, mars 2000.