Fara í efni

Ísland tekur við formennsku í Ferðamálaráði Norðurlanda.

Á aðalfundi Ferðamálaráðs Norðurlanda, sem haldinn var í Kaupmannahöfn 12. október sl. tók Ísland við formennsku í ráðinu í fyrsta sinn.

Aðild að Ferðamálaráði Norðurlanda eiga Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð og var til þess stofnað fyrir rúmlega 30 árum.
Ferðamálaráð Norðurlanda sér um ýmis sameiginleg markaðs- og kynningarmál landanna fimm þar sem slíkt er talið henta og stendur að sameiginlegum ferðasýningum.
Þá hefur ráðið í vaxandi mæli unnið að úrvinnslu tölfræði um ferðamál á Norðurlöndunum og gerð kannana á okkar sameiginlegu markaðssvæðum auk ýmissa annarra verkefna, sem snerta sameiginleg hagsmunamál ferðaþjónustu á Norðurlöndum.

Þá á og rekur Ferðamálaráð Norðurlanda hlutafélagið Scandinavian Tourism Inc. í Bandaríkjunum.
Það fyrirtæki sér um öll sameiginleg markaðs- og upplýsingamála landanna fimm í N- Ameríku.

Formaður Ferðamálaráðs Íslands Tómas Ingi Olrich gegnir þannig formennsku í Ferðamálaráði Norðurlanda næstu tvö árin og Magnús Oddsson ferðamálastjóri verður sama tíma framkvæmdastjóri ráðsins.
Þá verður forstöðumaður Ferðamálaráðs Íslands í Bandaríkjunum, Einar Gústafsson framkvæmdastjóri hlutafélagsins Scandinavian Tourism Inc..

M.O. 17. okt. 2000