Fréttir

Sigurður Atlason áfram formaður á Vestfjörðum

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Vestfjarða var haldinn í Bjarkalundi í Reykhólasveit um nýliðna helgi. Þar var meðal annars kosið í stjórn og var Sigurður Atlason endurkjörinn formaður. Sigurður, sem veitir Strandagaldri á Hólmavík forstöðu, hefur verið formaður samtakanna síðastliðin þrjú ár. Hann hafði lýst því yfir að hann gæfi ekki kost á sér áfram og fór yfir ástæður þess á aðalfundinum. Sigurður er afar ósáttur við vinnubrögð við fyrirhugaða sameiningu stofnana stoðkerfisins á Vestfjörðun, eins og nánar kemur fram í frétt reykholar.is af fundinum. Eftir eindregnar áskoranir féllst Sigurður á að bjóða sig áfram fram og var einn í köri til formanns. Með honum í stjórn voru kjörin: Ester Rut Unnsteinsdótir, Sigurður Arnfjörð, Elfar Logi Hannesson, Halldóra Játvarðardóttir, Jón Þórðason og Valgeir Benediktsson. Mynd: Ný stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða, af www.reykholar.is
Lesa meira

Kallað eftir erindum á ráðstefnu um tölfræði í ferðaþjónustu

Auglýst hefur verið eftir erindum á ráðstefnu um tölfræði í ferðaþjónustu (Global Forum on Tourism Statistics)  sem haldin verður í fyrsta sinn á Íslandi dagana 14-16 nóvember 2012. Vakin er athygli á því að frestur til að senda inn erindi fyrir ráðstefnuna rennur út 30. apríl n.k. Ágrip skal senda inn  í gegnum heimasíðu ráðstefnunnar og skulu þau ekki vera lengri  en 400 orð. Ráðstefnan sem er haldin annað hvert ár af EUROSTAT (Hagstofu Evrópusambandsins) og ferðamálanefnd OECD er á þessu ári haldin í samvinnu við ráðuneyti ferðamála (iðnaðarráðuneytið), Hagstofu Íslands, Ferðamálastofu og Rannsóknarmiðstöð ferðamála. Allar nánari upplýsingar má finna á vef ráðstefnunnar 
Lesa meira

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Íslands

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Íslands verður haldinn í Reykholti í Borgarfirði þriðjudaginn 17. apríl 2012 og hefst kl. 13. Þar verða flutt fróðleg erindi og er fundurinn opinn öllum sem vinna við og hafa áhuga á ferðaþjónustu.    Dagskrá: Kl. 13. 00. Gæðakerfið VAKINN, það er okkar mál !!!Gæða- og umhverfisverkefnið er unnið í náinni samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtök Íslands, enda mikilvægt að breið samstaða skapist um þennan málaflokk.  Meginmarkmið kerfisins er að auka og efla gæði í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja. Áslaug Briem verkefnisstjóri á Ferðamálastofu verður á fundinum með ýmis gögn og leiðbeiningar um fyrstu skrefin kl. 14. 00 " Auður eyjunnar "Undirtitill:  Um fólk í ferðaþjónustu framtíðarHansina B Einardóttir, Þróunarstjóri hjá Skref fyrir skref ráðgjöf Í erindi sínu mun Hansína m. a fjalla um viðhorf ferðþjónustuaðila hér á landi til atvinnugreinarinnar og horfa til framtíðar. Síðastliðið sumar heimsótti hún 126 ferðaþjóna um allt land til að kanna þörf og áhuga á menntun í ferðaþjónustu.  Inn í þetta fléttar hún stuttan samanburð og dæmi frá ferðum í vetur til UK, Lanzarote, Fuenventura og Írlands. Kaffihlé Kl. 15.30 Venjuleg aðalfundarstörf Kl. 17.30 fundi slitið kl. 20.00 Kvöldverður og kvöldvaka Gistitilboð á Hótel Reykholti Nánari upplýsingar og skráning á www.ferðamálasamtok.is eða í síma 866-6858
Lesa meira

Loftmyndir með nýjan stafrænan kortagrunn af öllu landinu

Loftmyndir hafa nú lokið gerð nýs stafræns kortagrunns af öllu Íslandi í mælikvarða 1:50.000. Kortin eru unnin uppúr landfræðilegum gagnagrunni sem fyrirtækið hefur safnað undanfarin 15 ár. Í tilkynningu frá Loftmyndum segir að reglubundið viðhald tryggi hámarks gæði og áreiðanleika sem ekki sé að finna í öðrum landfræðilegum gagnasöfnum af landinu. Öll gögn í TK?50 eru unnin eftir frumgögnum sem hafa nákvæmni 20?100 sm staðalfrávik. TK?50 er einfölduð útgáfa af TK?5 sem er kortagrunnur í viðmiðunarmælikvarða 1:5.000. Viðhaldið með reglubundnum hættiLoftmyndir taka myndir af 8?12þ km² af Íslandi árlega sem m.a. nýtast við uppfærslu TK-50. Fitjur, gildi og eigindi í TK?50 eru flokkuð og skráð samkvæmt íslenskum staðli ÍST120. Með TK-50 kemur nákvæm vatnafarsþekja þar sem búið er að teikna ár, vötn og skurði af öllu Íslandi. Hægt er að fá sem aukalag í TK-50 sérstaka útgáfu af vatnafari þar sem búið er að skrá rennslisstefnu allra vatnsfalla frá upptökum til ósa. Allar línur eru stefnusettar miðað við rennslisstefnu og eru tengdar með rennslislínum í gegnum stöðuvötn og stærri ár. Á rennslislíkan eru skráð eigindi eins og númer vatnasviðs, nafn o.fl. Landlíkanið í TK-50 er með 20 metra möskvastærð. Líkanið er einfölduð útgáfa af 10 metra frumlíkani Loftmynda ehf. Líkanið hentar t.d. vel til útreikninga á landmössum, dreifingu þráðlausra sendinga og framsetningar á þrívíðum gögnum. Loftmyndir bjóða upp á aðgang að gögnunum gegn leigu, bæði af landinu öllu sem og af hlutum þess. Í leigugjaldi eru innifaldar allar framtíðar uppfærslur. Þá má einnig benda á TK-250, stafrænt Íslandskort Loftmynda í mælikvarðanum 1:250.000 sem einstaklingar, fyrirtæki og stofnunum er heimilt að nota gjaldfrjálst. Vefur Loftmynda:www.loftmyndir.is
Lesa meira

Viðurkenningar í austfirskri ferðaþjónustu

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Austurlands var haldinn í liðinni viku. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var boðið upp á Góugleði þar sem voru meðal annars veittar tvær viðurkenningar, Frumkvöðullinn og Kletturinn. Álfheimar fengu frumkvöðlaverðlaunFrumkvöðullinn er veittur þeim sem sýna áræði og hugmyndaauðgi við uppbyggingu á þjónustu fyrir ferðamenn og stuðla með verkum sínum að aukinni fjölbreytni í atvinnugreininni á Austurlandi. Verðlaunin komu að þessu sinni í hlut Ferðaþjónustunnar Álfheima á Borgarfirði eystra. Arngrímur Viðar Ásgeirsson og Þórey Sigurðardóttir tóku við verðlaununum en þau eiga og reka fyrirtækið í samvinnu við foreldra Arngríms. Þau eru hér hægra megin á myndinni með Ólöfu Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra og Skúla Birni Gunnarssyni, formanni stjórnar Markaðsstofu Austurlands. Klífa erfiða hjallaKletturinn er veittur þeim einstaklingum sem um árabil hafa staðið í framlínu í ferðaþjónustu á Austurlandi og þar með stuðlað að framgangi og vexti atvinnugreinarinnar um lengi tíma. Þeir eru, að því er segir í fréttatilkynningu, bjargið sem ferðaþjónustan byggist á og öðrum fyrirmynd í að klífa örðuga hjalla til að ná handfestu á framtíðinni. Að þessu sinni var Kletturinn veittur farfuglaheimilinu í Húsey sem Örn Þorleifsson hefur rekið allt frá 1981 og jafnlengi eða lengur lagt sitt af mörkum við að glæða áhuga erlendra ferðamanna á Austurlandi. Örn tók við viðurkenningunni ásamt Laufeyju Ólafsdóttur en þau reka ferðaþjónustuna í Húsey. Díana Mjöll nýr formaðurMikil endurnýjun varð á stjórn þeirra því aðeins Albert Jónsson, Djúpavogi, varð eftir í stjórn. Díana Mjöll Sveinsdóttir, frá Tanna Travel á Eskifirði, er nýr formaður. Ný stjórn Ferðamálasamtaka Austurlands: Díana Mjöll Sveinsdóttir, Tanni Travel Eskifirði Albert Jensson, Adventura Djúpavogi Hákon Guðröðarson, Menningarfjelagið Norðfirði Jóhann Jónsson, Austfar Seyðisfirði Sævar Guðjónsson, Ferðaþjónustan Mjóeyri Eskifirði - halldor@ferdamalastofa.is 
Lesa meira

Enn met í fjölda ferðamanna

Erlendir ferðamenn hafa aldrei verið jafnmargir í marsmánuði og í ár en samkvæmt talningum Ferðamálastofu fóru 33.600 erlendir ferðamenn frá landinu í nýliðnum marsmánuði eða tæplega sjö þúsund fleiri en í sama mánuði árið 2011. Að jafnaði 7,9% aukning milli áraAukning ferðamanna nú í mars mældist 26,2% milli ára en á því ellefu ára tímabili sem Ferðamálastofa hefur talið ferðamenn í Leifsstöð hefur aukningin verið að jafnaði 7,9% milli ára í mánuðinum. Ferðamenn í nýliðnum mars voru tæplega helmingi fleiri en í sama mánuði árið 2002, eins og sjá má í töflunni hér til hliðar. 78% ferðamanna af átta þjóðernumAf einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í mars frá Bretlandi eða 27,1% af heildarfjölda. Næstfjölmennastir voru Bandaríkjamenn eða 13,4% af heildarfjölda, síðan komu Norðmenn (9,4%), Danir (8,0%), Þjóðverjar (6,0%), Frakkar (5,2%), Svíar (5,0%) og Hollendingar (3,8%). Samtals voru þessar átta þjóðir 77,9% af heildarfjölda ferðamanna í mars. Bretar báru uppi fjölgun í marsEf litið er til einstakra markaðssvæða í mars má sjá verulega aukningu frá Bretlandi milli ára eða um 59,2%. Umtalsverð aukning var frá löndum sem flokkast undir ,,Annað” eða um tæpan þriðjung. Fimmtungsaukning var frá Norðurlöndunum og sama má segja um N-Ameríku. Mið- og S-Evópubúar stóðu hins vegar í stað. Þróunin frá áramótumFrá áramótum hafa 87.658 erlendir ferðamenn farið frá landinu sem er um 22 prósenta aukning frá árinu áður. Um 54% aukning hefur verið í brottförum Breta, um fjóðungsaukning (25,3%) í brottförum N-Ameríkana og sama aukning frá löndum sem flokkast undir ,,Annað”. Brottförum Norðurlandabúa hefur fjölgað lítils háttar eða um 6,6%. Mið- og S-Evrópubúum hefur hins vegar fækkað lítils háttar. Utanferðir ÍslendingaTæplega fjögur þúsund fleiri Íslendingar fóru utan í mars í ár en í fyrra. Í ár fóru 26.494 Íslendingar utan en 22.641 árið áður. Aukningin nam 17,0% á milli ára. Frá áramótum hafa um 71 þúsund Íslendingar farið utan, 6.103 fleiri en á sama tímabili árið 2011 þegar 65 þúsund Íslendingar fóru utan. Aukningin nam 9,4% milli ára.Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Talnaefni/Feðamannatalningar hér á vefnum. Nánari upplýsingar gefur Oddný Þóra Óladóttir, rannsóknastjóri, oddny@ferdamalastofa.is    
Lesa meira