Fara í efni

Nýr Norðurlandsvefur opnaður

Í gær opnaði Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sameiginlega vefsíðu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi, www.nordurland.is. Þetta er fyrsti vefurinn þar sem allur landshlutinn er kynntur sameiginlega og er árangur af starfi Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi.

Samræmd miðlun upplýsinga
Á vefnum er að finna fjölbreyttar upplýsingar um ferðamöguleika, afþreyingu og annað sem þarf til að skipuleggja ferð um Norðurland. Hann markar þó ekki einungis tímamót að því leyti að vera fyrsti ferðavefurinn sem kynnir allt Norðurland sameiginlega heldur voru við gerð hans stigin ný skref hvað varðar miðlun upplýsinga í samstarfi við Ferðamálaráð Íslands. Þannig nýtir Norðurlandsvefurinn upplýsingar beint úr gagnagrunni Ferðamálaráðs, svo sem um gististaði, afþreyingu, samgöngur og fleira. Ásamt því að spara fé og fyrirhöfn tryggir þetta samræmda miðlun upplýsinga til ferðafólks. Þá er uppbygging og útlit á vefnum einnig með áþekkum hætti og á landkynningarvef Ferðamálaráðs, www.visiticeland.com


Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi (MFN) hefur starfað frá árinu 2003. Hún er samstarfsvettvangur Norðurlands í ferðamálum og er í eigu ferðamálasamtaka Norðurlands eystra og Norðurlands vestra. Helsta hlutverk skrifstofunnar er að samræma markaðs- og kynningarmál norðlenskrar ferðaþjónustu gagnvart innlendum og erlendum ferðamönnum. Einnig styrkir hún og tekur virkan þátt í klasasamstarfi í tengslum við Vaxtarsamning Norðurlands. Ferðaþjónustufyrirtæki geta leitað eftir aðstoð og ráðgjöf hjá markaðsskrifstofunni varðandi kynningar- og markaðsmál. Einnig stendur skrifstofan fyrir fræðslu fyrir ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi í samstarfi við símenntunaraðila á svæðinu. Skipulagning heimsókna fjölmiðla- og ferðaskrifstofufólks er einnig stór þáttur í starfseminni og hann er afar mikilvægur þáttur í að koma Norðurlandi á framfæri erlendis, svo nokkur helstu verkefni skrifstofunnar séu nefnd.


Valgerður Sverrisdóttir býr sig undir að opna nýja vefinn og Áskell Heiðar Ásgeirsson fylgist með.


Skálað fyrir vel hepnuðu verki. Talið frá vinstri: Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands; Ásbjörn Björgvinsson, formaður Ferðamálasamtaka Norðurlands eystra; María Axfjörð, starfsmaður MFN; Kjartan Lárusson, framkvæmdastjóri MFN, Rósa Aðalsteinsdóttir, verkefnisstjóri MFN, Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskipatráðherra og Áskell Heiðar Ásgeirsson,  sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar en hann stýrði vinnu við gerð nýja vefsins.
Myndir: Ferðamálaráð/HA