Fara í efni

Ferðalög, ferðahegðun og viðhorf Íslendinga til erlendra ferðamanna og ferðaþjónustu

Ferðamálastofa birtir nú niðurstöður úr könnun um ferðalög Íslendinga og er þetta  í áttunda sinn sem könnunin er unnin með sambærilegum hætti. Niðurstöðurnar gefa til kynna hvernig ferðalögum Íslendinga var háttað á árinu 2016 og hver ferðaáform þeirra eru á árinu 2017, auk þess sem þær endurspegla viðhorf Íslendinga til nokkurra þátta í tengslum við ferðamennsku á Íslandi.  Könnunin var gerð í janúar sl. af MMR fyrir Ferðamálastofu.

Niðurstöður í skýrslu og vef

Niðurstöður má nálgast á skýrsluformi og á vefsvæði þar sem hægt er að skoða þær með ýmsum hætti myndrænt og með hliðsjón af fyrri könnunum.

Viðhorf til ferðaþjónustu og ferðamanna

Í könnuninni voru þátttakendur beðnir um að taka afstöðu til nokkurra fullyrðinga um áhrif ferðaþjónustu og erlendra ferðamanna á náttúru og samfélag. Svarendur voru spurðir um það hversu sammála eða ósammála þeir hefðu verið þeim fullyrðingum sem birtast á grafinu hér að neðan. Eins og sjá má voru langflestir svarendur eða 79% á því að álag ferðamanna á íslenska náttúru væri of mikið en þeim hefur fjölgað ár frá ári sem hafa þá skoðun en hlutfallið var 63% árið 2014, 66% árið 2015 og 76% árið 2016.

Tæplega helmingur var sammála því að ferðamenn hefðu aukið áhuga Íslendinga á náttúrunni en það hlutfall er lægra en í fyrri könnunum. Tveir af hverjum þremur voru á því að ferðamenn hefðu ekki stuðlað að bættu samgöngukerfi í landinu en þessi staðhæfing hefur ekki verið lögð áður fyrir svarendur í könnun Ferðamálastofu. Ríflega þriðjungur taldi að ferðaþjónusta hefði leitt til fjölbreyttari þjónustu sem þeir hefðu nýtt sér sem er nokkuð lægra hlutfall en fyrri kannanir sýna. Þar að auki var spurt um það hvort svarendur teldu að ferðamenn hefðu takmarkað aðgengi Íslendinga að þjónustu og töldu tveir af hverjum fimm ekki svo vera en tæplega þriðjungur var á því þeir hefðu takmarkað aðgengið. Þessi staðhæfing hefur ekki áður verið lögð fyrir svarendur. Rúmlega helmingur svarenda var á því að ferðaþjónusta hefði skapað eftirsóknarverð störf í þeirra heimabyggð en það hlutfall virðist fara lækkandi en um 59% voru sammála þessari fullyrðingu árið 2014 og 56% árið 2015 og 2016. Um 40% voru sammála þeirri fullyrðingu að ferðamenn hefðu aukið áhuga Íslendinga á eigin menningu sem er mun lægra hlutfall en hefur mælst í fyrri könnunum.

Í könnuninni var í fyrsta sinn lögð fyrir sú staðhæfing að ferðamenn hafi breytt íslensku samfélagi til hins betra og voru 40% sammála henni, 25% ósammála og 25% hvorki sammála né ósammála.

Áhrif ferðaþjónustu

Þegar svarendur voru spurðir út í hvað þeim fyndist um fjölda ferðamanna sögðust 71% telja ferðamenn heldur eða allt of marga að sumri en um þriðjungur að vetri. Ríflega helmingur taldi að fjöldinn væri hæfilegur að vetri og um fjórðungur að hann væri hæfilegur að sumri. Ekki margir, eða aðeins 3%, töldu ferðamenn vera of fáa að sumarlagi en 13% töldu ferðamenn að vetrarlagi vera of fáa. Sama spurning var lögð fyrir í könnun sem Félagsvísindastofnun framkvæmdi fyrir Ferðamálastofu meðal Íslendinga í árslok 2014 en niðurstöður voru nokkuð frábrugðnar í könnuninni nú. Þá fannst 29% ferðamenn að sumri of margir en einungis 3% að ferðamenn að vetri væru of margir.

Hvað fannst þér um fjölda ferðamanna

Ferðalög innanlands

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar ferðuðust um 84% innanlands á síðasta ári en í samanburði við fyrri kannanir þá virðist þróunin vera í þá átt að hlutfall þeirra sem ferðast innanlands fer heldur lækkandi. Farnar voru að jafnaði 5,9 ferðir innanlands og dvalið að jafnaði 14,5 nætur á ferðalögum árið 2016 eða álíka margar ferðir og nætur og á árinu 2015.

Hvar var gist

Gistinætur innan einstakra landshluta gefa til kynna að ríflega fjórðungi gistinótta á ferðalögum hafi verið eytt á Suðurlandi árið 2016, tæplega fjórðungi á Norðurlandi og fjórðungi á Vesturlandi og Vestfjörðum og eru niðurstöðurnar nokkuð svipaðar og fyrir árið 2015 . Gistinætur á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi voru hins vegar hlutfallslega fleiri árið 2016 en 2015.

Gistinætur eftir landshlutum

Hvert var farið?

Hvaða landshlutar voru heimsóttirSuðurland var sá landshluti sem flestir heimsóttu á árinu en 58% nefndu þann landshluta og þar á eftir kom Norðurland en 52,3% fóru þangað. Alls var spurt um heimsóknir á 55 staði og svæði vítt og breitt á landinu og lítur listinn yfir fjölsóttustu staðina þannig út:

  • Akureyri 28%
  • Höfuðborgarsvæðið 27%
  • Borgarnes 21%
  • Egilsstaðir/Hallormsstaður 15%
  • Húsafell/Reykholt 14%
  • Þingvellir 14%
  • Skagafjörður 14%
  • Geysir Gullfoss 14%
  • Stykkishólmur 13%
  • Siglufjörður 12%
  • Mývatnssveit 12%

Hvaða afþreying var keypt

Sundferðir eru sem fyrr sú afþreying sem algengast er að Íslendingar greiði fyrir á ferðum sínum um landið en 45% svarenda nefndu þann valkost. Næst á eftir komu söfn og sýningar með 21% og leikhús eða tónleikar með 8%. Aðrir valkostir voru með undir 10% svarhlutfall og 34% kvaðst ekki hafa greitt fyrir afþreyingu í ferðalagi sínu.

Upplýsingaöflun

Ríflega helmingur svarenda, eða 52%, kvaðst hafa leitað sér upplýsinga varðandi ferðir sínar innanlands, oftast á Internetinu. Þegar þeir voru síðan spurðir hvers konar upplýsingum leitað var eftir nefndu flestir upplýsingar um veðrið, eða 62%. Rétt um helmingur nefndi upplýsingar um opnunartíma, gistingu eða afþreyingu og 42% nefndu upplýsingar um verð. Leiðarvísun var tilgreind af 34% svarenda. Niðurstöðurnar eru í takt við könnunina árið áður.

Dagsferðir

UM 63% fóru í dagsferð á síðasta ári og fóru þeir að jafnaði 5,1 ferð. Dagsferð var skilgreind sem skemmtiferð, fimm klst. löng eða lengri út fyrir heimabyggð án þess að gist sé yfir nótt. Mun fleiri fóru í dagsferð árið 2015 eða 72% en þegar litið er til lengri tíma þá hefur hlutfall þeirra sem hefur farið í dagsferð verið á bilinu 62-67%.

Um 60% heimsóttu Suðurland í dagsferðum, um þriðjungur Vesturland, um fimmtungur höfuðborgarsvæði og Reykjanes og ríflega fjórðungur Norðurland. 

UtanlandsferðirUtanlandsferðir

Um 76% aðspurðra fóru í utanlandsferð á árinu og er það hæsta hlutfall sem hefur mælst í könnunum Ferðamálastofu síðastliðin átta ár. Farnar voru að jafnaði 2,45 ferðir, aðeins fleiri en árið 2015 en þá voru farnar 2,2 ferðir að jafnaði. Gistinætur í útlöndum voru að jafnaði 18,8 nætur á árinu 2016 en árið 2015 voru þær 17,5 talsins. 

Flestir fóru í borgarferð eða 48,2% aðspurðra, 36,4% heimsóttu vini og ættingja, 33,3% fóru í sólaralandaferð og 22,7% í vinnutengda ferð.

Ferðaáform 

Níu af hverjum tíu hafa áform um ferðalög á árinu 2017 eða sambærilegur fjöldi og í fyrri könnunum. Ferðaplönin eru eins og fyrri kannanir hafa sýnt fjölbreytt en helmingur ætlar í sumarbústaðaferð, 48% í borgarferð til útlanda, 42% í heimsókn til vina og ættingja innanlands og 25% í útlöndum og 32% í sólarlandaferð. Önnur ferðaáform voru nefnd s.s. að elta góða veðrið, útivistarferð og vinnuferð erlendis.

Hvers konar utanlandsferð

Um könnunina

Könnunin var unnin sem netkönnun dagana 12. til 26. janúar 2017. Úrtakið var 1.370 Íslendingar á aldrinum 18-80 ára, valdir handahófskennt úr 18.000 einstaklinga álitsgjafahópi MMR sem valinn er með tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 66,4%. Niðurstöður könnunarinnar eru vigtaðar með tilliti til kyns, aldurs, búsetu og menntunar í þýði. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum MMR.